Viðgerðir Brúarvinnumenn undir gólfinu, þar sem steypa þarf og styrkja. Næst verður brúin svo tjökkuð upp.
Viðgerðir Brúarvinnumenn undir gólfinu, þar sem steypa þarf og styrkja. Næst verður brúin svo tjökkuð upp. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinna stendur nú yfir við að endurbæta legur og styrkja steypu í undirstöðum Ölfusárbrúar á Selfossi. Þetta er meðal annars ástæða þess að sett hafa verið upp skilti sitt við hvorn enda brúarinnar með tilmælum um að aðeins einn stór flutningabíll sé á brúnni í einu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vinna stendur nú yfir við að endurbæta legur og styrkja steypu í undirstöðum Ölfusárbrúar á Selfossi. Þetta er meðal annars ástæða þess að sett hafa verið upp skilti sitt við hvorn enda brúarinnar með tilmælum um að aðeins einn stór flutningabíll sé á brúnni í einu. „Þetta hefur í rauninni gerst af sjálfu sér á síðustu misserum. Ökumenn á stóru bílunum eru oftast farnir að doka við þegar þeir sjá aðra stóra koma á móti,“ segir Svanur Bjarnason svæðisstjóri hjá Vegagerðinni í samtali við Morgunblaðið.

Í góðu ásigkomulagi

Þau tilmæli sem nú eru komin munu gilda áfram þótt yfirstandandi viðgerðum á Ölfusárbrúnni ljúki. Þar kemur til að brúin er orðin 80 ára gömul og slíkt segir til sín, enda þótt mannvirkið sé í góðu ásigkomulagi. Framkvæmdir við nýja brú nokkru ofan við Selfoss, það er við Laugardæli, eru nú hafnar og verður sú tekin í notkun eftir um það bil þrjú ár. Miðað er við að umferð þyngri bíla yfir gömlu brúna leggist þá af.

Þess má og geta að fyrsta brúin yfir Ölfusá var reist árið 1891. Sú varð þegar fram liðu stundir mjög lúin og loks var sú regla sett að aðeins einn bíll mætti vera á brúnni hverju sinni. Svo gerðist það í september eitt árið að tveir bílar voru á brúnni eitt sinn, vörubíll með annan í eftirdragi, og þá fór brúin niður. Bílarnir fóru báðir í ána en mannbjörg varð. Ári síðar var reist sú brú sem hér er til umfjöllunar, sú er farin að slitna enda þótt talsmenn Vegagerðarinnar leggi áherslu á að engin hætta sé á ferðum.

Lagni og verkþekking

„Þetta er heilmikið umstang,“ segir Sigurjón Karlsson, verkstjóri brúarvinnuflokks Vegagerðarinnar, sem nú er að störfum við Ölfusárbrú. Á suðurbakka árinnar hefur nú verið komið fyrir lyftu með körfu og með henni koma verkamenn sér á vinnupall undir brúargólfinu. Þar undir streymir Ölfusá fram; vatnsmesta fljót landsins.

Á pallinum hefur steypa í stöpli verið endurbætt. Þarna á jafnframt að tjakka undir brúna og setja stoðir undir burðarbita vegna endurnýjunar á burðarstykkjum og legum, en slíkar jafna álag vegna umferðar og hugsanlega jarðskjálfta.

„Allt snýst þetta um lagni og verkþekkingu. Fyrir mannskapinn sem ég er með er þetta hins vegar ekkert mál; stráka sem eru tilbúnir að vinna tólf tíma á dag. Þessu miðar vel áfram,“ segir verkstjórinn.

„Umferð stórra vöruflutningabíla yfir Ölfusá er mikil. Því er hætta á að eitthvað geti hægt á nú þegar gefið hefur verið út að aðeins einn slíkur megi vera á brúnni í einu,“ segir Einar Björnsson veitingamaður í Mömmumat, fjölsóttum matsölustað sem er norðanmegin við Ölfusá.

Einar segir að þau tilmæli um þunga á brúnni sem nú gilda ættu kannski ekki að koma að sök eða skapa vanda dagsdaglega. „Þó gæti hægagangur orðið bagalegur til dæmis síðdegis á föstudögum á sumrin þegar straumur fólks af höfuðborgarsvæðinu liggur hingað. Þá myndast við aðkomuna að brúnni, þegar komið er inn í Selfossbæ úr norðri, bílalestir sem stundum ná út undir Hveragerði,“ segir Einar og heldur áfram:

„Mikilvægt er að koma í veg fyrir að teppur myndist á vegum eða að vandinn ágerist. Því er tillaga mín sú að bílstjórar, ekki síst karlarnir á trukkunum, verði hvattir til þess að fara frekar Þrengslin að Þorlákshöfn, um Óseyrarbrú og svo fyrir sunnan bæinn á Selfossi. Á þeirri leið er mun minni umferð en sé farið austur um Hellisheiði og Ölfus. Að fara Óseyrarleið gæti því verið tímasparnaður, þótt það sé lítið eitt lengra en um Selfoss. Eftir þrjú ár eða svo verður svo komin ný brú hér yfir Ölfusá.“

Einar minnir á að nýja brúin sem verður ofan við Selfoss á Efri-Laugardælaeyju hafi lengi verið í undirbúningi. Gott mál sé að framkvæmdir hafi tafist, því á síðustu árum hafi mikil uppbygging átt sér stað á Selfossi og öll verslunar- og þjónustustarfsemi þar eflst. Bærinn verði því áfram sterkt aðdráttarafl og þangað muni margir leggja leið sína, þó svo að alfaraleiðin um hringveginn færist úr bænum og af gömlu Ölfusárbrúnni sem tekin var í notkun rétt undir lok árs 1945.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson