Ábendingar seðlabankastjóra, sem Morgunblaðið sagði frá á mánudag, um að mæla þurfi árangur íslenska menntakerfisins, eru gagnlegar og eiga fullan rétt á sér. Fyrir nokkrum árum var samræmt námsmat aflagt hér á landi og PISA-próf látið duga, en mikil feimni hefur þó verið við að veita fullar upplýsingar úr því prófi. Það sýnir þó að á heildina litið hefur menntun á Íslandi gefið eftir, í það minnsta í samanburði við önnur ríki. Svo slæmt er ástandið orðið að rætt er um neyðarástand í málaflokknum og ekki að ástæðulausu að svo sterkt sé til orða tekið.
Ráðherrar menntamála hafa brugðist of seint við og nú bíður nýs ráðherra málaflokksins ærið verkefni. Vonandi er hann vandanum vaxinn og vonandi skilur hann mikilvægi þess að þau fjárframlög sem sett eru í
málaflokkinn verði að skila ár
angri. Enn fremur að til að unnt
sé að meta hvort svo sé þurfi að mæla þennan árangur, líkt og seðlabankastjóri bendir á.
Tilhneigingin hefur verið sú að krefjast aukins fjár í málaflokkinn eins og það eitt leysi vandann. Vissulega kann aukið fé að hjálpa, en fyrst þarf að finna út hversu stór vandinn er og hvar hann liggur. Er það í kennsluaðferðum, námsefni, viðhorfi í skólum eða jafnvel á heimilum? Þá þarf að ræða hvort ástandið í sumum skólum sé orðið þannig að þar sé enginn vinnufriður. Lýsingar á því sem hefur verið að gerast í Breiðholtsskóla benda til að svo sé.
Seðlabankastjóri bendir á að það sé „ekki sjálfgefið, að það að hækka laun einhverra hópa komi til baka til þjóðarbúsins. Þannig held ég að það sé mjög mikilvægt hvernig samningum er fylgt eftir og að það verði tryggt að einhver trúverðugur árangur verði.“
Laun kennara hækkuðu mikið í nýjustu kjarasamningum og framlög til menntamála hafa hækkað hratt á undanförnum árum. Það er löngu tímabært að landsmenn fái þá menntun fyrir börn sín sem réttlætir slík útgjöld og til þess að svo megi verða þarf að mæla árangur og hætta að fela vandann eða neita að ræða hann.