Sviðsljós
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Nokkrir af helstu ráðgjöfum og ráðherrum Trumps Bandaríkjaforseta deildu mikilvægum upplýsingum um loftárásir Bandaríkjamanna á Húta í Jemen í spjallhóp í snjallsímaforritinu Signal, án þess að gæta að því að blaðamanni hefði verið boðið í hópinn.
Jeffrey Goldberg, ritstjóri mánaðarritsins The Atlantic, greindi frá þessu í fyrrakvöld, en hann var sá sem embættismennirnir höfðu óvart með sér í spjallhópinn, sem bar heitið „Houthi PC Small Group“, en um var að ræða stýrihóp æðstu embættismanna í varnarmálum Bandaríkjanna. Svo virðist sem Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi hafi verið sá sem bauð Goldberg í hópinn, en fáheyrt er að slíkur hópur ræði saman yfir spjallforrit.
Þar voru einnig Pete Hegseth varnarmálaráðherra og JD Vance varaforseti, og ræddu þeir þar ýmis atriði sem tengdust yfirvofandi loftárásum á Jemen í þaula. Í grein Goldbergs kemur fram að Hegseth hafi m.a. sent frá sér nákvæmar upplýsingar um skotmörk, vopn og röð árása um tveimur tímum áður en árásin hófst hinn 15. mars sl., og svo virtist sem um væri að ræða hernaðaráætlun Bandaríkjanna í Jemen.
Fékk Goldberg staðfestingu á því að upplýsingarnar væru réttar þegar loftárásir Bandaríkjanna hófust á þeim tíma sem Hegseth tilgreindi. Var um að ræða upplýsingar sem hefðu getað skemmt fyrir árásum Bandaríkjahers eða jafnvel teflt lífi flugmanna í hættu, hefðu þær komist í óvinahendur. Brian Hughes, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, sagði í gær að svo virtist sem spjallþráðurinn væri ekta, og að hafin væri rannsókn á því hvers vegna Goldberg hefði verið bætt í spjallhópinn af misgáningi.
Vildu umbun frá Evrópu
Eitt af því sem embættismennirnir ræddu í aðdraganda árásanna var hvort rétt væri að hefjast handa þá, eða hvort betra væri að bíða með árásirnar í mánuð. Vance varaforseti virtist vera á meðal þeirra sem vildu bíða með árásirnar, þar sem hann taldi ekki víst að bandarískur almenningur myndi skilja hvers vegna þeirra væri þörf.
Árásir Húta á skipaflutninga um Rauðahaf hafa haft mjög neikvæð áhrif, en um 12% af öllum skipaflutningum heims treysta á Súez-skurðinn og Rauðahafið. Vance benti hins vegar á að einungis 3% af viðskiptum Bandaríkjamanna færu um Rauðahafið, en 40% af viðskiptum Evrópu. Sagði Vance að helsta ástæðan til þess að hefja árásirnar væri, líkt og Trump hefði sagt, að senda Hútum skilaboð.
Lagði Vance því til að fresta þeim um mánuð á meðan möguleg áhrif loftárásanna yrðu metin, og kynningarvinna hafin meðal almennings á hvers vegna þeirra væri mögulega þörf. Hegseth varnarmálaráðherra mælti hins vegar með því að hefja þær núna, og lagði áherslu á að árásirnar snerust ekki um Húta, heldur um siglingafrelsi og að tryggja fælingarmátt Bandaríkjanna á nýjan leik.
Waltz þjóðaröryggisráðgjafi lagði þá til málanna að einungis Bandaríkjamenn gætu opnað skipaleiðina um Rauðahaf á nýjan leik og bætti við að samkvæmt ósk forsetans væri verið að skoða hvernig reikna mætti kostnaðinn við aðgerðirnar út og endurheimta hann frá ríkjum Evrópu.
Vance svaraði þá og sagði við Hegseth: „Ef þú telur að við eigum að gera þetta, þá skulum við gera það. Ég bara hata að leysa Evrópu úr vanda á nýjan leik.“ Hegseth svaraði þá að hann deildi fyrirlitningu Vance á „sníkjum“ (e. free-loading) Evrópu og sagði það vera „aumkunarvert“. Hins vegar væri það rétt hjá Waltz að einungis Bandaríkin hefðu bolmagn af vesturveldunum til þess að hefja þessar aðgerðir.
Einn ráðgjafinn, sem einungis var merktur undir stöfunum SM, sagði þá að sér hefði heyrst að forsetinn hefði verið skýr í máli, hann hefði gefið „græna ljósið“ á árásirnar. „En við gerum fljótlega Egyptalandi og Evrópu ljóst hvað við viljum fá í staðinn.“
Sagði SM, sem Goldberg taldi að væri Stephen Miller, einn helsti ráðgjafi Trumps, jafnframt að huga þyrfti að því hvernig ætti að tryggja að Bandaríkin fengju endurgjald. „E.g. ef Evrópa launar ekki til baka, hvað þá? Ef Bandaríkin endurreisa siglingafrelsi með miklum tilkostnaði þá þarf einhver hagrænn ágóði að vera tekinn (e. extracted) í staðinn.“
Demókratar vilja rannsókn
Málið hefur vakið miklar umræður í Washington, þar sem spurningar hafa vaknað um hvort embættismennirnir hafi gengið á svig við lög um meðferð leyniupplýsinga. Vakti Goldberg á því athygli í grein sinni, að ekki væri óalgengt að embættismenn notuðu Signal-forritið, en það væri þá frekar til þess að skipuleggja fundi en að ræða aðgerðir í þaula, líkt og þarna var gert. Þá vakti Goldberg einnig athygli á því að Waltz stillti umræðu hópsins þannig að samtal embættismannanna myndi eyðast sjálfkrafa eftir eina viku, en slíkt gæti verið brot á lögum um varðveislu opinberra gagna.
Helstu leiðtogar demókrata á Bandaríkjaþingi hafa fordæmt framferði embættismannanna og jafnvel sakað þá um lögbrot. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sagði í ræðustól þingsins að um væri að ræða einhver mestu brot á hernaðarleynd sem hann hefði nokkurn tímann heyrt af, og skoraði á repúblikana að hefja þegar rannsókn til þess að leiða í ljós alla málavöxtu.
Repúblikaninn Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði hins vegar að um hefði verið að ræða heiðarleg mistök sem yrðu ekki endurtekin. Þá sögðu bæði Hegseth og talsmenn Hvíta hússins að engin hernaðarleyndarmál hefðu verið rædd í hópnum, en Goldberg hefur hafnað þeim fullyrðingum.
Hvíta húsið sagði einnig að Trump bæri enn fullkomið traust til sinna helstu ráðgjafa í þjóðaröryggismálum. Bandarískir fjölmiðlar veltu því upp í gær hvort Mike Waltz, sá sem bætti Goldberg í spjallhópinn, yrði látinn víkja vegna mistakanna, en Trump sagði í gær að einungis hefði verið um að ræða smávegis mistök sem skiptu ekki máli.
Fregnirnar af spjallhópnum vöktu einnig nokkur viðbrögð í Evrópu, sér í lagi í Bretlandi, en breski herinn lagði Bandaríkjamönnum til umtalsverða aðstoð í loftárásunum, og sá þar meðal annars um að fylla á eldsneyti þeirra herþotna sem notaðar voru í árásinni á meðan þær voru í lofti.
Talsmaður breska forsætisráðuneytisins neitaði í gær að tjá sig um þær fullyrðingar í spjallþræðinum að ríki Evrópu væru að sníkja hervernd af Bandaríkjunum, en benti þess í stað á hið mikla framlag Breta og samstarf þeirra með Bandaríkjunum í Mið-Austurlöndum. Þá sagði talsmaðurinn að Bretar myndu áfram treysta sér til þess að deila mikilvægum leyniupplýsingum með Bandaríkjastjórn.