Börn Fjallað verður um barnvæna réttarvörslu á fundi í dag.
Börn Fjallað verður um barnvæna réttarvörslu á fundi í dag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ný skýrsla umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu verður kynnt á fundi í fundarsal Þjóðminjasafnsins í dag, miðvikudag, klukkan 12.00. Salvör Nordal umboðsmaður barna setur fundinn, en einnig mun Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra ávarpa samkomuna

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ný skýrsla umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu verður kynnt á fundi í fundarsal Þjóðminjasafnsins í dag, miðvikudag, klukkan 12.00. Salvör Nordal umboðsmaður barna setur fundinn, en einnig mun Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra ávarpa samkomuna.

Hafdís Una Guðnýjardóttir, lögfræðingur hjá embætti umboðsmanns, kynnir skýrsluna, en frá 2024 hefur verið unnið að úttekt og greiningu á íslensku réttarkerfi út frá hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu.

Í tilkynningu kemur m.a. fram að markmið verkefnisins sé að greina og varpa ljósi á stöðu slíkra mála hér á landi og setja fram tillögur að úrbótum sem nauðsynlegar séu til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins.

Gerði embætti umboðsmanns í því skyni könnun til að leggja mat á hversu vel réttarkerfið og stjórnsýslan samræmdist réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum og þeim kröfum sem gerðar eru til barnvænnar réttarvörslu í alþjóðlegum skuldbindingum. Mun Hafdís Una einnig kynna niðurstöður könnunarinnar.

Að því loknu munu fara fram pallborðsumræður, en Sigurveig Þórhallsdóttir lögfræðingur hjá embættinu stýrir umræðunum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson