Flóð Verulegt tjón varð í húsi á Fiskislóð í Reykjavík þegar flæddi og stórgrýti barst inn í bygginguna.
Flóð Verulegt tjón varð í húsi á Fiskislóð í Reykjavík þegar flæddi og stórgrýti barst inn í bygginguna. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Náttúruhamfaratryggingu Íslands hafa borist alls um 20 tilkynningar um tjón sem varð í flóðum þegar óveður gekk yfir Suðvesturland í byrjun þessa mánaðar, en ekki liggur fyrir enn hvert fjártjónið varð

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Náttúruhamfaratryggingu Íslands hafa borist alls um 20 tilkynningar um tjón sem varð í flóðum þegar óveður gekk yfir Suðvesturland í byrjun þessa mánaðar, en ekki liggur fyrir enn hvert fjártjónið varð. Þetta segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratryggingar í samtali við Morgunblaðið.

„Stærstu tjónin urðu á Seltjarnarnesi og á Granda, en þar urðu tvö hús hvað verst úti, eitt á hvorum stað,“ segir Hulda Ragnheiður.

„Síðan erum við líka með tilkynningar um tjón á tveimur hafnarmannvirkjum á Suðurnesjum, annað í Reykjanesbæ og hitt í Vogum,“ segir hún og bætir við að nokkurt tjón hafi orðið á Akranesi.

Hulda Ragnheiður segir að bundið sé í lög hvaða tjón komi til kasta Náttúruhamfaratryggingar. Í lögum um Náttúruhamfaratryggingu segir m.a. að tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða komi til kasta hennar.

Þar segir einnig að skylt sé að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi.

Þá er og skylt að vátryggja mannvirki þótt ekki séu þau brunatryggð og eru þar nefndar til sögunnar hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, einnig hafnarmannvirki, brýr sem eru 50 metrar eða lengri, raforkuvirki, þar á meðal dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, ásamt síma- og fjarskiptamannvirkjum í opinberri eigu.

Göngustígar og varnargarðar falla utan tryggingar

Hulda Ragnheiður segir að talsvert sé um tjón á göngustígum og hlöðnum varnargörðum og fleiri mannvirkjum sem falla utan náttúruhamfaratryggingar og því hefði félagið ekki yfirsýn yfir þau tjón.

„Fyrstu tjónamötin eru að byrja að tínast inn til okkar, en við erum ekki komin með heildstæðar upplýsingar um áætlað tjón. Það er að verulegu leyti vegna þess að vatnstjón eru þess eðlis að það þarf oft á tíðum að fara í ákveðið niðurrif og þurrkun til að hægt sé að átta sig á raunverulegu tjóni,“ segir hún, en kveðst vonast til að yfirsýn yfir fjárhæðir fáist í þessum mánuði, þótt ekkert sé öruggt í því efni.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson