Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Mér þótti tilhlýðilegt að heimsækja verksmiðju Prins Póló vegna langrar sögu tengsla fyrirtækisins við Ísland,“ segir Friðrik Jónsson sendiherra í Póllandi. Friðrik, sem tók við sendiherrastöðu við íslenska sendiráðið í Varsjá 1. júlí sl., segir að stuttu eftir að hann tók við embætti hafi hann farið þess á leit að komast í heimsókn í verksmiðjuna.
„Núna er Prins Póló hluti af stórri alþjóðlegri keðju, Mondelez International, svo það tók aðeins tíma en svo hafðist það og ég fékk heimboð.“
70 ára saga
Í gær heimsótti Friðrik verksmiðjuna sem er í bænum Cieszyn í Slésíu í suðurhluta Póllands, rétt við landamærin við Tékkland, og segir það hálfgildings opinbera heimsókn, en tveir sendiráðsstarfsmenn fóru með honum, annar ólst upp í bænum, og var vel tekið á móti þeim. „Í ár eru 70 ár síðan framleiðslan á Prins Póló hófst í Póllandi árið 1955, en sjálf verksmiðjan hefur verið við lýði í 100 ár. Sama ár og framleiðslan hófst var farið að flytja Prins Póló til Íslands. Á þessum tíma voru alls konar skrýtnar reglur á Íslandi um innflutning, en Íslendingar seldu Pólverjum síld og var því lögð áhersla á að finna pólskar vörur til að selja til Íslands.“
Viðskiptin byggðust á vöruskiptum milli landanna og eftir að Prins Póló var skilgreint sem kex gekk þetta upp, enda vita allir sælgætisaðdáendur að Prins Póló er nánast megrunarfæði miðað við annað sælgæti, en Íslendingar borða allt að hálft kíló á ári af sælgætinu, og heilt þegar mest var.
Ein sending tafðist 1981
Þessi viðskiptatenging milli Íslands og Póllands hefur gengið snurðulaust allan tímann fyrir utan eitt skipti. „Íslendingar hafa fengið sitt Prins Póló allan tímann nema árið 1981 varð töf á sendingunni heim þegar herlög voru sett í Póllandi.“
Friðrik segir það hafa verið einstaklega skemmtilegt að í heimsókninni í gær var verið að undirbúa sendingu til Íslands. „Það var akkúrat að hefjast framleiðsla á næstu sendingu og ég sá umbúðirnar á íslensku.“
Íslensk síld vinsæl
Friðrik segir að mikið hafi verið keypt af íslenskri síld í Póllandi og helsti rétturinn í bænum er brauð með síld, majónesi, lauk og steinselju. „Ég fékk mér auðvitað réttinn, sem var mjög góður, en heimamenn segja að hann hafi orðið til vegna Íslandstengingarinnar við Prins Póló.“
Friðrik segir bæinn mjög fallegan og að það væri þjóðþrifaverk að koma á vinabæjarsambandi við hann vegna sameiginlegrar viðskiptasögu.