Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Einmánuður hefst í dag og svo kemur harpa sumardaginn fyrsta. Af því tilefni yrkir Ingólfur Ómar Ármannsson:
Einmánuður oft er napur og ýrinn
stundum
ís og krap er yfir grundum.
Harpa okkur hlýju færir hjartans
barnið
andar blítt á ískalt hjarnið.
Ennþá brennur Ólafi Stefánssyni í muna:
Þegar lýkur hér lífsgöngu okkar,
verða lagðir til hliðar þeir sokkar,
sem léða við fengum
er Laufásveg gengum,
meðan enn voru ljósir lokkar.
Árni Bergmann rakst í Eglu á skemmtilega kenningu: „samtog sverða“. Hann sendi þættinum kveðju:
Með „samtogi sverða“ Egill er
orrustu snarpri að lýsa.
En „samtog lima“ sýnist mér
til samfara góðra vísa.
Jón Jens Kristjánsson bregður á leik í limru:
Hér taka margir til máls
og mun látið sverfa til stáls
það fólkinu hitar
að forsetinn ritar
föðurnafn sitt til hálfs.
Kvæðamaðurinn Steindór Andersen fræddi mig um að Guðmundur Guðmundsson, hreppstjóri í Kaupangi, Eyjafirði, hefði orti á Þingeyrum um tóbakstönn Gísla Magnússonar:
Þinn við munn eg mynnist greitt
mitt í nunnusafni,
þér ég unni af þeli heitt
þú ert sunnu jafni.
Svo fylgdi með vísa eftir ókunnan höfund.
Enginn kemur og enginn sést,
enginn dvelur hjá mér,
allir sem ég unni mest
eru burtu frá mér.
Kristján J. Jóhannsson, Króki á Ísafirði, var maður frelsisins:
Frelsi sálgar löggjöf lúð
lítt fær þrifist öldin.
Af oss tálga hold og húð
harðdræg yfirvöldin.
Að síðustu Hallmundur Kristinsson:
Ekki flokkast undir gort
eg þótt sjálfur greini;
vísur get ég alltaf ort
ef ég bara reyni!