Þjóðadeild
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Ísland verður í fyrsta skipti í C-deild Þjóðadeildar UEFA í karlaflokki þegar næsta keppni fer af stað haustið 2026.
Ósigurinn í einvíginu við Kósovó á dögunum, 5:2 samanlagt, þýðir að Kósovó, sem endaði í öðru sæti í sínum riðli C-deildar, tekur sæti Íslands í B-deildinni. Þar endaði Ísland í þriðja sæti af fjórum í sínum riðli, á eftir Wales og Tyrklandi en á undan Svartfjallalandi sem varð neðst og féll beint í C-deildina.
Hin þrjú liðin sem urðu í þriðja sæti riðla B-deildar, Georgía, Slóvenía og Írland, unnu öll einvígi sín gegn liðum úr C-deildinni, Armeníu, Slóvakíu og Búlgaríu, og leika því áfram í B-deildinni.
Það voru því fimm lið sem féllu niður í C-deildina, Ísland, Albanía, Finnland, Svartfjallaland og Kasakstan, en fjögur síðartöldu liðin urðu öll neðst í sínum riðlum B-deildar.
Þeirra sæti taka sigurvegarar riðla C-deildar, Svíþjóð, Rúmenía, Norður-Írland og Norður-Makedónía, ásamt Kósovó.
Komnir í neðri hlutann
Ísland er þar með fallið úr hópi 32 sterkustu landsliða Evrópu, af 55, og hefur ekki verið í þeirri stöðu í langan tíma. Miðað við stöðu Íslands á heimslista FIFA eru þetta ekki óvænt tíðindi því þar er Ísland nú í 33. sæti Evrópuþjóða og í 70. sæti í heildina.
En það er frekar sárt að missa B-deildarsætið til liðs sem er í 41. sæti Evrópuþjóða á heimslistanum og í 99. sæti í heildina.
Styrkleikaflokkarnir
Ísland verður í fyrsta styrkleikaflokki C-deildar þegar dregið verður í riðla fyrir Þjóðadeildina 2026-27. Eftirtalin lið verða í C-deildinni, en eftir er að útkljá umspilið milli C- og D-deildar þar sem fjögur lið spila um tvö sæti. Ísland mun mæta einu liði úr 2. flokki, einu úr 3. flokki og einu úr 4. flokki
1. flokkur: Ísland, Albanía, Svartfjallaland, Kasakstan.
2. flokkur: Finnland, Slóvakía, Búlgaría, Armenía.
3. flokkur: Hvíta-Rússland, Færeyjar, Kýpur, Eistland.
4. flokkur: Moldóva, San Marínó, Gíbraltar/Lettland, Malta/Lúxemborg.
Þær þjóðir sem skipa D-deildina 2026-27 eru tapliðin í einvígjunum Gíbraltar/Lettland og Malta/Lúxemborg, sem og Aserbaísjan, Litáen, Liechtenstein, Andorra og síðan mögulega Rússland.
Úr A-deild í C-deild
Þegar Þjóðadeildin var sett á laggirnar árið 2018 var Ísland í hópi þeirra 12 þjóða sem fengu sæti í A-deild, vegna frábærrar frammistöðu landsliðsins á EM 2016 og HM 2018.
Liðið tapaði öllum sínum fjórum leikjum gegn Sviss og Belgíu en hélt sæti sínu vegna fjölgunar liða í A-deild úr 12 í 16.
Staða Íslands sem A-deildarþjóðar tryggði landsliðinu samt sæti í umspili um EM 2020 þar sem liðið vann Rúmeníu í undanúrslitum en tapaði síðan á dramatískan hátt fyrir Ungverjalandi í úrslitaleik.
Ísland var aftur í A-deildinni 2020-21 vegna fjölgunarinnar en tapaði aftur öllum sínum leikjum, nú gegn Belgíu, Danmörku og Englandi, og féll niður í B-deild.
Annað sæti og umspil
Ísland hafnaði í öðru sæti í sínum riðli B-deildar 2022-23 eftir jafntefli í öllum fjórum leikjunum gegn Ísrael og Albaníu. Rússar áttu að vera í riðlinum en þeim var vísað úr keppni vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Ísland varð því nógu ofarlega i B-deildinni til að komast í umspilið fyrir EM 2024 þar sem liðið vann Ísrael 4:1 í Búdapest en tapaði úrslitaleiknum fyrir Úkraínu í Wroclaw fyrir ári, 2:1.
Nú er Ísland fallið úr B-deildinni. Sjö stig gegn Wales, Tyrklandi og Svartfjallalandi var ekki nóg, liðið endaði í þriðja sæti riðilsins, og umspilsleikirnir gegn Kósovó felldu liðið niður í C-deildina.
Erfiðir mótherjar
Þar leikur Ísland í næstu keppni, 2026-27, og eins og sjá má getur liðið vel fengið mjög erfiða mótherja í C-deildinni. Helmingslíkur eru á að lenda í riðli með annaðhvort Slóvakíu eða Finnlandi, sem eru bæði fyrir ofan Ísland á styrkleikalista FIFA, og hinir tveir möguleikarnir eru Búlgaría og Armenía, lið sem alls ekki er hægt að horfa á sem auðsigraða andstæðinga.
Næsta Þjóðadeild fer af stað í september 2026 og þá verður annars vegar í húfi að vinna sér sæti í B-deildinni á ný, auk þess sem sigur í riðli C-deildar getur mögulega fært liðinu sæti í umspilinu fyrir EM 2028. UEFA á þó eftir að staðfesta keppnisfyrirkomulagið í undankeppni EM og tengingu Þjóðadeildarinnar við þá keppni. En leiðin á stórmót er orðin enn erfiðari en áður eftir ósigrana tvo gegn Kósovó.