„Ég tel rétt að borgin borgi þennan kostnað. Öskjuhlíðin og trén eru eign Reykjavíkurborgar og því ber borginni að sjá um trjáfellingarnar þar sem málið varðar þjóðaröryggi, þar sem er starfsemi flugvallarins

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Ég tel rétt að borgin borgi þennan kostnað. Öskjuhlíðin og trén eru eign Reykjavíkurborgar og því ber borginni að sjá um trjáfellingarnar þar sem málið varðar þjóðaröryggi, þar sem er starfsemi flugvallarins. Vandinn sem af þessu hefur stafað er sá að Reykjavíkurborg hefur ekki gætt að því að trén vaxi ekki upp í hindrunarflötinn,“ segir Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra spurður um hver eigi að bera kostnaðinn vegna trjáfellinganna í Öskjuhlíð.

Tekist á um kostnað

Hann segist ekkert hafa heyrt um að ríkið eigi að bera þennan kostnað og engar slíkar fjárkröfur borist ríkinu.

„Málið er til meðferðar hjá Samgöngustofu og ég er bjartsýnn á að þessu fari að ljúka.“

Á fundi borgarráðs á dögunum, þegar aðgerðaáætlun borgarinnar um skógarhöggið var samþykkt, bókuðu fulltrúar meirihlutans og Framsóknarflokksins að þeir teldu að ríkið ætti að greiða þennan kostnað.

Sanna Magdalena Mörtudóttir forseti borgarstjórnar telur ríkið eiga að bera kostnað vegna trjáfellinganna.

„Við teljum réttast að ríkið standi straum af kostnaði vegna trjáfellinganna og ég tel réttast að taka samtal um þetta,“ segir Sanna.

Nú komið þið til með að borga reikningana. Munið þið hafa frumkvæðið að því að ríkið taki kostnaðinn á sig?

„Við höfum ekki rætt það á þessu stigi málsins,“ segir Sanna.

Eyjólfur segir að það séu góðar fréttir að verið sé að fella trén og nú sé það í höndum Isavia og Samgöngustofu að meta hvort nóg sé að gert og ef svo er þá verði hægt að opna flugbrautina.

„Ég vona að það gangi sem hraðast fyrir sig. Það er búið að vera ómögulegt að hafa þessa flugbraut lokaða fyrir farþegaflugið svona lengi og ég vonast til að hún opnist sem fyrst.“

Eyjólfur telur að svæðið þar sem búið er að fella hæstu trén geti orðið mjög gott útivistarsvæði. Nú sé þessi vinna langt komin og því beri að fagna þegar umferð kemst á flugbrautina.

Sagan er sú að það voru starfsmenn Flugmálastofnunar sem plöntuðu þessum trjám á árunum 1960-1970 og það á að vera til samningur þar sem Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að fella trén, ógni þau flugöryggi.

Í gær fengust þær upplýsingar hjá Samgöngustofu að enn þá væru tæplega tvö hundruð tré sem næðu upp í hindrunarflöt flugbrautarinnar.

Um þriðjungur trjánna nær upp í hindrunarflötinn og tveir þriðju eru við það að ná því marki og verða því sennilega felld.

Höf.: Óskar Bergsson