Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt að hefja samtal við Vegagerðina um að setja upp nýja ljósastýrða gangbraut á Hringbraut.
Henni er ætlaður staður við Sæmundargötu, nálægt háskólanum. Rúmlega 100 metrum norðar á Hringbraut, við Þjóðminjasafnið, er gangbraut með ljósastýringu.
Mikil umferð er um Hringbraut alla daga, ekki síst á háannatíma, og langar bílaraðir geta myndast við gangbrautir og nálægt hringtorg, Melatorg. Frá torginu að Ánanaustum eru sex ljósastýrðar gangbrautir.
Við afgreiðslu málsins í ráðinu voru lögð fram margvísleg gögn. Þar má sjá að árið 2013 tók Reykjavíkurborg ákvörðun, í samráði við veghaldara Hringbrautar, Vegagerðina, að gera ljósastýrða gangbraut yfir Hringbraut á móts við Sæmundargötu.
Gönguljósin áttu að vera í beinu framhaldi af hjólreiðastíg sem hafði verið ákveðið að leggja eftir Sæmundargötu. Voru framkvæmdir hafnar í september 2013 án þess að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu væri tilkynnt um þær.
Í kjölfar þess að lögreglan setti sig upp á móti framkvæmdinni ákvað þáverandi meirihluti í borginni að hætta við hana.
Háskólanemar senda bréf
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023, var svohljóðandi tillaga umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands lögð fram og henni vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar:
„Við í umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands óskum eftir því að sú ákvörðun að sleppa því að setja upp gönguljós á gatnamótum Hringbrautar og Sæmundargötu verði endurskoðuð. Á grasinu sem aðgreinir akreinar Hringbrautar er niðurtroðin leið sem verður afar drullug þegar veður er vont.
Þetta er stytting sem gangandi vegfarendur nýta sér óspart. Í öllum veðrum og á öllum tímum sólarhrings hleypur fólk þarna yfir þessa miklu umferðargötu og vonast til að verða ekki fyrir bíl.
Við teljum að gönguljós á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar væru mikil bót fyrir gangandi vegfarendur og myndu þar að auki tengja miðbæ Reykjavíkur enn betur við háskólasvæðið ásamt því að tryggja gott flæði þarna á milli.“
Samgöngustjóri borgarinnar veitti umsögn með bréfi 4. apríl 2024. Segir samgöngustjórinn að ekkert standi í vegi fyrir því að hefja að nýju viðræður við Vegagerðina og lögreglu um gerð gönguþverunar yfir Hringbraut, til móts við Sæmundargötu, sé vilji til að snúa frá fyrri ákvörðun.
Í kjölfar slíkrar ákvörðunar yrði fyrri hönnun yfirfarin m.t.t. mögulegra breyttra forsenda og skipulags og kostnaðaráætlun gerð.
Vegagerðin hefur veitt umsögn um tillöguna. Fram kemur í umsögn hennar að skoðun á svæðinu sýni að gangandi vegfarendur séu greinilega að þvera Hringbraut við vinstri beygjuna inn á Sæmundargötu. Grasið á miðeyjunni hafi verið troðið niður og sé nánast horfið.
Þessi mikla umferð skýrist af því að fjölmenn fyrirtæki og stofnanir séu öðrum megin Hringbrautar en íbúðabyggð hinum megin.
Því sé talsvert mikil umferð gangandi fólks yfir Hringbrautina á þessum kafla.
Er það mat Vegagerðarinnar að ljósastýrð gönguþverun sé öruggasti kosturinn.