Þóra Margrét Magnúsdóttir fæddist á Lýtingsstöðum í Holtum, Rangárvallasýslu 12. apríl 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 11. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Magnús Ingberg Gíslason, f. 3. ágúst 1909, d. 12. júní 1972, og Katrín Sigríður Jónsdóttir, f. 17. október 1913, d. 16. ágúst 1998.

Systkini Þóru eru: Jón, f. 1943, d. 2015, Guðrún, f. 1945, d. 2024, Gísli, f. 1948, Árni, f. 1951, Daníel, f. 1953, Sigrún, f. 1955, og Bjarni, f. 1956.

Þóra Margrét giftist þann 19. júlí 1964 Jóni Ingileifssyni, f. 8. nóvember 1937, bónda og verktaka á Svínavatni í Grímsnesi.

Börn þeirra eru: 1) Ingileifur, f. 1964, maki Guðrún Þórðard., synir þeirra eru: Jón Örn og Þórður Ingi. 2) Gísli Gunnar, f. 1965, maki Anna A. Arnard., dóttir þeirra er Hulda Vaka. Fyrir átti Gísli dæturnar Þóru Birnu og Dagnýju með Vigdísi Helgad. Synir Önnu eru Arnar Þór og Atli Grétar. 3) Ólafur, f. 1966, maki Kamonson Ruttanamoon, Nuy. Fyrir átti Ólafur börnin Öglu Ósk og Sólberg með Bryndísi Ólafsd. 4) Helgi, f. 1967, maki Guðrún Þórhallsd., börn þeirra eru: Þorgerður, Sigríður, Sesselja og Skúli. 5) Magnús Ingberg, f. 1970, maki Silja Dröfn Sæmundsd., börn þeirra eru: Sindri Mjölnir, Ingberg Örn, Guðrún Steina, Sóley Nanna og Jökull Máni. 6) Sigurður Karl, f. 1971, dætur hans og fyrrverandi maka, Birnu G. Jónsd., eru: Ólafía, Sigurleif, Helga og Ása Guðrún. Fyrir átti Birna dótturina Emblu Ósk. 7) Ingibjörg, f. 1972, maki Pálmar Æ. Pálmarss., börn þeirra eru Jóhann Fannar og Freydís Ösp. Pálmar á soninn Viktor Daða. 8) Katrín, f. 1975, dætur hennar og fyrrverandi maka, Ágústs K. Ágústss., eru: Elfa Sól og Gabríela Rós. 9) Jón Þór, f. 1978, maki Sunna Strandsten. Jón Þór á soninn Ágúst Helga með Sæunni K. Breiðfjörð. Barnabarnabörnin eru 16 talsins.

Þóra Margrét ólst upp á Lýtingsstöðum í Holtum til 11 ára aldurs, þá fluttist fjölskyldan að Akbraut í sömu sveit. Hún ólst upp við almenn sveitastörf ásamt foreldrum og systkinum. Þóra fer 16 ára til Reykjavíkur til að vinna. Hún vann m.a. í mjólkurbúð og síðar á Sólvangi, þá bjó hún hjá Gyðu Eyjólfsdóttur vinkonu sinni. Eftir dvölina í Reykjavík lá leið hennar til Grindavíkur til að vinna í fiski. Hún fer í Húsmæðraskólann á Laugarvatni 1961. Eftir að hún lýkur námi þar fer hún að vinna í eldhúsinu í Héraðsskólanum og á þeim tíma kynnist hún eiginmanni sínum Jóni og flytur að Svínavatni 1963. Þar bjó hún ásamt fjölskyldu sinni til ársins 2019 er þau flytja á Selfoss.

Samhliða barnauppeldi og bústörfum tók hún virkan þátt í starfi Kvenfélags Grímsneshrepps, og í kórstarfi á vegum kirkjunnar. Árið 2019 var Þóra gerð að heiðursfélaga kvenfélagsins en hún hannaði merki félagsins, sem er einstaklega fallegt og táknrænt fyrir störf kvenfélaganna. Einkunnarorð merkisins eru trú, líf, friður og kærleikur. Hún hannaði einnig merki Lionsklúbbsins Skjaldbreiðar og Kvenfélagsins Einingar í Holtum.

Útför Þóru Margrétar fer fram frá Skálholtsdómkirkju í dag, 26. mars 2025, klukkan 16.30.

Þóra Margrét Magnúsdóttir var móðir og tengdamóðir okkar, amma barnanna okkar. Það var tilhlökkun að fara í sveitina til ömmu og afa, iðulega voru þar ömmupönnukökur á borðum, margt um manninn og mikið fjör. Heimilið á Svínavatni var mannmargt og alltaf líf og fjör. Þóra dró alla inn í kaffi sem áttu leið um hlaðið á Svínavatni hvort sem það voru íslendingar eða erlendir ferðamenn, hún talaði einungis íslensku en tókst þó yfirleitt að gera sig skiljanlega með látbragði og með því að tala íslenskuna hærra og hægar.

Þóra var frumkvöðull og lét gera upp gamla bæinn á Svínavatni sem byggður var 1928. Um árabil rak hún kaffisölu þar yfir sumarið snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Oft var mikið fjör í eldhúsinu á Svínavatni, sérstakalega í kringum réttir þegar margir afkomendur komu og tóku þátt í réttum og svo var farið heim að Svínavatni í réttarsúpu sem Þóra var búin að undurbúa.

Amma Þóra átti alltaf ís handa börnunum sem þurftu ekki annað en að horfa á ömmu sína til að fá ís. Þóra var mikið náttúrubarn og listræn, hún gaf öllum kort sem hún hafði teiknað við hin ýmsu tækifæri, hún hafði gaman af því að myndskreyta boli og annað, eins og t.d. að sauma barnasængurverasett og myndskreyta þau með blómum. Eitt árið fengu öll barnabörnin kodda með heimasaumuðu og myndskreyttu koddaveri í jólagjöf frá ömmu og afa á Svínavatni.

Þóra var félagslynd, var í kór, kvenfélagi og vildi alltaf hafa fullt af fólki í kringum sig. Hún var dugleg í að kalla alla saman og búa til samverustundir á Svínavatni og stuðla að því að börn, barnabörn og barnabarnabörn þekktu hvert annað og alla stórfjölskylduna. Í dag kveðjum við merka konu sem var okkur öllum kær.

Magnús og Silja.

Án efa fáir, það er mín trú,

sér áttu göfugra hjarta en þú,

að vakti mér löngum lotning;

í örbyrgð mestu þú auðugust varst

og alls skyn skapraun og þrautir
barst

sem værir dýrasta drottning.

(Matth. Joch.)

Elskuleg tengdamóðir mín hefur nú kvatt þessa jarðvist. Margs er að minnast á löngum ferli okkar saman. Það var árið 1983 á vordögum sem ég kom fyrst á Svínavatn. Ég fékk góðar móttökur og frúin hafði bakað pönnukökur eins og henni einni var lagið. Það voru viðbrigði fyrir tvítuga stúlku af fámennu heimili að koma og dvelja á umferðarmiðstöðinni sem Svínavatn var. Það var ekki bara að börnin væru mörg heldur voru þar vinnumenn, gestir og gangandi. Það var alltaf fjölmennt hvort heldur var í mat eða kaffi. Þóra naut þess að hafa margt fólk í kringum sig enda alin upp í stórum hópi systkina. Ég gleymi aldrei þegar ég fór í fyrsta skipti í innkaupaferð með henni í Höfn á Selfossi. Það var ekki keypt inn í einn eða tvo plastpoka eins og ég var vön, nei það voru nokkrir kassar sem bornir voru í bílinn. Þóru fannst þetta ekkert enda voru farnar svona ferðir einu sinni í viku.

Á Svínavatni var alltaf mannmargt og hafði hún nóg að gera við heimilishaldið, elda mat, þvo þvotta, baka og fleira. Dagarnir voru oft langir og það hlýtur að hafa tekið á en Þóra kvartaði aldrei. Strákarnir fengu stundum orð í eyra ef þeir voru ekki til friðs eða höfðu gert eitthvað sem henni líkaði ekki. Þóra var mjög félagslynd og hafði gaman af því að fara á mannamót. Söngelsk var hún og söng í kirkjukór sveitarinnar. Þóra starfaði í Kvenfélagi Grímsneshrepps, hún var ein af okkar bestu pönnukökukonum og við störfuðum saman í þeim félagsskap í yfir 30 ár. Það var alltaf gaman og gefandi að vera með Þóru.

Hún hafði yndi af því að fara á námskeið og skapa eitthvað fallegt því hún var afar listræn og hafði næmt auga fyrir fegurð og listfengi. Þóra hafði ekki tækifæri til að mennta sig í listum og lagði það á hilluna þegar hún var ung að árum. Myndlistaráhuginn kviknaði á ný þegar hún var beðin að teikna merki fyrir nýstofnaðan Lionsklúbb, Skjaldbreið, þetta var árið 1982. Ári síðar var haldin hugmyndasamkeppni um félagsfána fyrir Kvenfélag Grímsneshrepps og hugmynd hennar var valin. Merkið okkar er einstaklega fallegt og hugurinn bak við myndina er líka mjög göfugur. Ég ber þetta merki stolt og margir hafa komið að máli við mig um hvað það sé einstaklega fallegt. Síðar teiknaði hún merki fyrir Kvenfélagið Einingu í Holtum. Þessi verk hennar sýna glöggt hvað hún hafði mikið listrænt innsæi.

Elsku Þóra, bestu þakkir fyrir samfylgdina, megi góður guð leiða þig í ljósið þar sem ég veit að þú átt góða heimkomu meðal ástvina.

Guðrún Þórðardóttir.

Elsku Þóra.

Skrítin þessi veröld og tilviljanir margar í henni. Ekki óraði mig fyrir því fyrir rúmum tuttugu árum að ég yrði tengdadóttir konu sem var herbergisfélagi mömmu minnar á heilsuhælinu í Hveragerði árið 1981, en þá voruð þið komnar þangað hvor úr sinni sveitinni og hvor af sínu landshorninu til að ná hvíld frá sveitaamstrinu í smá tíma og næra ykkur andlega og líkamlega. Í fyrstu heimsókn minni á Svínavatn þegar Gísli kynnti mig fyrir ykkur Jóni þá komumst við að þessu. Þannig að fyrstu kynni okkar byrjuðu einkar vel og gátum við spjallað saman yfir kaffibolla um þennan tíma ykkar mömmu í Hveragerði.

Næstu árin áttum við eftir að kynnast og árið 2008 fórum við í fyrsta ferðalagið saman þú, Jón, Gísli, ég og Hulda Vaka, þá rúmlega ársgömul. Í rúmlega viku fórum við hringinn í kringum landið og sýndi ég ykkur m.a. það helsta á mínum heimaslóðum austur á Héraði og þar um kring. Vorum við öll sammála um að þetta hefði verið vel heppnuð ferð og áttum við eftir að endurtaka ferðalög næstu sumur, fórum m.a. Vestfirðina, norður á Akureyri, Sauðárkrók, vestur í dali og í Borgarfjörð í tilefni afmælis Hvanneyrar, að ógleymdri ferðinni sem ég fór með ykkur Stefán vin minn til Vestmannaeyja og þú fékkst að sitja í skipstjórastólnum uppi í brú alla ferðina úr Þorlákshöfn og ég lá í sjóveiki í stýrimannaklefanum. Mikið sem þú varst þakklát og sæl eftir þessi ferðalög og þykir mér afskaplega vænt um að hafa getað gert þetta fyrir ykkur Jón. Gátum við síðar notið þess að skoða myndir og rifjað upp skemmtilega staði og atvik sem við sáum og urðum vitni að í þessum ferðalögum.

Eftir að heilsu þinni fór að hraka og þið svo fluttuð til Selfoss 2019, þá kom ég mikið til ykkar, bæði þegar ég var að koma úr Landeyjum eða fara í Landeyjar, þá var gott að koma við og fá kaffisopa og spjall. Þegar ég svo kom nánast daglega til Selfoss næstu tvo vetur þá kíkti ég iðulega við til að aðstoða ykkur við ýmislegt sem þurfti að sinna því þá var heilsa ekki orðin góð hjá þér og þótti mér sjálfsagt að aðstoða ef ég mögulega hafði tök á, hvort sem var að versla, þrífa eða skutlast með þig eða Jón.

Ég átti tvo drengi áður en ég kynntist Gísla og tókst þú þeim afar vel eins og öðrum bónusbörnum sem þú fékkst og spurðir oft frétta af þeim. Atla Grétari er minnisstætt hversu glöð þú varst þegar hann var farinn að stunda sjómennsku og hann kom með nýjan fisk handa þér og fékk að renna fyrir silung í Svínavatninu í staðinn.

Þú varst mjög flink í höndunum og eftir þig liggja alls
konar listaverk. Iðin varstu við að teikna m.a. blóm á boli, sængurver og fleira til gjafa og nutu barnabörnin þín góðs af því.

Stiklað hef ég á stóru um okkar kynni elsku Þóra og er ég þakklát fyrir að hafa kynnst þínum karakter og verið hluti af fjölskyldunni þinni síðustu tuttugu árin. Þú varst mikill og sterkur leiðtogi og lést hópinn þinn hlýða ef þurfti. Veit ég að þú varst orðin lífssödd síðustu vikurnar og fegin að komast í blómabrekkuna.

Guð geymi þig, hvíl í friði.

Þín tengdadóttir,

Anna Aðalheiður.

Okkar elsku besta amma Þóra.

Þú varst ekki bara amma okkar heldur áttu sérstakan sess í hjarta okkar og varst stór partur af barnæsku okkar og uppvexti. Þú gafst okkur ávallt hlýju og öryggi. Við erum ævinlega þakklátar fyrir að þú varst amma okkar. Þótt við höfum ekki náð að hittast mikið undir það síðasta eigum við margar góðar minningar með þér og þú sagðir okkur margar skemmtilegar sögur. Þú kenndir okkur margt í lífinu og við mátum þig mikils. Þú gafst okkur mikla ást og umhyggju. Þótt þú sért ekki hjá okkur lengur munu minningarnar ávallt vera með okkur og geymdar í hjörtum okkar.

Við elskum þig amma og við sjáumst aftur, þín verður ávallt saknað.

Frá þínum sætu,

Elfu og Gabríelu (Gabi).

Elsku amma mín.

Ég minnist þín mest þegar ég kom í sveitina með mömmu og pabba sem lítil stelpa. Ég elskaði að teikna inni í stofu hjá ykkur afa, það var gaman að sýna þér myndirnar því þú varst mjög listræn. Hlý minning mín er líka frá rabarbaragarðinum þínum, þar fór ég alltaf með frændsystkinum mínum að tína risastóra rabarbara sem við komum með inn til þín og fengum sykur í glas og borðum þá með bestu lyst. Eins var gaman að koma með kanínuna mína hana Snúllu í heimsókn til þín því þér fannst mjög gaman að halda á henni og leyfa henni að kúra í fanginu á þér. Ég veit þér líður vel núna, elsku amma, og þú mátt skila kveðju til Snúllu, Jóa afa og til Arnar afa í Húsey þegar þú hittir þau í sumarlandinu.

Þín ömmustelpa,

Hulda Vaka.

Í nokkrum orðum langar mig að minnast Þóru á Svínavatni.

Þóru kynntist ég þegar Silja dóttir mín og Maggi sonur hennar fóru að draga sig saman. Seinna eignuðumst við Þóra saman, ef svo má að orði komast, fimm barnabörn.

Þóra eignaðist og ól upp níu börn og hefur það áreiðanlega ekki verið létt verk en trúlega hefur hún verið vön að taka til hendinni þar sem hún var elst í átta systkina hópi. Þóra hafði til að bera sterkan persónuleika. Hún var ræðin og fróð um ýmsa hluti. Hún var líka glaðsinna og félagslynd. Gaman að koma til hennar í kaffisopa og spjall og gestum var ávallt vel tekið. Mér er líka minnisstætt hve sjarmerandi var að koma til hennar í gamla bæinn á Svínavatni þar sem hún bauð upp á kaffi og pönnukökur.

Þóra kom mér fyrir sjónir sem mikið náttúrubarn, hún fylgdist vel með gróðri og náttúru og hafði áhuga á mörgu því sem varðar land og þjóð. Þóra var afar listræn og drátthög. Hún t.d. teiknaði og málaði blómamyndir á boli handa barnabörnunum. Afmæliskort frá henni til þeirra voru gjarnan myndskreytt. Hún söng í kór og hafði yndi af listsköpun. Hún hannaði og teiknaði einkennismerki ýmissa félagasamtaka. Þessir hæfileikar Þóru hefðu efalaust notið sín betur á öðrum tíma og við aðrar aðstæður. Mörg barnabarna hennar hafa greinilega erft þessa hæfileika hennar.

Það er eftirsjá að Þóru Margréti Magnúsdóttur og hennar minnist ég með hlýhug. Aðstandendum hennar votta ég mína dýpstu samúð.

Nanna Þorláksdóttir.