Heiðrún Lind Marteinssdóttir
Heiðrún Lind Marteinssdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ljóst að forsendur áframvinnslu afla á Íslandi séu brostnar verði tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds að lögum

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ljóst að forsendur áframvinnslu afla á Íslandi séu brostnar verði tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds að lögum. Hún segir þetta varða í kringum þrjú þúsund launþega í fiskvinnslum landsins.

„Það sem er kallað leiðrétting þýðir ekki annað en að fiskvinnsla eigi að greiða meira fyrir afla til skips. Við höfum haft áhyggjur af fiskvinnslu á Íslandi og ef á að miða við það verð sem fiskvinnsla greiðir í Noregi þá er fiskvinnslan órekstrarhæf. Það er kannski ástæða þess að Norðmenn flytja verulegt magn af óunnum fiski úr landi,“ segir Heiðrún Lind.

Hún bendir á að hlutfall fiskverðs í rekstrarkostnaði fiskvinnslu í Noregi sé 80-90%. Þá séu aðeins 20-10% eftir til að greiða laun, rafmagn, tækjakaup, viðhald og fjármagnskostnað. „Það sjá allir að það gengur ekki upp. Þetta er ekki bara lífæð fólks sem starfar í sjávarútvegi heldur eru þetta líka rafvirkjar, vélsmiðjur og aðrir sem þjónusta sjávarútveginn. Hverfi landvinnsla missir þetta fólk spón úr aski sínum og ríkið líka.“

Kveðst hún hafa spurt Hönnu Katrínu Friðriksson og Daða Má Kristófersson hvort það standi til að ríkisstyrkja innlenda fiskvinnslu með sambærilegum hætti og gert er í Noregi, svarið hafi þó verið nei.

Sé þessi mikla hækkun veiðigjalda til þess gerð að laga stöðu ríkissjóðs telur Heiðrún Lind það aðgerð sem skili litlum bata. „Það er aldrei þannig að veiðigjöld geti stoppað í stórt gat í fjárlögum. Það er miklu meira að sækja með aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi sem skilar tekjuaukningu í gegnum öll lög sjávarútvegsins.“

Fagna frítekjumarki

Ekki óvænt

„Ég fagna því að afslátturinn heldur sér, sem hefur komið sér afskaplega vel fyrir okkar menn,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda (LS), inntur álits á tillögum ríkisstjórnarinnar.

„Það kom mér svo sem ekki á óvart að það kom einhver hækkun [veiðigjalds] og að það yrði miðað við verð á mörkuðum,“ segir Örn sem tekur fram að LS eigi eftir að rýna betur í tillögurnar og taka afstöðu til þeirra.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson