Evrópumet Lucie Stefaniková byrjaði að lyfta lóðum í ræktinni árið 2018 áður en hún byrjaði í kraftlyftingum.
Evrópumet Lucie Stefaniková byrjaði að lyfta lóðum í ræktinni árið 2018 áður en hún byrjaði í kraftlyftingum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lucie Stefaniková náði frábærum árangri á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór á Málaga á Spáni um nýliðna helgi. Lucie, sem verður þrítug á árinu, keppti í -76 kg flokki og fékk gullverðlaun í hnébeygju þegar hún lyfti 211 kg sem er jafnframt Evrópumet

Kraftlyftingar

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Lucie Stefaniková náði frábærum árangri á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór á Málaga á Spáni um nýliðna helgi.

Lucie, sem verður þrítug á árinu, keppti í -76 kg flokki og fékk gullverðlaun í hnébeygju þegar hún lyfti 211 kg sem er jafnframt Evrópumet. Í bekkpressunni lyfti hún 120 kg sem er hennar besti árangur í greininni. Í réttstöðulyftunni lyfti hún svo 232,5 kg og hafnaði að endingu í þriðja sæti í samanlögðum árangri.

„Ég er mjög ánægð, og líka þreytt, enda nýkomin heim til Íslands eftir langt ferðalag sem tók meira og minna alla nóttina,“ sagði Lucie í samtali við Morgunblaðið.

„Markmiðið fyrir Evrópumótið var að enda á verðlaunapalli og það gekk. Ég var að vonast eftir aðeins betri tölum í hnébeygjunni, sem er mín sterkasta grein, en ég ætlaði mér að setja nýtt Evrópumet sem tókst loksins eftir langa bið. Upphaflega ætlaði ég mér að slá Evrópumótið á EM árið 2022 en ég varð ólétt á þeim tíma og þetta hefur því verið markmið hjá mér lengi,“ sagði Lucie.

Stefnir á verðlaun á HM

Lucie var aðeins nokkrum kílógrömmum frá því að hafna í fyrsta sæti í sínum þyngdarflokki.

„Það munaði mjög litlu á mér og fyrsta sætinu og það er langtímarkmið hjá mér, að verða Evrópumeistari á einhverjum tímapunkti. Þó að ég sé að verða þrítug þá er það nú ekki mikill aldur og ég á nóg eftir í þessu. Ég lærði mikið á þessu móti og þetta fer svo sannarlega í reynslubankann.

Ég finn það að ég á mikið inni og ég ætla mér að sjálfsögðu að halda áfram að bæta mig. Næst á dagskrá er heimsmeistaramótið sem fram fer í Þýskalandi eftir þrjá mánuði og ég ætla mér að ná í verðlaun þar líka.“

Nóg að gera síðustu ár

Lucie kom til Íslands sem au pair fyrir tíu árum þegar hún var 19 ára gömul.

„Ég er fædd og uppalin í Tékklandi og ég flyt upphaflega til Íslands til þess að passa börn. Ég var dugleg að mæta í ræktina til þess að byrja með og eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn, árið 2018, fór ég að verða duglegri og duglegri að mæta í ræktina. Ég fann að ég var sterkari en stelpurnar í kringum mig og ákvað að prófa kraftlyftingar.

Fljótlega eftir að ég byrjaði að mæta á kraftlyftingaæfingar þá byrjaði ég að keppa, sem gekk mjög vel. Ég bætti mig á hverju einasta móti og frá árinu 2020 er ég í raun búin að vera afrekskona í íþróttinni, reyndar með hléum. Ég eignaðist mitt annað barn árið 2020 og svo árið 2023 bættist þriðja barnið við þannig að það hefur verið nóg að gera hjá mér á síðustu árum.“

Ekki mikill tími fyrir æfingar

Lucie er einnig í sjálfstæðum rekstri og því gefst ekki alltaf mikill tími til æfinga.

„Ég er heimavinnandi húsmóðir þar sem yngsta dóttir mín er ekki komin með leikskólapláss. Ég er líka í sjálfstæðum rekstri þannig að það hefur ekki gefist mikill tími til æfinga á síðustu árum. Ég hef reynt, eftir bestu getu, að vera dugleg að æfa í hádeginu þegar stelpan mín sefur en það hefur gengið upp og ofan.

Núna sé ég loksins fram á það að geta æft af fullum krafti, allavega á næstu mánuðum, og þess vegna er ég sannfærð um það að ég muni bæta mig mikið á næstu mánuðum og árum. Konurnar sem ég hef verið að keppa á móti á þessum stórmótum gera margar hverjar lítið annað en að æfa kraftlyftingar og ég hlakka til að mæta þeim aftur, í mínu besta formi.“

Lyftingarnar í sjöunda sæti

Lucie hefur gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi og líður mjög vel á Íslandi.

„Ég kynntist manninum mínum fljólega eftir komuna til Íslands en í fyrstu tók þetta á. Menningin hér er öðruvísi en í Tékklandi og tungumálið allt annað. Það tók mig líka smátíma að venjast veðrinu en það er allt að koma og í dag líður okkur mjög vel. Það er gott að ala börnin sín upp á Íslandi og við sjáum ekkert annað fyrir okkur en að búa á Íslandi í framtíðinni.

Ég var að taka þetta saman um daginn og það er óhætt að segja að kraftlyftingarnar hafi verið í sjöunda sæti hjá mér á síðustu árum. Framtíðarmarkmiðið er að vinna til gullverðlauna á stórmóti í framtíðinni og því ekki seinna vænna að byrja að læra þjóðsönginn. Ég er farin að kunna lagið en ég þarf aðeins að æfa mig í textanum því ég ætla mér að syngja með þegar ég vinn til gullverðlauna.“

Miklu jákvæðari í dag

Lucie viðurkennir að síðustu ár hafi tekið á andlega hjá henni þegar kom að keppni í kraftlyftingum.

„Ég hef einsett mér það núna að reyna að hafa meira gaman af því sem ég er að gera og njóta þess að keppa. Ég hef verið mjög hörð við sjálfa mig í gegnum tíðina, þegar mér hefur ekki gengið nægilega vel. Það tók mig tíma að átta mig á því að það væru ákveðnir hlutir sem ég gæti ekki stjórnað eins og svefn og næring til dæmis, þegar þú ert með þrjú lítil börn.

Eins og ég kom inn á áðan þá ætlaði ég mér að lyfta aðeins þyngra í Málaga en það gekk ekki og það er þá bara þannig. Þrátt fyrir það þá er ég mjög stolt af sjálfri mér og þeim árangri sem ég náði. Ég naut mín í botn og það þýðir ekki að vera að svekkja sig um of og vera í einhverri fýlu. Það á að vera gaman að keppa og ég er miklu jákvæðari fyrir þessu öllu en ég var, sem er bara af hinu góða.“

Fjölskyldan mikilvægust

Lucie hefur alla tíð æft íþróttir og líður best þegar hún er dugleg að hreyfa sig.

„Ég var í handbolta alveg þangað til ég var 16 ára gömul og fljótlega eftir að ég hætti í handboltanum byrjaði ég að hlaupa. Ég byrjaði svo að lyfta lóðum líka en markmiðið með því var fyrst og fremst að verða sterkari.

Ég hef oft leitt hugann að því hvort ég væri ekki komin lengra í íþróttinni ef ég væri ekki alltaf ólétt en á sama tíma er ég ofboðslega þakklát fyrir fjölskylduna mína og þau eru númer eitt, tvö og þrjú í mínu lífi. Að sjá bætingarnar og árangurinn gerir þetta mun meira virði fyrir mig því ég fæ að deila árangrinum með þeim,“ bætti Lucie við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason