Kristinn Sv. Helgason
Í nýlegri grein í tímaritinu Foreign Affairs bendir yfirmaður Fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UN International Organization for Migration) á að alþjóðlega hælisleitendakerfið sé hrunið. Fólk í atvinnuleit í þróunarríkjum noti þetta kerfi til að komast inn á vinnumarkað í iðnríkjunum þar sem aðrar leiðir eru ekki í boði. Alþjóðlegar reglur um sjálfkrafa rétt hælisleitenda til dvalar- og atvinnuleyfis, húsnæðis, menntunar, heilsugæslu og annara hlunninda hafa skapað hvata fyrir hraðan vöxt slíkra fólksflutninga. Nú virðist hins vegar sem þolmörkum sé náð hjá mörgum Evrópuríkjum.
Á síðasta ári þegar straumur hælisleitenda var mikill ákváðu stjórnvöld í ýmsum Evrópuríkjum að loka landamærum sínum tímabundið þrátt fyrir að það stangaðist á við alþjóðlegar skuldbindingar þeirra. Pólland og Finnland samþykktu líka á síðasta ári lög sem heimiluðu landamæravörðum að neita hælisleitendum um landvist. Ríkisstjórn Suður-Afríku hefur einnig hugleitt að segja sig úr flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna til að ná betri tökum á þessum málaflokki.
Í greininni í Foreign Affairs bendir yfirmaður ofangreindrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna á að rannsóknir sýni að nánast allir þeir sem sæki um hæli séu að flýja fátækt, og smygl á fólki blómstri í þessum fólksflutningum. Ein skrifstofa Sameinuðu þjóðanna (e. UN Office for Drugs and Crime) áætlar að þremur milljónum manna sé árlega smyglað í þessum tilgangi og erlendir glæpahringir fái tugi milljarða bandaríkjadala fyrir að reka slíka starfsemi. Í mörgum tilvikum séu viðkomandi einstaklingar sendir af fjölskyldum sínum eða nærsamfélagi til að afla tekna sem síðan séu sendar til baka að töluverðu leyti.
Það er athyglisvert að stjórnvöld hér á landi hafi ekki gripið til sambærilegra skyndilokana á landamærunum með tilliti til sérstöðu okkar sem örþjóðar á hjara veraldar, sérstaklega á árunum 2022 og 2023, þegar vöxtur umsókna um alþjóðlega vernd var hlutfallslega langtum meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Á árunum 2022 og 2023 voru umsóknir um hælisvist hér á landi um 8.700 samtals. Á árinu 2024 bættust við um 2.000 umsóknir, þannig að heildarfjöldinn var orðinn 10.700 á þremur árum. Á árunum 2022 og 2023 samsvaraði fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd um 1,5 og 1,4 prósent af íbúum fæddum á Íslandi, þ.m.t. innflytjendum af annarri kynslóð (um 300.000 manns bæði árin). Þessar prósentutölur samsvara því að um ein milljón manna hefði sótt um hælisvist í Þýskalandi hvort árið. Ef það hefði raungerst er hugsanlegt að AfD-flokkurinn hefði unnið enn stærri sigur í nýliðnum kosningum í Þýskalandi.
Þegar lögin um útlendinga frá 2016 eru skoðuð vakna spurningar um af hverju forystumenn okkar settu ekki öflugri fyrirvara um innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga á þessu sviði, sérstaklega í ljósi sérstöðu okkar sem örþjóðar og í staðinn boðist til að auka aðstoð við flóttamenn á nærsvæðum átaka. Ein skýring kann að vera sú að lögin voru samin með þátttöku fólks úr öllum þingflokkum, sem hefur greinilega leitt til mikilla málamiðlana. Hinn mikli fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur haft í för með sér háan beinan og óbeinan kostnað fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.
Á sama tíma og fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd jókst hratt mótuðu stjórnvöld efnahagsstefnu sem lagði áherslu á uppbyggingu mannaflafrekra atvinnugreina sem bjóða upp á lág laun og lága framleiðni. Rekstrararðsemi er oft lítil og í slík störf hafa einkum sótt einstaklingar fæddir erlendis. Lengst af voru flestir þeirra sem fengu atvinnuleyfi hér á landi frá Evrópulöndum en í tíð síðustu ríkisstjórnar var markvisst unnið að því að útvíkka þennan hóp til annarra svæða.
Afleiðing núverandi reglna um alþjóðlega vernd og útgáfu atvinnuleyfa er að í árslok 2024 var heildarmannfjöldinn hér á landi orðinn um 390.000 og íbúar fæddir erlendis, auk þeirra sem tilheyra annarri kynslóð innflytjenda, tæplega 80.000, eða um 26 prósent af Íslendingum. Þetta hlutfall var 5,6 prósent árið 2000. Ef þessi tala er framreiknuð miðað við árlegan meðalvöxt síðustu tvo áratugi gæti þessi hópur talið 200.000 einstaklinga eftir einungis einn áratug.
Það má segja að þjóðin sé á tímamótum og mikilvægt að stjórnvöld taki af skarið og móti heildstæða stefnu sem miði að því að varðveita það góða samfélag sem hér hefur þróast og hefur verið okkar framlag til fjölmenningar heimsins. Slík stefnumótun þarf að samtvinna markmið eins og eftirfarandi: (a) markvissa uppbyggingu atvinnugreina þar sem laun, framleiðni og arðsemi er há, (b) langtíma áætlun í innflytjendamálum, (c) umbætur í ríkisrekstri og fækkun opinberra starfsmanna, og (d) að búa til fjárhagslega hvata til að auka atvinnuþátttöku örorkuþega, sérstaklega þeirra yngri, eldri borgara og ungs fólks sem og að hækka fæðingartíðni Íslendinga.
Höfundur hefur doktorsgráðu auk meistaragráðu í bæði opinberri stjórnsýslu og rekstrarhagfræði. Hann hefur starfað erlendis í fimm þjóðlöndum á síðustu áratugum.