Ríkisútvarpið Fimm stjórnarmenn segja að varhugavert sé að taka við styrkjum frá hagsmunaaðilum vegna dagskrárgerðar stofnunarinnar.
Ríkisútvarpið Fimm stjórnarmenn segja að varhugavert sé að taka við styrkjum frá hagsmunaaðilum vegna dagskrárgerðar stofnunarinnar. — Morgunblaðið/Eyþór
Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru varaðir við því að taka við styrkjum frá hagsmunaaðilum í tengslum við dagskrárgerð. Þetta kemur fram í bókun sem fimm stjórnarmenn lögðu fram á síðasta fundi stjórnar RÚV

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru varaðir við því að taka við styrkjum frá hagsmunaaðilum í tengslum við dagskrárgerð. Þetta kemur fram í bókun sem fimm stjórnarmenn lögðu fram á síðasta fundi stjórnar RÚV. Fundurinn var haldinn 28. febrúar en fundargerð var birt um helgina.

Bókunin var lögð fram í tengslum við minnisblað með upplýsingum um hvaða viðmið RÚV hefði þegar kæmi að kostaðri umfjöllun. Stjórnarmaðurinn Ingvar Smári Birgisson hafði óskað eftir þeim upplýsingum.

Stjórnarmennirnir Ingvar Smári Birgisson, Aron Ólafsson, Mörður Áslaugarson, Rósa Kristinsdóttir og Þráinn Óskarsson bókuðu eftirfarandi:

„Varhugavert er að taka við styrkjum frá hagsmunaaðilum í tengslum við dagskrárgerð. Í því sambandi vísast til Life Icewater-verkefnisins, þar sem fyrirhugað er að stofnunin fái styrk frá Evrópusambandinu í tengslum við umfjöllun sína um verkefnið, sem lýtur að því markmiði að efla og flýta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Hvatt er til þess að stofnunin móti sér viðmið um í hvaða tilvikum sé tekið við styrkjum í tengslum við dagskrárgerð.“

Samstarfsaðilar greiða laun

Ingvar Smári hafði spurt á stjórnarfundi 18. desember síðastliðinn hvort reglur væru um kostaða umfjöllun, í hvaða tilvikum slík umfjöllun væri heimil og hvernig ritstjórnarfrelsi stofnunarinnar væri tryggt þegar RÚV fær greitt fyrir umfjöllun. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvort fordæmi væru fyrir kostaðri umfjöllun hjá RÚV á síðustu fimm árum.

Í áðurnefndu minnisblaði segir að RÚV hafi í gegnum árin fengið styrki til dagskrárgerðar af ýmsum toga og efnt til samstarfs við utanaðkomandi aðila um tiltekið efni. „Fjárframlag þessara aðila hefur verið með ýmsum hætti, oftast í formi styrkja til framleiðslunnar. Beinir styrkir eru langalgengastir, í einhverjum tilvikum hafa laun þeirra sem vinna að framleiðslunni utanhúss verið greidd af samstarfsaðilum. Slík vinna getur verið undirbúningsvinna, verkefnastjórnun o.fl.,“ segir í minnisblaðinu.

Styrkir frá ríki og borg

Síðustu fimm ár hafi styrkirnir komið frá ríki, borg og stofnunum. Á árunum 2018-2020 og 2023-2025 hafi skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar greitt fyrir UngRÚV, þátttöku ungs fólks í dagskrárgerð. Árið 2022 hafi komið framlag frá utanríkisráðuneytinu vegna Gæfuspors, fræðslu um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafi styrkt umfjöllun um Norrænu ungmennaráðstefnuna. Í ár styrki embætti landlæknis fræðsluþætti um andlega vellíðan fólks og Menntamálastofnun hafi á hverju ári styrkt Sögur, verðlaunahátíð barnanna.

Greitt fyrir verðlaunahátíðir

Þá segir að ekki sé rétt að tala um kostaða umfjöllun í þessu samhengi enda séu engin dæmi um slíkt, þ.e. umfjöllun sem teljist alfarið auglýsing.

„Þau verkefni sem framleidd eru með fjárframlögum annarra aðila eru undir ritstjórnarlegri stjórn Ríkisútvarpsins í öllum tilvikum, og í einhverjum tilvikum sömuleiðis í samstarfi við samstarfsaðila. Það fer allt eftir atvikum hverju sinni. Nefna má í því samhengi útsendingar frá verðlaunahátíðum af ýmsum toga, sem að hluta til eru greiddar af þeim aðilum sem fyrir viðkomandi verðlaunum standa.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon