Grindavík Takmarkaður aðgangur að Grindavík sætti gagnrýni.
Grindavík Takmarkaður aðgangur að Grindavík sætti gagnrýni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Ég vil bara óska Kjartani til hamingju með verðlaunin og verðlaunamyndina sem tekin var á Austurvelli og er fyrir margra hluta sakir athyglisverð,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við Morgunblaðið, þegar…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég vil bara óska Kjartani til hamingju með verðlaunin og verðlaunamyndina sem tekin var á Austurvelli og er fyrir margra hluta sakir athyglisverð,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað var viðbragða hans við gagnrýni Kjartans „Golla“ Þorbjörnssonar ljósmyndara sem gagnrýndi takmarkað aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðum í Grindavík, að tilskipan lögreglunnar á Suðurnesjum.

Kjartan lét hörð orð falla um þá ákvörðun lögreglunnar sem hann kallaði fáránlega, í ávarpi sínu á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands sl. laugardag, en þar tók hann við verðlaunum fyrir mynd ársins 2024. „Mér finnst vera smá belgingur í honum. En hann er búinn að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og það er ekkert meira um það að segja, en ég kýs að tjá mig ekki efnislega um málið,“ segir Úlfar.

„Það er ekki svo að engar myndir hafi verið teknar af rýmingu húsa í Grindavík, það var fullt af myndum tekið þótt Golli hafi ekki átt þar mynd. En að öðru leyti er þetta ekki málefni sem ég vil tjá mig frekar um. En gagnrýnin er komin fram og það er lítið við því að segja,“ segir Úlfar Lúðvíksson.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson