Fréttaskýring
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Stjórnvöld vestanhafs hafa með ummælum sínum og aðgerðum grafið nokkuð undan því mikla trausti sem í áratugi hefur ríkt á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ekki virðist lengur gefið að Bandaríkin komi Evrópu til hjálpar hernaðarlega, ákveði Moskvuvaldið að breyta landamærum álfunnar með ofbeldi, líkt og það þegar hefur gert í Úkraínu. Varnarmál eru því ofarlega á dagskrá og hafa sum Evrópuríki þegar tilkynnt stóraukin útgjöld til málaflokksins og uppbyggingu heraflans, þ. á m. Þýskaland og Pólland. Svipaða sögu er að segja af Bretlandi, þar er vilji til að gefa í og er ekki vanþörf á. Ólíkt flestum ríkjum Evrópu standa Bretar einnig frammi fyrir spurningum er snúa að kjarnorkuvopnabúri landsins. Sprengjurnar eru lykilatriði í vörnum landsins, en Bretland er háð Bandaríkjunum á því sviði. Það sem Bretar spyrja sig nú er: Hvernig verða vopnin tryggð, súrni samband ríkjanna enn frekar?
Ólíkt flestum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) býr Bretland yfir kjarnorkuvopnum og þarf því ekki á kjarnorkuregnhlíf Bandaríkjanna að halda þegar kemur að fælingarmætti og vörnum. Kjarnaflaugarnar eru bandarískar og af gerðinni Trident. Þær eru sérstaklega hannaðar með það í huga að vera skotið á loft frá kafbátum, svokallaðar SLBM-eldflaugar.
Bandaríkin eru lykillinn
Bretar hanna bæði og smíða eigin kjarnaodda og er það gert á rannsóknarstofu AWE í Aldermaston. AWE er þó ekki alfarið undir breskri stjórn, bandaríski vopnaframleiðandinn Lockheed Martin er þar einnig innanhúss. Sjálfir oddarnir fá ýmsa íhluti beint frá Bandaríkjunum, s.s. gas, umgjörð og hugbúnað.
En þótt Bretar eigi sjálfa kjarnaoddana þá eru Trident-eldflaugarnar sem bera oddana alfarið komnar frá Bandaríkjunum, fara þangað reglulega í þjónustu og það sem verra er – eru leigðar af Bandaríkjunum. Með öðrum orðum: Bretland á ekki eldflaugar sem borið geta eigin kjarnaodda og af þessu hafa margir sérfræðingar í varnarmálum áhyggjur, nú þegar upp er kominn efi um varnarsamstarf Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu.
Fjórir kafbátar á vöktum
Trident-kjarnaflaugar Bretlands eru alla jafna geymdar um borð í fjórum kjarnorkukafbátum af Vanguard-gerð. Bátar þessir ganga vaktir og er alltaf einn á sjó, vopnaður kjarnavopnum og reiðubúinn til að framkvæma hið óhugsandi.
Stórfelldur niðurskurður undanfarna áratugi til varnarmála hefur þó gert sjóhernum mjög erfitt fyrir að halda úti þessum eina kafbáti allan sólarhringinn, árið um kring. Vanguard-bátarnir eru gamlir, sá elsti tekinn í notkun árið 1993 en yngsti árið 1999. Þeir kalla því á mikið viðhald og reglulegar tækniuppfærslur, en upphaflega stóð til að sjóherinn myndi skipta þeim út eftir 25 ára þjónustu. Þeir eru þó enn að og óvíst hvenær ný tegund leysir Vanguard af hólmi. Var einn þessara báta t.a.m. í yfirhalningu í sjö ár samfleytt. Á þeim tíma sáu þrír bátar því um að halda til skiptis úti fælingarmætti Bretlands. Fyrirséð er að viðhaldsstopp þessara báta muni lengjast með frekari þjónustu.
Hvað Bretland getur gert til að tryggja öryggi eigin kjarnavopna er óljóst og hafa hugveitur velt upp þeirri spurningu. Hugsanlegt er að Evrópa þétti eigin raðir, í takt við orðræðu sumra stjórnmálamanna þar, og þá gætu þeir farið í samstarf við kjarnorkuríkið Frakkland.
Fælingarmáttur
Treysta á fjóra öldunga
Bretland á fjóra kjarnorkukafbáta af gerðinni Vanguard sem hýsa kjarnavopn landsins. Bátarnir voru hannaðir sérstaklega sem skotpallar fyrir Trident-kjarnorkuflaugar Bandaríkjamanna sem hannaðar eru og framleiddar hjá Lockheed Martin. Bátunum átti að skipta út eftir 25 ára þjónustu, en sá elsti er þegar orðinn 32 ára og óljóst hvenær honum verður lagt. Ný tegund báta er í hönnun og mun hún að óbreyttu einungis geta notað bandarískar kjarnorkueldflaugar, líkt og fyrri gerð. Hugsanlega munu Bretar breyta hönnun, í ljósi óvissunnar.