VIÐTAL
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Í mér býr norsk taug, frá þeim árum þegar ég bjó úti í Noregi, skömmu eftir menntaskóla. Þá kynntist ég norrænni vísnatónlist og nokkrum árum síðar tónlist norsku tónlistarsystkinanna, Lars, Ola og Kari, sem kölluð eru Bremnessystkinin. Ég hef haldið mikið upp á þau allar götur síðan,“ segir Guðrún Gunnarsdóttir söngkona sem ætlar m.a. að syngja lög Bremnessystkinanna á tónleikum sem hún býður til í Salnum í Kópavogi í næstu viku ásamt sjö manna hljómsveit. Tónleikarnir bera yfirskriftina Skandinavía, enda ætlar hópurinn að flytja lög eftir norræn söngvaskáld, en auk laga Bremnessystkina ætlar Guðrún að syngja lög eftir hinn sænsk-hollenska Cornelis Vreeswijk, auk fleiri lagahöfunda.
„Ég var viðloðandi þjóðlaga- og vísnasenuna á þessum árum sem ég bjó í Osló, við vorum fjögur sem stofnuðum grúppu sem starfaði um tíma. Ég, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Anna Pálína Árnadóttir og Norðmaðurinn Geir Atle Johnsen. Við keyrðum um Norðurlöndin og spiluðum hér og þar, meðal annars á tónlistarhátíð í Finnlandi, þar sem einmitt hinn frægi Cornelis var aðalnúmerið. Hann var algerlega frábær á þessari hátíð og við hittum hann í eigin persónu og fengum þó nokkurn stjörnustjarfa. Þá var ég 21 árs en Cornelis var orðinn heilsulaus og lést nokkrum árum síðar. Fyrir fimmtán árum gaf ég svo út plötu þar sem ég söng lögin hans í íslenskri þýðingu Aðalsteins Ásbergs, svo þessi norræna þjóðlagataug er sterk í mér og hún bankar reglulega upp á, þegar ég fæ smá tíma frá hinu, að vinna í annars konar tónlist.“
Elskar Bremnessystkinin
Fyrir um 30 árum gaf Aðalsteinn Ásberg Guðrúnu disk í jólagjöf með lögum eftir Kari Bremnes og stuttu síðar annan disk með þeim þremur systkinunum, Kari, Lars og Ola. „Þá vaknaði þessi svakalegi áhugi hjá mér á þeirra tónlist, ég elskaði þessi systkini og geri enn. Textarnir hjá þeim eru frábærir og lögin ekki síður góð. Ég fór í haust á tónleika í óperuhúsinu í Osló með Kari Bremnes og ég heillaðist algerlega upp úr skónum. Það hefur verið minn æðsti draumur í þessi 30 ár sem ég hef haldið upp á Bremnessystkinin og þeirra tónlist, að komast á tónleika með þeim öllum saman, en þau halda mest tónleika á litlum stöðum út um allan Noreg. Í covid-tíð voru þau með stóra tónleika í Óperuhúsinu í Osló og ég var á löngum biðlista um að fá miða, ég hringdi nánast grenjandi í miðasöluna og suðaði um að fá einn einasta miða, ég sagðist ætla að koma alla leið frá Íslandi. Það dugði ekki til, ég fékk ekki miða, en ég vona sannarlega að þau komi fram síðar, þá mun ég stökkva af stað.“
Með gítarinn sinn á bakinu
Guðrún segir að Aðalsteinn Ásberg hafi samið alla textana sem hún mun syngja á tónleikunum, við lög Bremnessystkinanna sem og texta við önnur lög sem hún ætlar að syngja. „Sum þessra laga hef ég hljóðritað á fyrri plötum mínum og Aðalsteinn íslenskað, en við völdum nokkur „ný“ lög af eldri diskum Bremnessystkinanna sem ég hef ekki sungið áður og hann þýddi því nokkra texta sérstaklega fyrir mig fyrir þessa tónleika. Þarna eru því nokkrir nýir textar sem enginn hefur áður heyrt við lög sem fáir hafa heyrt. Reyndar spila ég stundum lög með þeim systkinum í vinnu minni í Ríkisútvarpinu, svo ef þau fá stefgjöld frá Íslandi, þá er það mér að þakka,“ segir Guðrún og hlær.
„Hluti af mínu hjarta er norrænt þjóðlagahjarta, af því að ég held að það sem við elskuðum að hlusta á sem unglingar setjist einhvern veginn í taugakerfið okkar og fylgi okkur alla tíð, það fer ekkert úr hjartanu. Ég get ekki sagt að það sem er á efnisskrá tónleika sé allt vísnatónlist eins og hún var í gamla daga, margt af þessu er meira í ætt við létt popp. Hún er svo rík hjá Svíum og Norðmönnum þessi vísna- og þjóðlagahefð, og þar eru textarnir í aðlahlutverki, í hverju lagi er verið að segja sögur. Þetta er kannski svolítið eins og í kántrítónlist, þar er alltaf saga með upphaf, miðju og endi, einhverja framvindu.
Þetta eru sögur sem skipta máli, í þeim er mikil náttúra og þær fjalla um okkur mannfólkið, ástina og tilfinningarnar, það sem skiptir máli í lífinu. Þegar við vorum að flakka á milli landa með okkar vísnalög ung að árum, þá sáum við að tónlistarfólk innan þessa geira er miklir bóhemar. Þetta var fólk sem fór á milli staða með gítarinn sinn á bakinu og spilaði sína eigin tónlist og eigin texta. Vísnahátíðir voru mjög víða á Norðurlöndunum á þessum tíma og hér á Íslandi voru allavega tvisvar haldnar slíkar norrænar hátíðir, en vísnavinasamfélagið hér heima hefur svolítið lognast út af. Ég sé samt þegar ég hef til dæmis tekið þátt í minningartónleikum um Bergþóru Árnadóttur, að þá hefur stór hópur mætt, líka þegar ég hef flutt tónlist Cornelis. Þessi tónlist á sér alveg ágætis hóp, en hann er vissulega að eldast, þetta er oft fólk sem var í sínu háskólanámi á ákveðnu tímabili á Norðurlöndunum á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, þau þekkja því tónlistina,“ segir Guðrún og bætir við brosandi að það sé ekki mikið stuð í þessari tónlist, en hún sé afar hugljúf og góð í hjartað og auðvitað séu sum lög aðeins hraðari en önnur.
„Tónleikagestir hafa oft talað um að þeim líði vel eftir tónleika þar sem flutt er svona tónlist, fólk fer út með vandaða texta í hjartanu um það hve lífið getur verið gott. Ekki veitir af á viðsjárverðum tímum, en í þessari tónlist er lagt upp úr því að flytja textann þannig að áheyrendur heyri vel hvað er verið að segja. Aðalsteinn er algjör snillingur með þessa norrænu texta, því hann kann þessi tungumál svo vel, hann þýðir þetta svo vel.“
Matarklúbburinn stígur á svið
Guðrún segist vera með einvalalið með sér á tónleikunum, hæfileikaríka hljómsveitarmeðlimi sem spila með henni.
„Þetta eru frábærir menn, ég og maðurinn minn smöluðum þeim saman fyrir fimmtán árum þegar við héldum tónleika þar sem við fluttum lög Sigfúsar Halldórssonar. Úr varð mikill og góður vinskapur og matarklúbbur,“ segir Guðrún og hlær. „Matarklúbburinn stígur því á svið en tveir aukamenn radda líka með mér sönginn, þeir Gísli Magna og Stefán Örn Gunnlaugsson, þeir eru rosalega góðir söngvarar og Stefán spilar líka á hljómborð. Ásgeir Ásgeirsson er hljómsveitarstjórinn, Þorgrímur Jónsson á bassa og Hannes Friðbjarnarson á slagverk. Gunnar Gunnarsson leikur á píanó, en ég hef unnið með honum lengst af öllum í þessum hópi. Á milli okkar er sterk taug og hann var píanóleikari Önnu Pálínu á sínum tíma, þannig komst ég í kynni við hann, í gegnum vini mína Önnu Pálínu og Aðalstein. Hann spilaði með þeim inn á margar plötur og þekkir vel þessa tónlist sem ég er að fara að syngja og þessa sérstöku vísna-þjóðlagataug og við segjum stundum í gríni að sum lögin séu líka einhverskonar vísnadjass.“
Tónleikarnir verða í Salnum í Kópavogi fimmtudaginn 3. apríl klukkan 20. Miðar fást á tix.is og við innganginn.