Selfoss | Leikmenn 4. flokks karla á Selfossi afhentu um helgina leikmanni 4. flokks HK fjármuni sem þeir fyrrnefndu höfðu safnað að eigin frumkvæði með sölu á harðfiski fyrr í vetur. HK-ingurinn ungi Tómas Freyr Guðjónsson greindist með alvarlegt krabbamein í október sl. og hefur þurft að fara í erfiðar lyfjameðferðir og fór í stóra aðgerð í Svíþjóð í desember.
Með þessu framlagi sínu vildu Selfossstrákarnir leggja sitt af mörkum til að styrkja Tómas Frey og fjölskyldu og nýttu þeir tækifærið og afhentu styrkinn þegar lið 4. flokks Selfoss og HK mættust á Selfossvelli í blíðskaparveðri sl. sunnudag. Ekki er langt síðan félagar Tómasar í 4. flokki HK efndu til styrktarleiks í Kórnum í Kópavogi þar sem saman voru komnar ýmsar kempur úr knattspyrnunni, mættar til að leggja sitt af mörkum, auk þess sem félagar hans úr HK voru sumir hverjir búnir að krúnuraka sig til að sýna Tómasi Frey sinn stuðning. Á myndinni eru leikmenn A- og B-liða Selfoss og HK sem sendu Tómasi Frey stuðningskveðjur. Opnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir Tómas Frey og eru bankaupplýsingarnar eftirfarandi: Reikningur 0370-22-099772, kt. 170411-2260.