Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Allt bendir nú til að drónaárás Úkraínuhers á Engels-herflugvöll, sem finna má í suðurhluta Rússlands, u.þ.b. 500 kílómetra frá landamærunum, hafi grandað miklu magni af skotfærum og stýriflaugum. Árásin var gerð 20. mars sl. og var þriðja árás Úkraínu á völlinn á 10 vikna tímabili.
Hernaðarsérfræðingar segja flutningavélar rússneska flughersins hafa lent á vellinum með fjölda sprengja og skotfæra skömmu áður en Úkraína lét til skarar skríða. Sendingin átti að nýtast langdrægum sprengjuvélum af gerðunum Tupolev Tu-95, eða Birninum svonefnda, og Tupolev Tu-160, sem gjarnan gengur undir heitinu Hvíti svanurinn, í árásum sínum á skotmörk innan landamæra Úkraínu.
GUR frétti af sendingunni
Leyniþjónusta Úkraínu (GUR) komst að tilvist vopnabúrsins á Engels og kom upplýsingunum áfram til hersins. Er talið að yfir 60 gámar af stýriflaugum hafi verið sprengdir upp. Stýriflaugarnar voru af gerðinni Kh-555 og Kh-101 – vopn sem Rússland hefur reglulega beitt gegn skotmörkum í Úkraínu.
Rússar hafa notað Engels-herflugvöll undanfarin ár til að vopna sprengjuvélar sínar með áðurnefndum stýriflaugum og koma því sprengjuflugvélar þangað reglulega af öðrum flugvöllum Rússlands. Ekki er útilokað að sprengjuvélar hafi einnig laskast í nýliðinni árás, en það hefur þó ekki fengist staðfest. Mikið magn af jarðefnaeldsneyti brann þó í drónaárásinni þegar olíutankur var sprengdur í loft upp.
Rússar ráðast á sjúkrahús
Í Sumy, sem liggur við landamæri Kúrsks-héraðs í Rússlandi, gerðu sveitir Rússlandshers loftárásir og féllu sprengjur þeirra m.a. á sjúkrahús. Um 30 manns eru sagðir hafa fallið í þeirri árás. Yfirvöld í Sumy voru búin að vara almenning við hugsanlegum árásum, en hætta var talin á að átökin í Kúrsk, þar sem Úkraínuher er nú í afleitri stöðu, myndu ná til Sumy. Ekki er útilokað að rússneskar sveitir gangi skrefinu lengra og sendi þangað landsveitir.