Svanur Guðmundsson
Á 19. öld jókst umfang hvalveiða verulega með tilkomu gufuskipa og sprengiskutla. Norðmenn og Bretar reistu hvalstöðvar við Ísland, Nýfundnaland og í Barentshafi sem olli mikilli fækkun stórhvala, eins og langreyðar og steypireyðar. Í kjölfarið minnkaði afrán hvala á uppsjávarfiski, einkum síld og loðnu. Uppsjávarstofnar stækkuðu verulega á fyrstu áratugum 20. aldar og síldargöngur við Ísland urðu sérlega umfangsmiklar á árunum 1930-1960. Loðnan var mikilvæg fæða fyrir þorskinn sem einnig dafnaði vel á þessum tíma.
Árið 1915 voru stórhvalaveiðar bannaðar á Íslandi vegna áhyggna sem byggðar voru á takmarkaðri þekkingu þess tíma. Það var trú margra að hvalir hjálpuðu til við að smala síld inn á grunnmið og að fækkun hvala gæti haft neikvæð áhrif á síldveiðar. Í dag er öllum ljóst að þetta var rangt og byggðist á vanþekkingu og enginn vísindalegur grunnur var fyrir þessu. Það leiddi til þess að teknar voru ákvarðanir sem höfðu ófyrirséðar og flóknar afleiðingar fyrir vistkerfið. Alþjóðlegt bann við hvalveiðum árið 1986 varð til þess að hvalastofnar stækkuðu á ný, sem jók aftur afrán þeirra á síld og loðnu.
Áhrif fjölgunar hvala og ofveiði á fiskstofna
Á síðari hluta 20. aldar varð mikil aukning í fiskveiðum, sem hafði veruleg áhrif á síldarstofna og loðnu. Ofveiði leiddi til þess að síldarstofnar hrundu árið 1969 og loðnustofninn varð fyrir miklum sveiflum og hruni á níunda áratugnum. Samhliða þessu jukust þorskveiðar verulega. Þorskur varð háðari loðnu sem fæðu, sem jók samkeppnina við hvalina og ýtti undir keðjuverkandi breytingar í vistkerfinu. Þetta kallaði á herðingu fiskveiðistjórnunar með kvótakerfi og öðrum ráðstöfunum.
Staðan í dag – Fjölgun hvala og vistfræðileg áskorun
Síðustu áratugi hefur hvölum við Ísland fjölgað verulega og hefur það aukið álag á uppsjávartegundir eins og síld og loðnu. Sveiflur í þessum stofnum hafa verið miklar og það hefur reynst erfitt að byggja upp og viðhalda stöðugleika bolfiskstofna eins og þorsks vegna breytilegs fæðuframboðs og aukinnar samkeppni við stækkandi hvalastofna.
Skýrslan „Marine Mammal Consumption and Fisheries Removals in the Nordic and Barents Seas“ frá 2022 sýnir fram á að sjávarspendýr neyta um 25,1 milljónar tonna af sjávarlífverum árlega á norðurslóðum, samanborið við 4,2 milljónir tonna sem veidd eru af manninum. Þetta magn undirstrikar mikilvægi þess að taka nýtingu sjávarspendýra alvarlega sem hluta af sjálfbærri stjórnun fiskveiða.
Þörf á vistkerfisstjórnun
Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn tekið upp heildstæða vistkerfisnálgun sem tekur mið af áhrifum sjávarspendýra. Hafrannsóknastofnun metur stofnstærðir nytjategunda en metur ekki sérstaklega áhrif hvala eða sela út frá hagfræðilegum eða vistfræðilegum sjónarmiðum. Matvælaráðuneytið hefur heldur ekki mótað stefnu varðandi nýtingu sjávarspendýra vegna pólitískrar viðkvæmni og áhyggna af alþjóðlegri ímynd Íslands.
Það sem Ísland þarfnast er stofnun eða ráð sem sérhæfir sig í samþættingu vistfræðilegra og hagfræðilegra sjónarmiða við fiskistjórnun. Slík stofnun gæti:
– Metið magn afráns sjávarspendýra og áhrif þeirra á nytjastofna og fiskveiðar.
– Rannsakað möguleikana á hagkvæmri nýtingu hvalaafurða á nýjum eða núverandi mörkuðum.
– Lagt fram hagrænar greiningar um hvort stjórnun á hvalastofnum gæti skilað samfélaginu fjárhagslegum ávinningi.
– Unnið að raunverulegri innleiðingu vistkerfisstjórnunar („Ecosystem-Based Fisheries Management“, EBFM) á Íslandi með jafnvægi milli náttúruverndar og efnahagslegra sjónarmiða.
Í þessu samhengi má nefna þá staðreynd að um 15.000 hnúfubakar við Ísland éta um 100.000 tonn af loðnu á viku. Ef gefinn væri út lágmarkskvóti til útgerða sem samsvaraði því magni sem bara hnúfubakur étur á viku væri jafnframt hægt að fylgjast með útbreiðslu loðnunnar. Slík aðgerð gæti skapað forsendur fyrir skilvirkari veiðistjórnun byggðri á betri þekkingu á vistkerfinu og samspili tegunda.
Tekur útgerðin af skarið?
Það ætti að vera hlutverk útgerðarinnar að taka af skarið í þessum málum. Útgerðin á veiðiheimildirnar og þarf að fylgjast vel með sínum garði. Rétt eins og bóndinn passar lömbin fyrir refunum ætti sjávarútvegurinn að vernda og rækta fiskistofnana fyrir auknu afráni sjávarspendýra. Fólkið í landinu, sem á fiskinn í sjónum, kallar eftir gagnsæi og ábyrgri nýtingu fiskistofna, og því er nauðsynlegt að útgerðin og stjórnvöld tryggi að allar ákvarðanir um veiðistjórnun séu byggðar á traustum gögnum og opnum umræðum. Stjórnvöld ættu því að styðja við útgerðina í að móta skýra stefnu um nýtingu sjávarspendýra sem hluta af heildrænni vistkerfisstjórnun, tryggja þannig stöðugleika fiskistofna og framtíð sjávarútvegs.
Höfundur er framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf. og sjávarútvegsfræðingur.