Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, fæddist 10. desember 1947 á Fosshólum í Holtum í Rangárvallasýslu. Hún lést á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum í Svíþjóð 28. febrúar 2025, 77 ára að aldri.

Foreldrar Margrétar voru Ragnheiður Esther Einarsdóttir hárgreiðslumeistari, f. 31.10. 1916, d. 5.11. 2002, og Sigfús Sigurðsson, innkaupa- og verslunarstjóri Kaupfélags Árnesinga á Selfossi og síðar kaupfélagsstjóri í Stykkishólmi, f. 19.2. 1922, d. 21.8. 1999.

Systkini Margrétar eru Guðríður Sigfúsdóttir Haugen kaupmaður, f. 28.10. 1943, d. 29.11. 2019, eftirlifandi maki Tormod Haugen; Einar Sigfússon framkvæmdastjóri, f. 15.12. 1948, maki Anna Kristín Sigþórsdóttir; Dómhildur A. Sigfúsdóttir hússtjórnarkennari, f. 23.1. 1950; María K. Sigfúsdóttir fyrrverandi heilbrigðisstarfsmaður, f. 7.5. 1952, maki Kristbjörn Theodórsson; Sigurður Sigfússon framkvæmdastjóri, f. 1.6. 1955, maki Sjöfn Björnsdóttir.

Margrét giftist 1. júní 1974 eftirlifandi eiginmanni sínum, Sigurði Petersen fyrrverandi skipstjóra, f. 22.11. 1945. Foreldrar hans voru Martha Sigvalda Þórðarson húsmóðir, f. 16.10. 1917, d. 8.6. 1984, og Jón Þorgrímur Jóhannsson lögreglumaður, f. 16.6. 1918, d. 9.3. 1971.

Börn Margrétar og Sigurðar eru Esther Ágústa Berg ráðgjafi, f. 7.7. 1970, maki Bala Kamallakharan, frumkvöðull og fjárfestir, f. 2.10. 1973, dætur þeirra eru Mira Esther læknanemi, f. 1.12. 2003, og Maya Teresa grunnskólanemi, f. 6.8. 2015; Sigfús Sigurðsson fisksali, f. 7.5. 1975, börn hans eru Alexander Sigurður förðunarfræðingur, f. 10.8. 1995, og Eyvör Margrét grunnskólanemi, f. 3.4. 2013.

Margrét ólst upp á Selfossi þar sem hún var næstelst sex systkina. Eftir gagnfræðapróf fór Margrét í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og svo í Hússtjórnarkennaraskólann þaðan sem hún útskrifaðist vorið 1969.

Margrét byrjaði feril sinn sem ráðskona á Sjúkrahúsinu á Selfossi 1969-1972 og varð svo ráðskona í Hjúkrunarskóla Íslands 1972-1976. Hún hóf að kenna við Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1976, kenndi matreiðslu og næringarfræði í MH í 12 ár og varð síðan skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur 1998 og gegndi því starfi til 2022 þegar hún varð að hætta sökum aldurs á 75. aldursári.

Margrét kenndi einnig ýmis námskeið um land allt, var einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttanna „Allt í drasli“, gaf út bók með húsráðum og kom fram í ýmsum þáttum bæði í sjónvarpi og útvarpi.

Margrét var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2012 fyrir framlag sitt til íslenskra heimilisfræða. Einnig var Margrét valin kona ársins af Bandalagi kvenna í Reykjavík árið 2017 fyrir störf sín sem skólameistari Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.

Útför Margrétar fer fram fá Hallgrímskirkju í dag, 26. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma, það er margt sem kemur upp í hugann á þessum erfiðu tímum en það sem stendur upp úr er mikið þakklæti. Þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum saman, þakklæti fyrir okkar góða vinskap, skilyrðislausu ástina sem þú veittir okkur, fyrir skemmtilegheitin, allar ráðleggingarnar, hjálpsemina sem og hvernig þú lifðir lífinu full af orku og hreifst okkur með. Sorgin er mikil og stundum nánast óbærileg en þetta mikla þakklæti sem ég finn fyrir sem og minning um magnaða mömmu og kvenskörung er það sem linar sársaukann og mun lifa áfram í hjarta mínu.

Í gegnum tíðina hef ég alltaf verið svo ánægð með hversu náin fjölskyldan okkar er en það varst þú sem varst kletturinn og límið sem hélst öllu saman. Þú varst hjartahlý og tókst öllum opnum örmum, vinir okkar urðu vinir þínir og þú laðaðir fólk að þér og stækkaðir þannig þann hóp sem við köllum fjölskyldu til muna. Fyrir bragðið var líf okkar enn ríkara og skemmtilegra en ella. Ég finn einmitt nú, meira en nokkru sinni áður, hvað þú snertir marga því sú ást og umhyggja sem beinist að okkur á þessum erfiðu tímum er mikil.

Það er erfitt að setja í orð þá miklu orku sem geislaði af þér og það voru mikil forréttindi að fá að alast upp með þig sem móður. Þú varst og munt halda áfram verða mikil og góð fyrirmynd og ég mun halda áfram að ala Miru og Mayu upp í þínum anda, þ.e. að þær verði sterkar, sjálfstæðar og ekki síst fjölskylduræknar. Ég mun einnig reyna mitt besta til að feta í fótspor þín og halda utan um fjölskylduna, láta fólki líða vel og elda allt of mikinn mat ofan í alla.

Hvíldu í friði, elsku mamma, ég elska þig og mun sakna þín að eilífu.

Þín dóttir,

Ágústa.

Það er einkennilegt og með mikilli sorg sem við setjumst niður og skrifum minningargrein um hana Möggu okkar, systur og mágkonu. Það var einhvern veginn svo fjarri okkur að svona gæti farið. En enginn má sköpum renna. Nærri viku eftir að Magga féll frá kom það upp í samræðum okkar hjóna að rétt væri að hringja í Möggu seinna í dag, en áttuðum okkur svo. Ekki verður lengur hringt til að leita ráða með næringargildi, uppskriftir og ráð. En þetta er nú dapur raunveruleikinn.

Magga hafði einstaklega hlýja og góða nærveru og átti alltaf auðvelt með öll samskipti og að laða að sér fólk. Henni var í blóð borið að hafa áhrif á sitt umhverfi og þá helst að vera í forystu. Henni lét vel að hafa á hendi mannaforráð og tókst áreynslulaust að falla inn í hópinn en þó þannig að öllum var ljóst hver var í fylkingarbrjósti. Alþjóð fékk að kynnast henni og naut hún vinsælda og virðingar. Í hvernig búningi sem lífið var sem knúði dyra hjá henni var hún ætíð sú sama og vék sér aldrei undan að takast á við vandamál og áföll. Alltaf var hún reiðubúin að aðstoða þá sem áttu um sárt að binda og gekk þá jafnan fram af krafti og einurð. Hún var skemmtileg samvistum og átti létta og góða lund á sama tíma og hún var staðföst og hafði sterkan huga.

Okkur finnst gott að geta rifjað upp allar þær góðu stundir sem við áttum með Möggu svo og þeim hjónum báðum.

Okkur finnst að Magga og frænka hennar og föðursystir, Elín ljósmóðir í Stykkishólmi, hafi átt margt sameiginlegt. Báðar voru þær skemmtilegar að vera með og hafsjór af fróðleik en jafnframt sterkar og leituðu ávallt lausna á þeim vandamálum sem þær mættu á lífsins leið. Okkur varð hugsað til Möggu þegar við hjónin vorum við útför Elínar sem var jarðsungin frá Stykkishólmskirkju, þá orðin 94 ára gömul. Sagði þá presturinn frá því að ef Elínu fannst veðurhorfur ótryggar þá tók hún væntanlegar mæður, sem áttu um langan veg að fara og jafnvel fjallvegi, heim til sín og þar dvöldu þær stundum í heila viku áður en þær lögðust inn á Sjúkrahúsið í Stykkishólmi þar sem þær svo fæddu sín börn. Þetta er sama framgangan og hugsunin og gerði báðar þessar konur einstakar. Alltaf var hægt að finna færa leið.

Samband Möggu við börnin sín og barnabörn var mjög sterkt og til mikillar eftirbreytni. Hún tók virkan þátt í lífi þeirra og starfi og og lagði þeim til þekkingu á lífinu og hinum „praktísku“ hlutum sem allir mæta á sinni ævigöngu.

Við eigum góðar og verðmætar minningar um frábæra og góða konu sem ætíð var gaman og gott að vera með og hafði bætandi áhrif á líf okkar allra. Fráfall Möggu hefur verið okkur mikill harmur og þungbær en það er jú hlutskipti okkar sem eftir lifum að takast á við slík áföll.

Eiginmanni Möggu, Sigurði Petersen, og börnum þeirra Ágústu og Sigfúsi svo og öllum hennar barnabörnum sendum við okkar dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur.

Við kveðjum Möggu með mikla sorg í huga en minning um mæta konu lifir.

Hvíldu í friði, okkar elskaða vinkona.

Einar Sigfússon,
Anna K. Sigþórsdóttir.

Yndislega svilkona mín hún Margrét verður kvödd í Hallgrímskirkju í dag. Við kynntumst í janúar árið 2012, sama dag og hún var sæmd fálkaorðunni. Hún kom inn í líf okkar á mjög sérstakan hátt. Að morgni 1. janúar 2012 opna ég Íslendingabók og sé að Stefán eiginmaður minn hefur eignast bróður. Ég vek hann og spyr hann út í þennan bróður sinn, sem hann kannast ekkert við, en Margrét hafði fært Sigurð mann sinn inn í Íslendingabók með réttan blóðföður. Stefán og systur hans höfðu samband við þau hjónin og var ákveðið að koma saman við fyrsta tækifæri og kynnast. Hittumst við heima hjá okkur Stefáni, systkinin fjögur og makar. Við Magga komumst að því seinna að bræðurnir höfðu báðir sagt við okkur, eiginkonur sínar, að ef það yrði vandræðaleg þögn ættum við að rjúfa hana með því að segja eitthvað skemmtilegt. En þess þurfti svo sannarlega ekki, það varð engin þögn og strax varð svo kært á milli okkar allra. Fljótlega eftir þetta hittumst við heima hjá Möggu og Sigga ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Hópurinn náði mjög vel saman og var eins og við hefðum alltaf þekkst. Það var ekki síst fyrir drifkraft og kæti Möggu. Magga var svo skemmtileg, orðheppin, jákvæð og fjörug. Hún hafði alveg einstaklega góða nærveru og gaf frá sér svo mikla hlýju og gleði. Fjölskyldan verður Möggu ávallt þakklát fyrir að koma með sig og sína af krafti inn í okkar stækkandi fjölskyldu.

Upp frá þessum kynnum höfum við mætt í skírnarveislur, afmæli, fermingar, útskriftir, já við höfum deilt öllum gleði- og sorgarstundum. Ógleymanlegt er þegar Magga og fjölskylda mættu í Búðardal í veislu hjá dóttur minni og þær mæðgur komu strax inn í eldhúsið í félagsheimilinu og hjálpuðu til af miklum krafti. Magga kom með góðar og nytsamlegar uppástungur um hvað mætti betur fara og við hinar kunnum svo sannarlega að meta það, því þessar ábendingar komu frá svo góðum stað, greinilega frá konu sem var vön að standa í svona stússi. Síðastliðið sumar hittumst við öll og glöddumst með Möggu og Sigga í glæsilegu og skemmtilegu 50 ára gullbrúðkaupsafmæli þeirra, í yndislegu veðri, heima hjá Ágústu og Bala. Við í fjölskyldu okkar erum þakklát fyrir að hafa kynnst Möggu, Sigga, börnum þeirra, barnabörnum og tengdabörnum, það hefur auðgað líf okkar og gert það skemmtilegra. Innilegar samúðarkveðjur elsku Siggi, Ágústa, Sigfús, Bala, barnabörn, vinir og aðrir vandamenn. Möggu verður sárt saknað og er hún kært kvödd í dag. Blessuð sé minning hennar.

Anna Þórdís, Ómar,

Hanna, Jón og fjölskyldur.

Hláturmild, skarpgreind, skapstór. Svona var hún Magga frænka. Þoldi illa væl og kvein. Standa upp og áfram gakk. Kom fyrir að hún hastaði á einkabarnið sem ég var, sem gerði mér bara gott. Magga var um margt lík ömmu Esther. Barnakjass var kannski ekki efst á dagskránni, það þurfti að reka stór heimili og sækja salt í grautinn. Hinir sönnu mannkostir fengu á sig æ skýrari mynd í réttu hlutfalli við þroska unglingsins. Og þeir kostir skinu skært fram á síðasta dag og bar aldrei skugga á. Til Möggu gat ég alltaf leitað í stóru og smáu, ráðvendnin var sönn og alltaf heil.

Magga og Siggi bjuggu lengi á hæð í Barmahlíð, og í risinu var veröld Dóma frænku. Opið á milli hæða og þessi heimili minntu oft á félagsmiðstöð. Við ættingjarnir utan af landi gengum að gistingu vísri og römbuðum inn og út. Heimagangar voru margir. Gjarnan fullt hús af fólki. Alltaf matur á borðum. Málin rædd fram á nótt. Þetta var líflegt umhverfi og gefandi fyrir alla sem þess fengu að njóta. Það eru fleiri en ég sem muna símanúmerið í Barmahlíðinni jafn vel og númerið hjá Hreyfli.

Elsku Siggi, Ágústa, Sigfús og fjölskyldur. Ykkar missir er mestur. Magga okkar allra, þessi fasti í okkar fjölskyldu er gengin. Ættarstólpinn. Eftir stendur sterk minning sem mun fylgja okkur út lífið. Hvíl í friði, elsku frænka.

Sigþór.

Sterk kona, klár og ákveðin kona. En líka hlý og blíð kona. Þessi lýsing á vel við Möggu frænku eins og hún er gjarnan kölluð á mínu heimili. Missir að fólki er mismikill eftir aldri og aðstæðum en Magga var ein af þessum ómissandi manneskjum allt fram á síðasta dag. Hún var klettur fyrir svo marga, stoð og stytta eiginmanns, barna sinna og barnabarna. Missir þeirra og okkar allra er mikill. Magga, svo full af lífi og orku með sinn meðfædda drifkraft veikist skyndilega og er óvænt tekin frá fólkinu sínu og við sitjum skilningsvana eftir.

Ég kynntist Möggu fyrir tæpum 40 árum þegar ég og bróðursonur hennar, Sigþór, urðum par. Hún tók mér opnum örmum, hrein og bein eins og hún var, ákveðin í fasi en samt svo hlý. Hún var endalaus uppspretta visku um svo margt, allt frá meðhöndlun matvæla til ráðlegginga um lífið sjálft. Alltaf skýr og sjálfri sér samkvæm. Hve oft höfum við eiginmaður minn ekki komist að þeirri niðurstöðu að best væri að hringja í Möggu frænku þegar okkur vantaði ráð varðandi matseld, þvott og heimilishald. Hún gaf alltaf góð ráð og spurði svo frétta af okkur og börnum okkar, alltaf áhugasöm og kærleiksrík. Hún var alla tíð til staðar fyrir systur sínar og bræður sem virtu hana mikils og eru henni eflaust þakklát fyrir hennar auðsýnda styrk og kærleik. Allir sem þekktu Möggu eiga óteljandi góðar minningar af henni glæsilegri með ljósa hárið sitt, alltaf vel tilhöfð og fallega klædd. Og þegar ég hugsa til hennar heyri ég hláturinn hennar sem heyrðist svo oft því hún var glaðlynd og skemmtileg. Ég kveð kæra vinkonu og frænku þakklát fyrir okkar kynni og bið allt hið góða að styrkja eiginmann, börn, barnabörn og systkini hennar í þeirra sorg.

Sigrún Guðmundsdóttir (Silla).

Mæt kona er fallin frá. Margrét okkar Sigfúsdóttir farin, bara allt í einu, okkur öllum að óvörum. Eftir sitjum við skólasysturnar hnípnar.

Haustið 1966 settumst við 12 saman á skólabekk í Húsmæðrakennaraskóla Íslands sem þá hét. Við komum víða að af landinu með nokkuð ólíkan bakgrunn en allar höfðum við lokið húsmæðraskólanámi. Fram undan var þriggja vetra og eins sumars samvera sem leiddi til ævilangrar vináttu. Skólinn var mjög krefjandi, kenndar bæði bóklegar og verklegar greinar og langir skóladagar. Við vorum í senn eftirvæntingarfullar og kvíðnar fyrir komandi tímum.

Við minnumst Margrétar vinkonu okkar sem mikils gleðigjafa. Hún var mjög ósérhlífin, hjálpsöm og dugleg til allra verka og gott að vinna með henni.

Við munum margar góðar stundir, eins og ferðina á grasafjallið með afgang af veislu frá kvöldinu áður, kalt borð í farangrinum. Sjón að sjá þegar dekkað var upp á Hveravöllum með „nestið“. Dvöldum við í tjöldum og tíndum fjallagrös af miklum móð. Sumardvölin á Laugarvatni 1968 er einnig mjög eftirminnileg, en hún samanstóð af námskeiðshaldi fyrir unglingsstúlkur (æfingakennsla fyrir okkur) auk þess sem við lærðum garðyrkju og fleira. Þar naut hún sín mjög vel enda hafði hún græna fingur.

Eftir útskrift sumarið 1969 fórum við hver í sína áttina til starfa og næstu ár einkenndust af fjölskyldumyndun og barneignum en vináttan og gott samband hélst áfram. Síðustu 25-30 ár höfum við haft nánara samband aftur og komið saman, að minnsta kosti einu sinni á ári hverju, og dvalið saman í tvo sólarhringa á mismunandi stöðum á landinu, rifjað upp gömul kynni og notið samverunnar. Margrét er sú fyrsta sem kveður úr þessum hópi og skilur eftir sig stórt skarð. Í júní í sumar er næsti hittingur skipulagður á Siglufirði og verður mikill söknuður að Margréti.

Árið 1998 hóf Margrét störf sem skólastjóri og kennari við Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Það var mikil gæfa fyrir skólann. Þar naut hún sín vel meðal unga fólksins og stjórnaði af mildi og festu. Fjölmiðlar og einstaklingar leituðu mikið til Margrétar varðandi heimilishald og húsráð. Ávallt var hún tilbúin að hjálpa, fræðandi, beinskeytt og skemmtileg í tilsvörum.

Að leiðarlokum sendum við Sigurði, Ágústu, Sigfúsi og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um mæta konu og góða vinkonu lifir.

Anna Rósa, Benedikta, Helga, Hjördís, Hólmfríður, Kristín og Margrét.

Elsku vinkona mín Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, alltaf kölluð Magga Fúsa á mínum bæ, er horfin úr jarðvistinni.

Við höfðum fylgst að sem ungar konur þegar allt var mögulegt og engar hömlur þangað sem hugurinn leitaði. Á þeim dögum var margt brallað og oft var bíllinn fylltur af góssi og gúmmelaði og útdeilt til fólks með mikilli nákvæmni. Þetta var á þeim tíma sem höft og bönn voru á öllu mögulegu og þá var gott að kunna að baka og meikaða … einhvern veginn.

Systurnar í Barmahlíðinni voru sem drottningar í öllum skilningi. Hávaxnar og virðulegar, fallega klæddar og alltaf með veislur sem slógu öll met. Eyrnalokkar voru í miklu uppáhaldi og það gaf þeim flott yfirbragð. Heimilin voru flottari en gengur og gerist því þarna voru drottningar á ferð. Við stofnuðum saumaklúbb (matarklúbb) þegar við vorum ungar og þar voru oft nýjar uppskriftir reyndar. Uppskriftir sem áttu eftir að koma út á síðum matar- og eða uppskriftabóka. Engin jól komu fyrr en búið var að gefa smakk af sýnishornum smákökubaksturs þess árs. Við vinkonurnar nutum lífsins og samverunnar. Ég var öfunduð úti um allan bæ vegna vinskapar við systurnar. Þær voru meistarar í öllu sem viðkom matar- og kökugerð.

Á vetrum var snjórinn oft öslaður til að mæta í afmælisveislur systranna í Hlíðunum. Við vorum svo heppnar vinkonurnar að systurnar voru fæddar í kringum jólin og því mikið um veisluhöld. Þessar veislur stóðu oft langt fram á kvöld þar sem við gestirnir nutum sögustunda og góðra veitinga. Enginn var að flýta sér því á þessum árum var maður manns gaman. Yndislegt var að hittast og njóta stundarinnar.

Á hillunni hérna hjá mér stendur lítil stytta sem ég fékk í brúðkaupi Ágústu og Bala. Þetta er verndargripurinn minn, smágerður Ganesha sem hefur fylgt mér frá því ég fékk hann. Við Magga mín fengum góð ár saman. Ár sem voru full af gleði og stundum erfiðleikum en alltaf var eitthvað gott svífandi yfir okkur þegar við hittumst.

En svo fækkaði í hópnum þegar árin liðu. Solla og Þóra létust og þá fækkaði einnig ferðum í Hlíðarnar og ekki fékkst lengur smákökusmakk fyrir jólin. Árin okkar voru yndisleg og við gömlu vinkonurnar heyrðumst á sl. ári því á vegi mínum varð gömul matreiðslubók sem ég keypti, „The Italian Cooking Encyclopedia“. Bókin minnti mig einhverra hluta vegna á samveruna frá fyrri tíð þegar við sátum í notalega eldhúsinu í Barmahlíð þar sem alls kyns kokkabækur fylltu hillurnar. Nú hefur þessi bók heiðurssess í minni hillu og gefur mér hughrif í hvert sinn ég ég lít hana augum. Við ræddum þarna um allt mögulegt og ómögulegt. Við ætluðum að hittast í bílskúrnum á Lautarvegi þegar sólin hækkaði á lofti og fara betur yfir fréttir af fólkinu okkar og eins líðandi stundar.

Nú er lífi vinkonu lokið og þá er gott að ylja sér við minningar fyrri tíma þegar samverustundirnar voru geislum stráðar, gull og gersemar fylltu andann og allt var mögulegt. Við erum svo mikið minnt á að „lífið er núna“. Ég sendi fólkinu hennar Möggu minnar hjartans samúðarkveðjur.

Sigríður Guðjónsdóttir (Sigga).

Okkar elskulega Margrét D. Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólameistari skólans, er fallin frá, 77 ára að aldri.

Við í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík hörmum mjög fráfall hennar. Það er stutt síðan Margrét leit glaðvær við í kaffibolla til okkar á kaffistofu Hússtjórnarskólans, þá nýkomin úr ræktinni, íklædd bleiku, og sagði okkur skemmtisögur af „körlunum vinum hennar í Laugum“. Það er einmitt á þennan hátt sem við mörg hver minnumst Margrétar, sem eldhressrar kjarnakonu er alltaf hafði tíma til að segja frá því sem á daga hennar hafði drifið á hnyttinn og beinskeyttan hátt. Nemendur hennar og samferðafólk fengu einmitt að njóta góðs af visku hennar sem virtist aldrei þverra. Hún var uppfull af góðum húsráðum, matargerðin lék í höndum hennar og veisluundirbúningur sömuleiðis. Hún var óhrædd við að leggja fólki línurnar og hvetja fólk til að vera besta útgáfan af sjálfu sér.

Margrét vann afar óeigingjarnt, göfugt og gæfuríkt starf í þágu Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Við þökkum Margréti heils hugar fyrir hennar dýrmæta framlag fyrir skólann og minnumst hennar með mikilli hlýju og söknuði.

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning hennar mun lifa í hjörtum okkar.

Fyrir hönd starfsmanna og stjórnar Hússtjórnarskólans í Reykjavík,

Marta María Arnarsdóttir skólameistari.