Júlíana, hátíð sögu og bóka, var haldin í 12. sinn í Stykkishólmi dagana 20.-22. mars en þar komu rithöfundar, ljóðskáld og aðrir listamenn fram.
Skáldið Þorvaldur Sigurbjörn Helgason hlaut fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni hátíðarinnar fyrir ljóðið „Úrið hans Magnúsar“. Þess má geta að hann hlaut sömu verðlaun árið 2018. „Ljóðið er samið í minningu tveggja manna, afa míns Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar sem lést í fyrra og afabróður míns Magnúsar Guðmundssonar sem lést 1941 og er innblásið af vasaúri hans sem ég erfði frá afa,“ skrifar Þorvaldur á Facebook-síðu sína.
Haldnar eru til skiptis ljóða- og smásagnasamkeppnir í tengslum við hátíðina. Í dómnefnd í ár sátu Anton Helgi Jónsson, Jón Yngvi Jóhannsson og Sólveig Ásta Sigurðardóttir.