Þótt íslenska karlalandsliðið í fótbolta sé í miklum mótvindi um þessar mundir er óhætt að segja að frammistaða nýja landsliðsfyrirliðans, Orra Steins Óskarssonar, sé einn af jákvæðustu punktunum í leikjum þess á undanförnum mánuðum

Landsliðsmörk

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þótt íslenska karlalandsliðið í fótbolta sé í miklum mótvindi um þessar mundir er óhætt að segja að frammistaða nýja landsliðsfyrirliðans, Orra Steins Óskarssonar, sé einn af jákvæðustu punktunum í leikjum þess á undanförnum mánuðum.

Orri hefur skorað sjö mörk í fyrstu sextán landsleikjum sínum og aðeins fjórir íslenskir landsliðsmenn í sögunni hafa verið fljótari að ná þeim markafjölda í landsleikjum.

Þar er Ríkharður Jónsson frá Akranesi fremstur í flokki en þegar hann skoraði öll fjögur mörk Íslands í sigrinum fræga á Svíum árið 1951 hafði hann skorað sex mörk í fyrstu fjórum landsleikjum sínum. Sjöunda markið kom í fimmta leiknum mánuði síðar, gegn Noregi.

Guðmundur Steinsson skoraði sjö mörk í fyrstu ellefu landsleikjum sínum á níunda áratug síðustu aldar og Kolbeinn Sigþórsson lék sama leik í sínum fyrstu ellefu landsleikjum á árunum 2010 til 2012.

Þórður Þórðarson frá Akranesi, samherji Ríkharðs, var hinn helsti markaskorari landsliðsins á sjötta áratug síðustu aldar og skoraði sjö mörk í fyrstu fimmtán landsleikjunum.

Eintómir mótsleikir

Orri Steinn er því í fimmta sæti listans sem sjá má hér til hliðar en þar má sjá alla þá 28 landsliðsmenn Íslands í karlaflokki sem hafa skorað sjö mörk og fleiri fyrir Ísland, og hversu marga leiki hver þeirra þurfti til að ná þessum sjö mörkum.

En af þessum fimm landsliðsmönnum sem eru efstir á listanum sker Orri Steinn sig algjörlega úr að einu leyti.

Hann hefur skorað öll sjö mörkin í mótsleikjum. Fyrst tvö mörk gegn Lúxemborg og Slóvakíu í undankeppni EM haustið 2023 og síðan fimm mörk í Þjóðadeildinni frá haustinu 2024, þegar hann skoraði í tveimur leikjum gegn Svartfjallalandi og einum gegn Tyrklandi, og síðan bæði mörk Íslands í einvíginu við Kósovó á dögunum.

Orri Steinn hefur reyndar ekki enn spilað einn einasta vináttulandsleik. Allir sextán landsleikir hans hafa verið mótsleikir, átta í undankeppni EM og átta í Þjóðadeildinni.

Þórður á fyrstu mótsmörkin

Ríkharður Jónsson, sem var um árabil markahæsti landsliðsmaður Íslands með sautján mörk í 33 landsleikjum, skoraði sín fyrstu sjö mörk í vináttulandsleikjum, enda var Ísland ekki farið að taka þátt í alþjóðlegum mótum á hans fyrstu landsliðsárum. Fjórtán fyrstu landsleikir Ríkharðs voru vináttulandsleikir.

Þórður Þórðarson, félagi hans frá Akranesi og faðir Teits og Ólafs Þórðarsona sem síðar gerðu það gott með landsliðinu, skoraði fyrstu fjögur landsliðsmörk sín í vináttuleikjum. En hann varð síðan árið 1957 fyrstur íslenskra landsliðsmanna til að skora í mótsleik þegar hann gerði tvö mörk í útileik gegn Belgíu í undankeppni heimsmeistaramótsins. Það voru landsliðsmörk númer fimm og sex hjá Þórði, í hans 13. landsleik, en dugðu reyndar skammt því Belgar unnu leikinn örugglega, 8:3.

Guðmundur Steinsson, sóknarmaður úr Fram, nýtti vel þau tækifæri sem hann fékk í vináttulandsleikjum á árunum 1980 til 1988 og skoraði sjö mörk í slíkum leikjum, m.a. í leikjum gegn Sádi-Arabíu, Kúveit og Barein. Þá var hann kominn með sjö mörk í fyrstu 11 landsleikjum sínum. Áttunda og síðasta markið kom síðan í leik gegn Portúgal í undankeppni Ólympíuleikanna 1988.

Kolbeinn byrjaði vel

Kolbeinn Sigþórsson var líka drjúgur í vináttuleikjum í upphafi landsliðsferilsins og skoraði sjö mörk í sínum fyrstu ellefu landsleikjum eins og Guðmundur. Sex af hans fyrstu sjö mörkum komu í vináttulandsleikjum en sitt fjórða landsliðsmark skoraði Kolbeinn hins vegar í undankeppni EM, sigurmark gegn Kýpur á Laugardalsvellinum, 1:0, í september 2011.

Kolbeinn átti á næstu árum eftir að raða inn mörkum í mótsleikjum Íslands og deildi um skeið markameti landsliðsins með Eiði Smára Guðjohnsen en þeir skoruðu báðir 26 mörk.

Gylfi Þór Sigurðsson, sem er í níunda sæti á listanum hér fyrir ofan, sló markamet þeirra með sínu 27. marki haustið 2023. Gylfi og Eiður Smári eiga það sameiginlegt að hafa farið tiltölulega rólega af stað í markaskorun fyrir landsliðið en gefið í þegar leið á ferilinn.

Orri Steinn fer því afar vel af stað á sínum landsliðsferli og er enn aðeins tvítugur að aldri. Hvort hann eigi síðar meir eftir að ógna markameti Gylfa er of snemmt að spá um en byrjunin lofar svo sannarlega góðu hjá Seltirningnum unga.

Höf.: Víðir Sigurðsson