Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Sjúkraflutningamenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í atkvæðagreiðslu boðun verkfalls við sjúkraflutninga hjá fjórum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Eiga verkfallsaðgerðirnar að óbreyttu að hefjast 7. apríl.
Aðgerðirnar standa yfir á tilteknum dögum í aprílmánuði, mismunandi eftir stofnunum, og fara fram á heilbrigðisstofnunum Suðurlands, Vesturlands, Norðurlands og Austurlands.
Neyðarþjónustu verður sinnt en aðgerðirnar beinast að sjúkraflutningum sem flokkast undir F4, þ.e.a.s. almennum sjúkraflutningum þar sem ekki er um að ræða bráð veikindi eða slys, samkvæmt upplýsingum Bjarna Ingimarssonar formanns LSS.
Kosið var um verkfallsboðun hjá hverri stofnun fyrir sig. Aðgerðirnar byrja með yfirvinnubanni 7. apríl og þann sama dag fara sjúkraflutningamenn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í verkfall frá kl. 8 til 16. Þann 14. apríl bætist svo Heilbrigðisstofnun Vesturlands við þar sem aðgerðirnar standa einnig yfir frá kl. 8 til 16 og þann 18. apríl nær vinnustöðvun einnig til sjúkraflutningamanna á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Áframhaldandi verkföll eru svo boðuð dagana 21., 23. og 25. apríl og bætist Heilbrigðisstofnun Austurlands þá við. Hafi samningar ekki náðst hefst ótímabundið verkfall á öllum þessum stofnunum 28. apríl.
„Við lítum á þetta sem mýkri leiðina,“ segir Bjarni um tilhögun boðaðra verkfallsaðgerða. Umræddir sjúkraflutningar muni fyrst og fremst hafa áhrif á fráflæðisvanda sjúkrastofnananna og flutninga á milli þeirra.
Erfiðlega hefur gengið í kjaraviðræðum LSS við ríkið en mun betur við sveitarfélögin. Boðað var til samningafundar með sveitarfélögunum í gær. „Það hefur verið góður gangur þar og búið að leysa flestöll vandamál þar að okkar mati,“ segir Bjarni.