Baksvið
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Ekki verður séð að meðalhófs sé gætt við fyrirhugaðar breytingar á lögum um heimagistingu. Vandséð er að breytingarnar stuðli í raun að yfirlýstum markmiðum um jafnvægi á húsnæðismarkaði og fjölgun íbúða í langtímaleigu auk sanngjarnari samkeppni í ferðaþjónustu. Þetta er mat Þórodds Bjarnasonar, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmanahald voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda en frestur til að gera athugasemdir rann út í gær. Þær fela meðal annars í sér að heimagisting verði afmörkuð við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign í eigu hans utan þéttbýlis. Þá verði þegar útgefin rekstrarleyfi til gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis bundin til fimm ára í senn. Jafnframt er lagt til að sýslumanni verði heimilt að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum frá ríkisskattstjóra í tengslum við eftirlit sýslumanns með einstaka málum vegna skráningarskyldrar heimagistingar.
„Þrátt fyrir að dregið hafi um 30% úr leyfislausri skammtímaleigu undanfarin sjö ár, áætlar sýslumaður engu að síður að um 50% af skammtímaleigu fari enn fram án skráningar eða tilskilinna leyfa. Verði breytingin að lögum má ætla að hún hafi ákveðinn fráfælingarmátt í för með sér,“ segir í kynningu.
Vilja hækka tekjuþakið
Fjölmargir sendu inn umsagnir við þessar breytingar og er skiptar skoðanir þar að finna. Flestar athugasemdir komu frá einstaklingum. Nokkrir benda á að hámarksupphæð vegna skammtímaleigu hafi verið óbreytt lengi, tvær milljónir króna, og ætti hún að taka mið af verðlagsbreytingum. Þá er þess meðal annars getið að þeir einstaklingar sem vilja leigja út húsnæði sitt fyrir meira en tvær milljónir á ári ættu að geta skráð það sem virðisaukaskattskylda starfsemi með þeim kvöðum sem því fylgja. Þannig gætu eigendur hámarkað tekjur af eigninni innan þess tímaramma sem leyfilegur er.
Annar bendir á að það eigi vitaskuld að vera valkostur að leigja sér íbúð í þéttbýli enda sé allt of dýrt að fara með fimm manna fjölskyldu á hótel.
Í umsögn ÖBÍ er því fagnað að heimagisting verði afmörkuð við lögheimili einstaklings og aðra fasteign viðkomandi utan þéttbýlis. Samtökin leggja til að meira fé verði lagt til svokallaðrar Heimagistingarvaktar. Eins leggur ÖBÍ til að fjármagnstekjur vegna skammtímaleigu sem mæta reglum um hámarksdagafjölda og hámarksupphæð leiði ekki til skerðinga á lífeyrisgreiðslum.
Þóroddur prófessor segir að áformaðar breytingar virðist ganga mjög langt í að skerða hagsmuni einstaklinga og fjölskyldna sem af einhverjum ástæðum verði að halda heimili á tveimur stöðum og nýta sér möguleika á skammtímaleigu þegar enginn er staddur á öðru heimilinu.
Hann segir að algengt sé að fjölskyldur dreifist á fleiri en einn stað á landinu. Það geti orsakast af því að sambúðarfólk sæki vinnu í mismunandi landshlutum og kjósi því að halda heimili á tveimur stöðum. „Vera kann að með þessari lagabreytingu verði einhverjum ómögulegt að halda heimili á tveimur stöðum og verði þess í stað að leigja sjálfir í skammtímaleigu eða hætta í vinnunni ella,“ skrifar Þóroddur.
Hann getur þess einnig að foreldrar ungmenna utan höfuðborgarsvæðisins reyni oft að búa börnum sínum heimili á höfuðborgarsvæðinu. Það geti reynst dýrt og íbúðirnar séu mögulega ekki í notkun í skólafríum. Eins geti fólk þurft athvarf ef það annast aldraða foreldra eða uppkomin börn annars staðar á landinu. Jafnframt séu dæmi um að fólk kaupi niðurnídd hús á minni þéttbýlisstöðum, geri þau upp og dvelji þar langdvölum.
Leggja drjúgt til samfélaga
„Slík frístundahús í þéttbýli veita eigendum sínum ekki aðeins ómælda ánægju heldur geta þau einnig verið samfélagslega mjög mikilvæg. Þannig er húsnæði bjargað sem annars hefði eyðilagst sem er gríðarlega mikilvægt á stöðum þar sem húsnæðisverð er undir byggingarkostnaði og því lítið sem ekkert byggt í stað ónýtra húsa. Þá leggja eigendur slíkra frístundahúsa oft drjúgt til viðkomandi samfélaga og skammtímaleiga þeirra fjölgar komum ferðamanna til staða þar sem hótel eru ekki til staðar.“
Þóroddur segir að fyrirhugaðri lagabreytingu virðist beinlínis ætlað að skapa eigendum annarrar eignar fjárhagslega erfiðleika sem gætu leitt til þess að þeir neyddust til að selja eignina. Hann bendir á að frumvarpið geri ráð fyrir að fólk í þéttbýli sem á sumarbústað eða annað frístundahúsnæði í strjálbýli geti áfram leigt það í skammtímaleigu þegar það er ekki í notkun. „Hér virðist ekki jafnræðis gætt og vandséð hvaða brýnu hagsmunir réttlæti þá mismunun.“