Fyrsta konan til að gegna embætti forseta Afríkuríkisins Namibíu er tekin til starfa. Er um að ræða hina 72 ára gömlu Netumbo Nandi-Ndaitwah, en hún hlaut í kosningu 58% greiddra atkvæða.
Nandi-Ndaitwah er í stjórnmálaflokknum SWAPO sem hefur verið við völd í Namibíu frá því að landið fékk sjálfstæði frá Suður-Afríku árið 1990. Hefur flokkurinn verið með tvo þriðju sæta á þingi landsins frá árinu 1994.
Ástandið í landinu hefur lengi verið erfitt, Namibía er mjög ofarlega á lista yfir lönd þar sem efnahagslegur ójöfnuður er mestur, atvinnuleysi gríðarlegt og staða kynjanna skökk. Namibía er hins vegar afar rík að auðlindum, þar má m.a. finna miklar úran- og demantanámur auk þess sem fiskimið eru gjöful.