Útgerð Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs víða um landið.
Útgerð Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs víða um landið. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef þungar áhyggjur af þessu og þykist vita hvað þetta þýðir fyrir sveitarfélagið Hornafjörð. Þetta þýðir að önnur undirstöðuatvinnugreinin hjá okkur dregur úr fjárfestingu sinni á svæðinu

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Ég hef þungar áhyggjur af þessu og þykist vita hvað þetta þýðir fyrir sveitarfélagið Hornafjörð. Þetta þýðir að önnur undirstöðuatvinnugreinin hjá okkur dregur úr fjárfestingu sinni á svæðinu. Þessi fyrirtæki eru í dag að fjárfesta gríðarlega í sínum innviðum og búnaði til þess að auka gæði framleiðslunnar og ná þannig meiri samkeppnishæfni. Ég minni líka á að okkar fyrirtæki taka sína samfélagslegu ábyrgð alvarlega og nálgast hana af miklum myndarbrag og styðja við menningu, æskulýðs- og íþróttastarf og margt fleira – og ég óttast að við finnum fyrir þessu einnig þar,“ segir Sigurjón Andrésson bæjarstjóri Hornafjarðar um tillögur ríkisstjórnarinnar um stóraukin veiðigjöld.

„Þetta mun að óbreyttu hafa áhrif á störf, fjárfestingu og tekjur sveitarfélagsins og samfélagið allt. Við erum nýbúin að ganga frá kjarasamningum [við kennara] og erum að vinna í áætlanagerð samkvæmt því og þurfum nú að taka tillit til þessara breytinga einnig. Við erum bara að reyna að ná utan um þetta, þetta gerist hratt og kemur mjög bratt,“ segir hann.

Landsbyggðarskattur

„Ég hef ekki haft tækifæri til að fara yfir þetta, en öll hækkun á veiðigjaldi hefur mjög mikil áhrif á þetta samfélag og miðað við það sem við höfum lesið um málið í fjölmiðlum höfum við miklar áhyggjur af þessu. Það er alveg ljóst,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.

Íris, sem er jafnframt varaformaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, bendir á að uppsjávartegundir eru einhverjir mikilvægustu nytjastofnar fyrir útgerðirnar í Vestmannaeyjum og því ljóst að umfangsmikil hækkun gjalds á þessar tegundir hefur veruleg áhrif í bænum. Hún bendir á að Vestmannaeyjabær hafi áður mótmælt hækkun veiðigjalda, sem hún segir fyrst og fremst landsbyggðarskatt.

„Ég hef heyrt í nokkrum af bæjarstjórum í sjávarútvegssveitarfélögum sem hafa miklar áhyggjur af þessu,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, en hann er jafnframt formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Jón Björn kveðst eiga eftir að rýna betur í tillögurnar en segir jafnframt: „Eins og þetta hefur birst mér í dag og miðað við þau miklu viðbrögð sem ég skynja hjá sveitarfélögum sem lýsa áhyggjum sínum er mikilvægt að stjórnvöld leiti samráðs við fyrirtækin í þessum sveitarfélögum svo þetta komi ekki niður á fjárfestingu og störfum.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson