Það var mikið um að vera í stjórnmálunum í lok liðinnar viku þegar fyrsti ráðherra þriggja mánaða gamallar ríkisstjórnar sagði af sér. Samt var svo skrýtið að á laugardag virtist Ríkisútvarpið uppiskroppa með fréttir af málinu.
Ef það vantar fréttir af valkyrjum liggur beinast við að hringja í íslenska Wagner-klúbbinn, sem um þær mundir var staddur í sælkeraferð í Barcelona. Þar kvað upp sýknudóm Ólafur Þ. Harðarson, uppgjafaprófessor í stjórnmálafræði, sem engum dettur í hug að dragi taum Samfylkingarinnar.
Hann var ekki í vafa um nokkur mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur og kvað upp sinn dóm: „Ásakanirnar á hendur Ásthildi Lóu virðast nú þegar betur er skoðað vera tilhæfulitlar eða tilhæfulausar […] ég held að við verðum að trúa því að hún segi satt og rétt frá.“
Svo tekur stjórnmálaskýrandinn við: „Þetta er auðvitað mjög óþægilegt fyrir ríkisstjórnina en ég held að þetta hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið og í rauninni, þegar til lengri tíma er litið, hafi það engin áhrif á ríkisstjórnina.“
Menn þurfa sjálfsagt að vera með fimm háskólagráður í stjórnmálafræði til þess að komast að þeirri niðurstöðu hins hlutlausa fræðimanns, að pólitísk áhrif ráðherraafsagnar séu engin.