Fjölskyldan Arnheiður, Einar Margeir Ágústsson, kærasti Guðbjargar, Guðbjörg Bjartey og Guðmundur stödd á Tenerife um síðustu áramót.
Fjölskyldan Arnheiður, Einar Margeir Ágústsson, kærasti Guðbjargar, Guðbjörg Bjartey og Guðmundur stödd á Tenerife um síðustu áramót.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnheiður Hjörleifsdóttir fæddist 25. mars 1975 í Reykjavík og bjó þar og á Hvolsvelli fyrsta árið. „Fjölskyldan flutti til Hafnar í Hornafirði og var þar í nokkur ár, þar sem mamma vann á heilsugæslunni og pabbi við smíðar

Arnheiður Hjörleifsdóttir fæddist 25. mars 1975 í Reykjavík og bjó þar og á Hvolsvelli fyrsta árið.

„Fjölskyldan flutti til Hafnar í Hornafirði og var þar í nokkur ár, þar sem mamma vann á heilsugæslunni og pabbi við smíðar. Við fluttum á Akranes þegar ég var fimm ára og þar hófst skólagangan, en ég var í Brekkubæjarskóla á Akranesi og seinna í fjölbrautaskólanum þar.

Ég elskaði sveitina sem barn og unglingur og vann við sumarstörf í sveit, eftirminnilegasta dvölin er á Lundi í Lundarreykjadal en þar má segja að ég hafi lært að vinna. Einnig var lærdómsríkt að vinna í fiskvinnslu í Neskaupstað, kjötvinnslu SS á Hvolsvelli og við verslunarstörf í Einarsbúð á Akranesi. Allt mjög góðir vinnustaðir sem höfðu virkilega jákvæð áhrif á mig. Ég tók síðar landvarðarréttindi og vann nokkur sumur við þjóðgarðinn á Þingvöllum sem var einstaklega gefandi og lærdómsríkt og gaman að kynnast Þingvöllum á þann hátt, dásamlegur og stórmerkilegur staður.“

Arnheiður lauk BS-gráðu í landfræði við Háskóla Íslands og meistaragráðu í umhverfisfræðum við HÍ og Dalhousie University í Nova Scotia í Kanada. „Það var ógleymanleg reynsla að búa og stunda nám í Kanada. Ég lauk síðar við kennslufræði til kennsluréttinda við HÍ.

Ég vann sem sérfræðingur í umhverfismálum hjá Umís ehf. Environice í rúm 10 ár, undir leiðsögn Stefáns Gíslasonar vinar míns og brautryðjanda á sviði umhverfismála á Íslandi. Frábær og lærdómsríkur tími þar sem ég tókst á við fjölbreytt og krefjandi verkefni með góðu fólki um allt land.“

Arnheiður hefur einnig unnið við kennslu við ýmsar stofnanir, lengst við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og kennt þar náttúruvernd og náttúrutúlkun ásamt fleiru. „Mér finnst mjög gefandi og skemmtilegt að kenna. Þá get ég ekki sleppt að nefna að ég kenni og þjálfa fullorðna einstaklinga í sundi í Borgarnesi en ég er bæði með þjálfararéttindi og dómararéttindi í sundi. Ég hlakka alltaf til að hitta sundhópinn minn í Borgarnesi, þau eru algjört æði!

Annars er aðalstarfið mitt heima á Bjarteyjarsandi þar sem við maðurinn minn rekum sauðfjárbú og ferðaþjónustu og höfum gert í tæpa þrjá áratugi. Það er fjölbreyttur og skemmtilegur rekstur og í raun enginn dagur eins.“

Arnheiður hefur alltaf verið mikil félagsvera og virkur þátttakandi í félagsmálum. Hún sat í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar í 12 ár og hefur einnig verið í ýmsum nefndum, ráðum og stjórnum í gegnum tíðina.

Helstu áhugamál Arnheiðar eru söngur og sund. „Það er alveg ómissandi að syngja og synda! Ég tilheyri tveimur stórskemmtilegum hópum þar sem ég stunda hvort tveggja. Söngurinn er svo andlega nærandi og dásamlegur og gaman að hitta söngfélagana reglulega og þenja raddböndin. Sundið er ein besta hreyfing sem ég get hugsað mér og með hálf laskað stoðkerfi er þyngdarleysið í vatninu það albesta. Félagsskapurinn er svo algjör bónus og það er ómögulegt að vera í vondu skapi, hvort sem maður syngur eða syndir!

Svo er sveitin mín griðastaður og mikil forréttindi að búa á jafn yndislegum stað, með stórbrotna náttúru allt um kring. Það er hluti af áhugamálunum að njóta og nærast í íslenskri náttúru. Þá eru dýrin mín stór og smá líka stór partur af mínu lífi og fjölskyldunnar; hundar, hestar, kindur, geitur og hænur. Það eru sko mínar ær og kýr! Í tilefni af 50 ára afmælinu verð ég stödd í San Francisco með æskuvinkonu minni, Söndru Margréti Sigurjónsdóttur, og dóttur minni, Guðbjörgu Bjarteyju. Þar ætla ég að reyna hið ómögulega – að „flýja“ frá hinu sögufræga Alcatraz-fangelsi! Við ætlum sem sagt að synda frá Alcatraz og í land í San Francisco en þetta eru tæpir 4 km í 11 gráðu köldum sjó og miklum straumum. Ég ákvað fyrir tveimur árum að þetta skyldi verða afmælisgjöfin frá mér til mín þegar ég yrði fimmtug!“

Fjölskylda

Eiginmaður Arnheiðar er Guðmundur Sigurjónsson, f. 8.10. 1974, bóndi og smiður. Þau eru búsett á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði. Foreldrar Guðmundar eru hjónin Sigurjón Guðmundsson, f. 5.8. 1948, og Kolbrún Ríkey Eiríksdóttir Carter, f. 26.3. 1953. Þau eru búsett á Bjarteyjarsandi og voru bændur þar. Þau áttu gullbrúðkaup á síðasta ári.

Dætur Arnheiðar og Guðmundar: 1) Sól Guðmundsdóttir, andvana fædd 4.4. 2004, og 2) Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, f. 22.8. 2005, nemi í alþjóðaviðskiptum við Towson University í Maryland í Bandaríkjunum.

Bróðir Arnheiðar er Helgi Hjörleifsson, f. 31.3. 1979, hraunkælingarstjóri. Hann er búsettur í Kópavogi ásamt eiginkonu og þremur dætrum.

Móðir Arnheiðar er Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 4.6. 1954. Hún er gift Eyþóri Stanley Eyþórssyni. Þau eru búsett á Akranesi. Faðir Arnheiðar er Hjörleifur Helgi Helgason húsgagnasmiður, f. 30.11. 1951. Hann er búsettur í Reykjavík.