Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp til breytinga á lögum um sýslumenn og eru frumvörpin að efni til harla lík. Þau voru lögð fram á Alþingi með skömmu millibili, en flutningsmaður frumvarpsins sem fyrr kom fram er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra, en Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir núverandi dómsmálaráðherra lagði síðara frumvarpið fyrir þingið. Segir Jón í samtali við Morgunblaðið undarlegt að verið sé að eyða tíma þingsins í umfjöllun um tvö frumvörp sem séu nánast eins að efni til. Einfaldara hefði verið fyrir dómsmálaráðherra að leggja til breytingar á frumvarpi hans til að koma sínum áherslum að, í stað þess að flytja frumvarp nánast efnislega samhljóða og eyða þannig tíma þingsins að óþörfu.
Bæði gera frumvörpin ráð fyrir að einn sýslumaður verði skipaður yfir Íslandi, en starfsstöðvar verði úti um landið. Munurinn á frumvörpunum tveimur er í fáum orðum sagt sá að í frumvarpi Jóns er skipulag starfsstöðva sýslumanns bundið í lög, en í frumvarpi ráðherra á að ákveða það í reglugerð.
Þá er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði frumvarps dómsmálaráðherra að skipaðar verði tvær sex manna nefndir, önnur til að skila ráðherra tillögu að reglugerð um skipulag nýs sýslumannsembættis, en hin á að vera sýslumanni til ráðgjafar um stofnun hina nýja embættis og flutning starfsfólks til þess.
Jón bendir á að í frumvarpi ráðherrans sé skipulag sýslumannsembættanna ákveðið með reglugerð og án aðkomu Alþingis. Í því felist m.a. að ráðherra geti fækkað starfsstöðvum að vild eða fært með einu pennastriki, án þess að lýðræðisleg umræða fari fram á þingi. Sams konar fyrirkomulag tíðkist ekki með önnur sambærileg embætti, t.d. lögreglu og dómstóla, en starfsstöðvar þeirra eru að miklu eða öllu leyti lögfestar.
„Ef vilji var til að lögfesta frumvarp ráðherrans sem er örlítið frábrugðið mínu, af hverju gerir fulltrúi Viðreisnar í allsherjar- og menntamálanefnd ekki einfaldlega breytingartillögu við frumvarpið?“ spyr Jón.
„Ríkisstjórnin er með meirihluta í nefndinni og á þinginu. Hvers vegna er verið að sóa tíma þingsins í að ræða sama málið tvisvar og óska eftir umsögnum sömu umsagnaraðila tvisvar? Er það til þess eins að ráðherra geti eignað sér hugmyndir og vinnu annarra?“ spyr hann.
Jón veltir fyrir sér hvort þetta séu vinnubrögðin sem í vændum séu hjá ríkisstjórninni.
„Að taka frumvörp þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem eru í meðförum þingsins og leggja þau fram í eigin nafni. Finnst ráðherra það heiðarlegt eða faglegt?“ segir Jón.
Hann bendir og á að skv. sínu frumvarpi sé lögbundið lágmark starfsstöðva sýslumanns 25 talsins á níu landsvæðum, en því sé ekki að heilsa í frumvarpi dómsmálaráðherra. Þá fylgi aukinn kostnaður frumvarpi ráðherrans, verði það að lögum, þar sem gert sé ráð fyrir tveimur sex manna starfshópum með tilheyrandi kostnaði.