Sigurður Einarsson fæddist í Odda á Fáskrúðsfirði 14. apríl 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 16. mars 2025.
Foreldrar hans voru Einar Sigurðsson, f. 8.4. 1897, d. 3.2. 1984, og Þórhildur Þorsteinsdóttir, f. 25.5. 1907, d. 13.3. 1940. Systkini hans eru Guðrún Einarsdóttir, f. 24.2. 1931, og Guðlaugur Einarsson, f. 4.6. 1935, d. 9.10. 2009.
Seinni kona Einars var Unnur Pétursdóttir, f. 31.10. 1908, d. 6.7. 1994. Sigurður kvæntist Helgu Eysteinsdóttur, f. 26. júlí 1938, fyrsta vetrardag 1957. Börn þeirra eru: 1. Eysteinn, f. 6.5. 1958, kvæntur Andreu Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 2. 11. 1961. Börn þeirra eru: a) Kjartan Dagur, f. 1989, maki Lilja, f. 1983, og eiga þau Hrafnhildi, f. 2004, og Flóka, f. 2019. b) Helga Vala, f. 1992, maki Bryngeir, f. 1994, og eiga þau Lukku, f. 2021. d) Ylfa, f. 1997, maki Viktor, f. 1992. 2. Hera, f. 27.4. 1960, gift Pétri Reimarssyni, f. 9.3. 1951. Barn þeirra er Guttormur, f. 2000, unnusta Guðrún Elsa, f. 2000. Fyrri maki Heru, Friðrik Þór Friðriksson, f. 1954. Börn þeirra eru: a) Friðrik Steinn, f. 1984, maki Brynja, f. 1987, þeirra börn eru Friðrik Yngvi, f. 2014, og Baldur Ingi, f. 2018. b) Helga, f. 1988, dóttir hennar er Hera Guðríður Friðrika Margrét, f. 2013. Börn Péturs með fyrri maka: a) Frosti, f. 1971, b) Reimar, f. 1972, maki Björg, f. 1978. c) Valva, f. 1975, maki Valdimar Þór, f. 1975. 3. Kristín, f. 24.1. 1963, gift Trausta Finnbogasyni, f. 10.8. 1964, synir þeirra eru: a) Eysteinn, f. 1990, b) Sigurður, f. 1994, maki Edda Rún, f. 1994. Börn þeirra eru Trausti, f. 2022, og Benedikt, f. 2024. c) Úlfur, f. 1995, maki Kolbrún Laufey, f. 1995. Dóttir þeirra er Melkorka, f. 2022. 4. Einar, f. 11.1. 1968, kvæntur Írisi Jónsdóttur, f. 26.6. 1972, börn þeirra eru: a) Elmar, f. 2000, unnusta Guðrún Rebekka, f. 2001. b) Rakel, f. 2004
Sigurður lauk námi við Iðnskólann í Reykjavík sem húsa- og skipasmiður. Hann vann við smíðar hjá föður sínum í Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði meðfram námi.
Árið 1961 útskrifaðist hann sem byggingarfræðingur úr Det Tekniske Selskaps Skoler í Kaupmannahöfn.
Að námi loknu hóf hann störf hjá Teiknistofu Sambandsins, þar kom hann að hönnun fjölbreyttra bygginga svo sem mjólkursamsölum og sláturhúsum á Akureyri, Borgarnesi, Egilsstöðum, Búðardal og víðar. Hann hannaði einnig fjölmargar bensínstöðvar víðs vegar um landið. Teiknistofa Sambandsins hætti störfum 1986 og þá stofnaði Sigurður ásamt fleirum Nýju teiknistofuna. Sigurður hannaði m.a. Hyrnuna í Borgarnesi fyrir Olíufélagið Esso, nú N1, einnig hannaði hann fjölda íbúðahúsa. Auk hönnunar mannvirkja teiknaði hann fjölmarga báta.
Sigurður verður jarðsunginn frá Laugarneskirkju í dag, 26. mars 2025, klukkan 13.
Sigurður Einarsson tengdafaðir minn var hógvær maður og lét ekki mikið fyrir sér fara. Hann var fyrst og fremst fjölskyldumaður sem elskaði börnin sín og hafði einstaka unun af samskiptum við barnabörnin og síðar langafabörnin.
Hann ólst upp í sjávarþorpi þar sem faðir hans var víðfrægur bátasmiður – Einar í Odda. Einari hefur verið sýndur sómi í sinni heimabyggð – Fáskrúðsfirði – þar sem er að finna minnismerki um arfleifð hans. Sigurður ætlaði að feta í fótspor föður síns og útskrifaðist sem báta- og bryggjusmiður. Alla tíð hafði hann unun af því að ferðast um hafnir landsins og skoða báta, skip og bryggjur.
Sigurður venti síðan kvæði sínu í kross og hélt til náms í Kaupmannahöfn ásamt ungri fjölskyldu sinni og útskrifaðist sem byggingafræðingur. Að námi loknu kom hann heim og hóf störf hjá Teiknistofu Sambandsins. Þar teiknaði hann sláturhús, mjólkurbú og bensínstöðvar auk íbúðarhúsa. Þegar ég kynntist Sigurði var langt liðið á starfsferil hans. Sambandið hafði liðið undir lok en starfsmennirnir haldið sínu striki undir nafni Nýju teiknistofunnar. Þegar aldurinn færðist yfir starfsmennina tók Sigurður teiknistofuna yfir og hélt áfram að sinna fjölbreyttum verkefnum langt fram á níræðisaldurinn. Hann var níræður þegar Nýju teiknistofunni var loks slitið.
Sigurður var metnaðarfullur, sinnti verkefnum sínum af kostgæfni og fagmennsku hans var við brugðið.
Sigurður teiknaði og byggði heimili fjölskyldunnar í Sæviðarsundi snemma á sjöunda áratugnum. Fjölskyldan flutti inn áður en framkvæmdum lauk eins og algengt var á þeim tíma. Þar sköpuðu hjónin fallegt heimili sem einkenndist af smekkvísi og látlausri hönnun með sterku dönsku yfirbragði. Eftir að börnin fluttu að heiman og stofnuðu sínar eigin fjölskyldur áttu barnabörnin jafnan athvarf hjá afa og ömmu. Sigurður og Helga tóku reglulega að sér erlenda skiptinema sem dvöldu hjá þeim um hríð og ættingjar utan af landi voru jafnan aufúsugestir til lengri eða skemmri dvalar. Gestrisni var þeim í blóð borin.
Sigurður var heilsuhraustur og til þess tekið að hann tók aldrei nein lyf. Hann þurfti ekki á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda utan þess þegar hann fékk ígerð í eina tá – þá kominn langleiðina í nírætt.
Sigurður var vandaður maður, góður í viðkynningu, lá aldrei illt til nokkurs manns, iðkaði störf sín og elskaði fjölskyldu sína með látleysi og einkennandi umhyggju. Hann skilur eftir sig hafsjó minninga sem vinir og ættingjar njóta um ókomna tíð.
Pétur Reimarsson.
Ég er heppinn að hafa fengið að eiga afa Sigga að. Í raun ekki aðeins eina útgáfu af honum, heldur tvær. Afa barns og afa fullorðins einstaklings. Maðurinn sem teiknaði báta, bíla og hús fyrir barnið þróaðist yfir í manninn sem teiknaði innréttingar, deili og uppröðun í íbúð fullorðins einstaklings. Hlutverkið þróaðist úr því að brasa með börnunum í bílskúrnum yfir í að fá þau sem handlangara í uppsetningum og útfærslum. Sköpunarkraftur hans færðist frá heimi barns í heim fullorðna barnabarnsins. Í raun breyttist nálgun afa lítið þegar hann var að sinna þessum ólíku „kúnnahópum“. Hann nálgaðist allt með nákvæmni og næmni. Hann vissi alltaf hvar blýantsstrikið myndi enda.
Afi Siggi hefur verið mikil fyrirmynd mín í að hugsa í snjöllum lausnum og útfærslum. Hann var módernisti og naumhyggjumaður sem taldi að útlitið skyldi fylgja virkninni. Praktíska nálgunin varð til þess að útfærslur hans urðu oft kostulegar, eins konar hversdagslegar uppfinningar. Eins og fatahengi sem hann gerði með því að þvinga þrjár þvingur saman. Eða tertuferjari úr götuðum krossviðarplötum tengdum saman með snittteinum þar sem rær undir plötunum buðu upp á stillingu á hæð eftir stærð hnallþóranna. Hagnýtar útfærslur afa voru alltaf skapandi og í því óvænt fallegar.
Afa féll aldrei verk úr hendi, hann var alltaf að. Minningar af honum að vinka bless á laugardagsmorgni þegar ég var undir sæng að horfa á barnatíma. Þar sem hann var á leiðinni á teiknistofuna að vinna. Þær stundir sem hann leyfði sér að slaka á voru í raun hugmyndavinna og grúsk. Að lesa og skoða hönnunartímarit og rúnta um hverfi borgarinnar til að skoða nýjustu uppbyggingarhverfin. Þrátt fyrir elju þá þaut hann ekki áfram með látum. Hann var hæglátur og nærgætinn.
Afi kenndi mér að líða vel í þögninni. Að það þyrfti ekki að fylla hverja einustu sekúndu, hverja mínútu. Það mætti hvíla í sér. Ég minnist afa með hlýju og þakka fyrir að hafa fengið að eiga dýrmætar samverustundir með honum. Að hafa fengið að læra af honum að leyfa innsæi og næmni að vísa veginn í úrlausn hagnýtra mála.
Friðrik Steinn Friðriksson.
Við minnumst kærs frænda okkar Sigurðar, sem lést 16. mars. Sigurður var næstelstur þriggja systkina. Elst er móðir okkar Guðrún, þá Sigurður ári yngri og yngstur var Guðlaugur (Gulli) sem er látinn. Þegar Sigurður var átta ára lést móðir þeirra af barnsförum. Einar Sigurðsson faðir þeirra rak umsvifamikið byggingarfyrirtæki á Fáskrúðsfirði, Trésmíðaverksmiðju Austurlands, oftast kallað Oddaverkstæðið, þar sem það stóð innst í kauptúninu, rétt við heimili þeirra Odda. Uppeldi bræðranna fór því að mestu fram á verkstæðinu og Sigurður og bróðir hans Guðlaugur urðu húsa- og skipasmíðameistarar eins og faðir þeirra. Siggi og Gulli voru alltaf góðir og mjög gjafmildir við okkur krakkana. Þeir voru báðir hávaxnir, grannir, dökkir yfirlitum og í raun einstök glæsimenni og héldu sér vel.
Sigurður var listasmiður og á heimili okkar voru munir sem hann gaf systur sinni, unnir af einstakri smekkvísi og fágun. Að námi loknu hélt Sigurður til Kaupmannahafnar, ásamt konu sinni Helgu Eysteinsdóttur, og lauk þar byggingafræði og settist síðan að í Reykjavík. Þau bjuggu sér heimili í Sæviðarsundi.
Siggi var einstaklega bóngóður og hjálpfús og því var mikið leitað til hans um eitt og annað sem þurfti hjálpar við. Hann var sérstaklega eljusamur og stundaði vinnu sína fram á níræðisaldur. Þau hjónin voru mjög gestrisin og var jafnan dvalið á heimili þeirra til lengri og skemmri tíma þegar þurfti að leita erinda í höfuðstaðinn.
Þá var líka alltaf tilhlökkunarefni þegar von var á fjölskyldunni úr Sæviðarsundinu austur á sumrin og farið saman til berja og við krakkarnir í ýmsa leiki langt fram eftir kvöldi.
Foreldrar okkar og Sigurður og Helga voru miklir vinir og ferðuðust oft saman bæði innanlands og utan.
Við þökkum kærum frænda samfylgdina og sendum Helgu, frændsystkinum og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.
Stefán, Þórhildur,
Margrét og Kristín Björg Albertsbörn.
Við systkinin nutum þess að fá að alast upp að hluta til á heimili Helgu og Sigga í Sæviðarsundi meðan foreldrar okkar voru í vinnunni á daginn. Sæviðarsundið og heimilislífið þar varð þannig hluti af æskuminningum okkar og öll fjölskyldan tók okkur opnum örmum. Í minningunni var alltaf líf og fjör í Sævó, húsið fullt af fólki og alltaf tekið vel á móti öllum, fólki og dýrum. Siggi var höfðingi heim að sækja enda gestrisnari og hjálpsamari mann erfitt að finna. Sífellt að passa að gestir fengju nóg að borða, væru með kaffi í bollanum og fyrstur manna til að hugga eða sinna ungbörnum. Alltaf tilbúinn að aðstoða vini og vandamenn, hvort sem var að skutlast, hjálpa í framkvæmdum eða við annað sem þarfnaðist aðstoðar hans. Tengdamamma hans og mágkonur nutu einnig aðstoðar og hjálpsemi hans um árabil.
Eftir að við systkinin hófum skólagöngu fækkaði heimsóknum í Sævó. Eitt sinn þegar Inga Magga var á unglingsaldri og við systkinin ein heima varð hún lasin. Það tók ekki nema eitt símtal til Helgu og þá var Siggi mættur stuttu seinna til að sækja hana og fara með í Sævó. Slík greiðasemi og tillitssemi við náungann var í okkar huga eitt af höfuðeinkennum Sigga.
Við þökkum fyrir hversu velkomin við vorum alltaf í Sævó og hversu góð Helga og Siggi voru okkur.
Við sendum Helgu og ættingjum Sigga okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Þórsteinn og
Ingunn Margrét.