Hið ljúfa líf
Stefán Einar Stefánsson
ses@mbl.is
Ég þreytist seint á að fjalla um Pol Roger. Fyrir því er einföld ástæða. Þetta glæsihús frá Épernay hefur í rúma eina og hálfa öld skaffað á markaðinn framúrskarandi góð kampavín.
Hér heima þekkja flestir Brut-fjölárgangavínið frá þeim sem skenkt er á góðum veitingastöðum og klúbbum á borð við Kjarval. Minnir að einnig sé hægt að dreypa á því á Gilligogg undir stórgóðum ádeilumálverkum Þrándar Þórarinssonar. Hann er, eins og aðrir góðir kommar, sólginn í gott kampavín. Það vín er frísklegt finnst mér þótt sýran sé nokkuð ágeng fyrir minn smekk. Þegar maður kemur hlaupandi beint af fundi og í glas af kampavíni er það gott, en stundum væri ég til í aðeins meiri mýkt, sérstaklega þegar asinn er enginn að öðru leyti.
En svo eru það öll hin vínin sem frá Pol stafa. Í miklu uppáhaldi auðvitað Winston Churchill Cuvée (fjallaði um það í grein 18. nóvember síðastiðinn og það var 2012-árgangurinn). Það er krúnudjásnið í framleiðslunni og eftir því fágætt og dýrt. Árgangurinn þessi fékk hvorki meira né minna en 98 punkta í alfræðiorðabók Tysons Stelzers í fyrra.
Tvö skemmtileg í árgangi
En Innnes, sem er umboðsaðili Pol Roger, hefur lengi haft metnað fyrir því að gera fleiri vín úr seríum fyrirtækisins aðgengileg. Ég hef nokkrum sinnum birgt mig upp af Extra Brut-útgáfunni frá þeim (silfraði miðinn) og það er mjög skemmtilegt vín í alla staði.
En um þessar mundir er einnig hægt að kaupa (í Vínbúðunum) árgangavín af tvennum toga. Annars vegar er það Rosé sem er 2018-árgangur og hins vegar Blanc de Blanc 2016. Og það vín langar mig til þess að gera að nokkru umtalsefni hér.
Pol Roger hefur sögulega verið þekktast fyrir afburðaframleiðslu af Pinot Noir. Vissulega hefur húsið bæði ræktað og keypt til sín ber og safa úr Pinot Meunier og Chardonnay. Það er nauðsynlegur hluti af Brut-framleiðslunni svo dæmi sé tekið. En Pinot Noir hefur verið hið sanna hetjuljóð.
Og af þeim sökum hefur húsið einnig verið mjög þekkt fyrir Rosé-árgangavínin sem eru höfug og mikil og á stundum nærri því dumbrauð.
Hvíta línan afar spennandi
En það gerir það enn meira spennandi að sjá hversu vel hefur tekist til síðustu ár að byggja upp árgangavín úr hreinu Chardonnay. Eftirminnilegur var sérstaklega 2013-árgangurinn sem kom afar vel út og þá olli 2015 síst vonbrigðum.
Og nú er kominn á markaðinn hér heima 2016-árgangurinn sem hefur verið að fá þrusugóða dóma erlendis. Það er fagurljósgyllt og sýran er í góðu jafnvægi. Viðbættur sykur er aðeins 7 g. Í nefi kemur sýran vel í gegn og léttur steinefnailmur. Þá taka við bökuð epli og gertónar sem oft einkenna árgangavín sem þetta þar sem vínið hefur verið látið standa á geri í 6-7 ár.
Í munni taka svo við græn epli, apríkósur og fínlegir kryddtónar sem minna á hvítan pipar.
Ég hef smakkað þennan árgang einan og sér og vínið stendur algjörlega undir sjálfu sér. Það þarf hvorki hækju né ætti að nýtast sjálft sem slíkt.
Ekki bara eitt og sér
En getur það lyft góðum mat? Sannarlega. Augljósa valið væri fiskmeti af einhverju tagi. Humar með hvítvínssósu kemur upp í hugann. Eða elegant og ferskt sushi.
En mér datt annað í hug. Aðeins groddaralegra. Ég leyfi mér stundum að kaupa niðursoðin andalæri (fást í stórum áldósum í Bónus, Krónunni, Hagkaup og öðrum helstu verslunum).
Eldunaraðferðin er eins einföld og hugsast getur. Maður kemur lærunum fyrir á grind og hreinsar fituna eins vel af skinninu og frekast er unnt. Inn í ofn með snarkandi grilli og þegar skinnið er brúnað og stökkt eru lærin tílbúin. Ratte-kartöflur steiktar upp úr andafitunni sem fylgir (eiginlega djúpsteiktar) og einfalt salat með franskri dressingu (hvítvínsediki, dijon-sinnepi og hvítum lauk) er þrenning sem getur ekki klikkað.
Og að þessu sinni kom þetta fullkomlega út. Pol Roger BdeB 2016 var himnasending með þessari ágætu steik – þriðjudagssteik.