Danski knattspyrnumarkvörðurinn William Tönning er genginn til liðs við KA. William kemur til KA frá sænska félaginu Ängelholm, sem leikur í C-deild Svíþjóðar. William hefur spilað í Svíþjóð, Færeyjum, Danmörku og Nýja-Sjálandi

Danski knattspyrnumarkvörðurinn William Tönning er genginn til liðs við KA. William kemur til KA frá sænska félaginu Ängelholm, sem leikur í C-deild Svíþjóðar. William hefur spilað í Svíþjóð, Færeyjum, Danmörku og Nýja-Sjálandi. KA-menn fengu markvörðinn Jonathan Rasheed í febrúar en hann sleit hásin á æfingu liðsins stuttu seinna og er frá út tímabilið. William kom inn á í sínum fyrsta leik í tapi KA fyrir Þór í vítakeppni í gær.

Nóg var um að vera hjá Íslendingum í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik í gærkvöldi. Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann Melsungen, 29:26, í fyrri leik liðanna í Gummersbach. Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach en Teitur Örn Einarsson var ekki með. Hjá Melsungen voru Einar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson fjarverandi vegna meiðsla. Stiven Tobar Valencia reyndist drjúgur og skoraði fimm mörk fyrir Benfica í sigri á danska liðinu GOG, 33:31, í Lissabon. Þá skoraði Þorsteinn Leó Gunnarsson þrjú mörk í sigri Porto á franska liðinu Toulouse, 35:28, í Porto. Seinni leikirnir fara fram næsta þriðjudag.

Svíþjóðarmeistarar Sävehof unnu fyrsta leikinn gegn Karlskrona sannfærandi, 28:22, í átta liða úrslitum Svíþjóðarmótsins í handknattleik í Karlskorna í gærkvöldi. Tryggvi Þórisson skoraði ekki hjá Sävehof en Færeyingurinn Óli Mittún skoraði 10 mörk. Hjá Karlskrona skoraði Ólafur Guðmundsson fjögur mörk og Dagur Sverrir Kristjánsson eitt. Næsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Sävehof á morgun en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslit.

Landsliðskonan Danielle Rodriguez hélt uppteknum hætti þegar lið hennar Fribourg hafði betur gegn Pully, 87:54, í átta liða úrslitum um svissneska meistaratitilinn í körfubolta í Fribourg í gærkvöldi. Danielle skoraði 20 stig, tók eitt frákast og gaf fimm stoðsendingar en tvo sigra þarf til að komast í undanúrslitin. Annar leikur liðanna fer fram á heimavelli Pully næstkomandi föstudagskvöld en með sigri þar kemst Fribourg áfram.