Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Berjaya Hotels Iceland hf. hefur sent umsókn til Reykjavíkurborgar um mikla uppbyggingu hótelstarfsemi við rætur Skálafells. Heildarfermetrafjöldi er áætlaður 70 þúsund. Verkefnastjóri skipulagsfulltrúa hefur fengið umsóknina til meðferðar.
Berjaya Hotels er í eigu malasískrar hótelsamsteypu og rekur sjö hótel í Reykjavík og sex á landsbyggðinni. Stofnandi Berjaya Corporation er milljarðamæringurinn Vincent Tan.
Óskað er eftir því við borgina að unnið verði deiliskipulag fyrir umrætt svæði í hlíðum Skálafells. Í skipulagslýsingu, sem unnin er af T.ark arkitektum, segir að lýsingin nái til Kýrhólsflóa og Stóra-Bugðuflóa við Skálafell.
Þetta svæði sé hluti hins svonefnda græna trefils og liggur það að landi Mosfellsbæjar.
Skipulagssvæði Kýrhólsflóa er 300 hektarar og Stóra-Bugðuflóa 107,6 hektarar, alls 407,6 hektarar.
Á svæði Stóra-Bugðuflóa er ráðgert að byggja 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel ásamt heilsulind, líkamsræktarstöð og veitingastað. Við hlið hótelsins verði fjölnota húsnæði þar sem verði ráðstefnu- og fundarsalir ásamt sýningarrými. Almenningur geti nýtt sér þessa aðstöðu til ráðstefnuhalds, árshátíða, jólahlaðborða, íþróttaiðkunar o.s.frv. Tenging við hótel verði lykilatriði. Heildarfermetrafjöldi hótels og fjölnota rýmis verði 21 þúsund fermetrar ofanjarðar.
Á svæði Kýrhólsflóa verða tvö hótel með samtals 100 herbergjum í „áður óséðum gæðaflokki hérlendis“, eins og segir í skipulagslýsingunni. Á hótelunum verði aðstaða og þjónusta í hæsta gæðaflokki. Heildarfermetrafjöldi þessara bygginga verður 14 þúsund fermetrar.
Umhverfis hótelin og í tengslum við þau verða 30 íburðarmikil einbýlis- og tvíbýlishús. Eru húsin hugsuð fyrir fyrir ferðafólk sem kýs að búa út af fyrir sig en vill nýta þá þjónustu sem hótel bjóða upp á. Heildarfermetrafjöldi verður 14 þúsund fermetrar.
Á svæðinu norðanverðu stendur svo til að byggja 200 íbúðir fyrir starfsmenn hótelanna. Við hlið starfsmannahússins verða verkstæði og geymslur. Heildarfermetrafjöldi þessara bygginga verður 21 þúsund fermetrar ofanjarðar.
Byggingar á svæðinu verða 2-3 hæðir. Ákvörðun um endanlegt byggingamagn, hæð húsa og legu þeirra í landinu verður tekin við gerð deiliskipulags.
Fram kemur í skipulagslýsingunni að yfirborð svæðisins einkennist af melum og móum, lágum gróðri, mosabörðum, lækjarsprænum og stöðuvatni, Leirvogsvatni.
„Með auknum fjölda ferðamanna sem kjósa að gista nálægt borginni en ekki í henni býðst kjörið tækifæri til að byggja upp sterka innviði sem styðja við þjónustu í nærumhverfinu og dreifa ferðamannaálagi borgarinnar á fleiri staði,“ segir í skipulagslýsingunni.