Undra fljótt hefur kvarnast úr ríkisstjórninni

Ríkisstjórnin hefur lent í nokkrum mótvindi síðustu vikurnar, en það sem er hættumest er að hún hefur ekki séð hvaða kosti hún eigi til að lenda málinu þannig að upplitið sé sæmilegt.

Forsætisráðherrann segir gjarnan að þótt útlitið hafi ekki verið gott, þá sé óþarft að óttast um framhaldið, því að stjórnarsáttmálinn sé byggður af einkar traustum stofnum, þótt ekki liggi rækilega fyrir hvað í þeirri fullyrðingu felist. Þeir, sem hafa lesið sáttmálann þann út í æsar, þykjast sjá að lítið hald gæti reynst í honum, enda hafi trúnaðarbrestur þar glögglega sést, þannig að kjósendur og aðrir hugsanlegir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þykist óneitanlega hafa séð merki þess að nefndur styrkleiki stjórnarinnar sé mun minni en fullyrt hafi verið í öndverðu og líklegt sé að „haldið“ sem vísað er til sé mun minna en ríkisstjórnin sú byggir á.

Enda hvernig sem menn láta og berja sér á brjóst, þá fer það ekki framhjá neinum sem þekkja sæmilega til, að stjórnarliðarnir séu nú margir orðnir óvissir um að rétt hafi verið að sauma þessa ríkisstjórn saman fyrir fáeinum mánuðum með svo dapurt veganesti. Tveir af þremur stjórnarflokkum undir forystu Kristrúnar forsætisráðherra og Þorgerðar utanríkisráðherra skjóta iðulega augum í átt til þriðja stjórnarflokksins og velta fyrir sér hvort óhætt hafi verið að leggja á djúpið og byggja á slíkum flokki, þótt flokkurinn sá hafi í raun og veru ekki sjálfur lagt mat á það atriði í gleði sinni yfir að fá loks að setjast í ráðherrastól. Enda hafi veruleikinn sá þegar sýnt og sannað að setan í ráðherrastólnum sé stundum æði hál.

Fyrrnefndir tveir stjórnarflokkar byggðu á því að styðjast mætti við Flokk fólksins eftir að öll helstu kosningaloforð hans hefðu verið strokin af honum og hent í ruslið.

En í fyrstunni voru félagar í Flokki fólksins vissulega yfir sig stoltir af því að hluti af hópnum þeirra fékk að sækja völd og virðingu til Bessastaða og svo í framhaldinu að setjast puntaður upp í ráðherradrossíuna sína og þaðan var ekið með hvern og einn með viðhöfn í átt til hurðar ráðuneytis síns, þar sem allir á staðnum bugtuðu sig í einni röð og beygðu, er „ráðherrann“ kom loks í hús.