Sigurður Vilbergsson fæddist í Reykjavík 9. nóvember 1949. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. mars 2025.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 12.10. 1913, d. 28.4. 2004, og Vilberg Guðmundsson, f. 23.3. 1911, d. 2.7. 1987. Systkini Sigurðar eru Jóhannes, f. 9.2. 1937, Guðmundur, f. 26.5. 1942, d. 18.8. 1994, og Vilberg, f. 15.3. 1947.
Eiginkona Sigurðar er Lilja Benediktsdóttir, f. 23. febrúar 1950. Þau giftu sig 26. desember 1972. Foreldrar Lilju voru Brynhildur Skeggjadóttir, f. 24.9. 1925, d. 12.4. 2007, og Benedikt Ragnar Benediktsson, f. 29.1. 1921, d. 10.5. 1997.
Börn Sigurðar og Lilju eru: 1) Benedikt, f. 15.10. 1972, maki Eva Sigvaldadóttir, f. 14.6. 1972. Dætur þeirra eru Íris, f. 10.7. 1999, maki Breki Melax, f. 4.11. 1997, og Erna, f. 5.4. 2002. 2) Arnar, f. 8.5. 1975, maki Margrét Elín Kaaber, f. 9.9. 1976. Dóttir þeirra er Guðrún Eva, f. 4.11. 2016. Fyrir á Arnar dæturnar Dagnýju Lilju, f. 16.1. 2004, maki Kristófer Elí Kristmannsson, f. 29.3. 2001, og Halldóru Sóleyju, f. 29.11. 2005. 3) Hildur, f. 22.3. 1981. Börn hennar eru Arnór, f. 24.4. 2009, og Thelma Sigríður, f. 13.10. 2012.
Sigurður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík þar sem hann gekk í Melaskóla og Hagaskóla og lærði rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og síðar rafiðnfræði við Tækniskólann. Hann varð rafvirkjameistari og hóf störf í fjölskyldufyrirtækinu Segli þar sem hann starfaði lengst af ásamt föður sínum og bræðrum. Á síðari árum starfaði Sigurður við margvísleg störf og stofnaði m.a. fyrirtækið Pax ásamt Benedikt syni sínum og vann einnig um tíma fyrir Kex hostel og Bón- og þvottastöðina. Þá var hann meðlimur í Lionsklúbbi Seltjarnarness til margra ára.
Sigurður og Lilja hófu búskap árið 1972 og bjuggu fyrst um sinn í Sörlaskjóli hjá foreldrum Sigurðar, því næst í Breiðholti en fluttust fljótlega í KR-blokkina í Vesturbænum. 1987 fluttu þau að Tjarnarstíg 13 á Seltjarnarnesi þar sem þau hafa búið allar götur síðan. Sigurður og Lilja hafa dvalið löngum stundum á Fossi í Skagafirði.
Útför Sigurðar fer fram frá Neskirkju v/Hagatorg í dag, 26. mars 2025, klukkan 15.
Afi Siggi var besti afi í heimi, góður maður og frábær, fyndinn og fallegur og alltaf mjög gaman að vera með honum, sérstaklega í sveitinni. Öllum fannst okkur ótrúlega gaman þegar afi keyrði um með okkur krakkana í kerrunni á Fossi og niður að strönd. Það var líka alltaf gaman að fara með honum að veiða og fylgjast með honum undirbúa stangir og veiðidót. Við erum svo þakklátar fyrir að hafa átt hann fyrir afa. Allar minningarnar sem við eigum saman munum við alltaf geyma í hjörtum okkar og aldrei gleyma. Eins og þegar afi Siggi fékk sér „kjötpítsu“ í sveitinni og varla sást í sósuna af því að hann elskaði svo mikið kjöt. Það var einstakt hvernig hann lýsti upp svæðið með stóra brosinu sínu sem hann færði okkur öllum og endalaust var hægt að hlusta á skemmtilegu sögurnar hans afa. Fyrsta ökuferð okkar eldri systranna Dagnýjar og Halldóru var með afa Sigga í sveitinni og eitt sinn kom afi Siggi á góðu augnabliki á fótboltamót, nákvæmlega þegar ég, Guðrún Eva, skoraði, og var kallaður lukkudýr eftir þennan dag. Enginn fagnaði jafn innilega
og afi Siggi þegar fólkinu hans gekk vel. Það væri ekki hægt að óska sér betri afa. Við elskum þig svo svo svo mikið elsku afi Siggi.
Dagný Lilja, Halldóra Sóley og Guðrún Eva Arnarsdætur.
Elsku afi Siggi, þú varst besti afi í heimi og við elskum þig svo mikið. Við fáum hlýju í hjartað alltaf þegar við hugsum um þig. Þú varst alltaf með svo góðan húmor, sama hvað var í gangi, og vissir alltaf hvernig þú áttir að láta okkur fara að hlæja. Þú hugsaðir alltaf svo vel um aðra. Okkur leið svo vel þegar við vorum með þér og við elskuðum að eyða tíma með þér. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjörtum okkar.
Takk fyrir allar minningarnar. Takk fyrir að hugsa svona vel um alla. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Takk fyrir allar gleðistundirnar sem við höfum átt saman. Takk fyrir allar sveitaferðirnar á Fossi. Takk fyrir öll skiptin sem þú fórst með okkur að veiða. Takk fyrir að vera besti afi í heiminum. Takk fyrir stærstu og bestu fjölskyldu í heiminum. Takk fyrir allt.
Við vorum svo heppin að fá að alast upp með þér. Við vitum að þú verður alltaf hjá okkur og við erum alltaf að hugsa til þín. Við elskum þig svo mikið og munum sakna þín.
Thelma og Arnór.
Man ég svip og sögu
sveinsins lokkabjarta.
Brosið er í barmi
barnsins góða hjarta.
Leiftur góðra gáfna
gneistuðu oft í svörum.
Nú er þagnarþunga
þrýst að köldum vörum.
(Davíð Stefánsson)
Í dag kveð ég bróður minn og besta vin, Sigurð Vilbergsson, sem alltaf var kallaður Siggi.
Siggi var yngstur af okkur fjórum bræðrum: Jóhannes, f. 1937, Guðmundur, f. 1942, d. 1994, Vilberg, f. 1947, og Sigurður, f. 1949, d. 2025. Við ólumst upp í Sörlaskjólinu á þeim árum sem hverfið var að byggjast upp og allt iðaði af lífi, þá var ýmislegt brallað með vinunum.
Á æskuárunum nutum við þess á sumrin að ferðast um landið með foreldrum okkar, voru það oft miklar ævintýraferðir um allt Ísland.
Fjölskyldan átti sælureit á Fossi á Skaga í Skagafirði. Frá því að við Siggi vorum litlir strákar var farið þangað á hverju sumri, samvera okkar bræðra og minningar frá þeim tíma eru mér mjög dýrmætar.
Eftir að foreldrar okkar féllu frá höfum við fjölskyldurnar haldið áfram að njóta þess að dvelja á þessum stað. Siggi var duglegastur okkar að sjá um að byggja upp og halda utan um öll þau verk sem þurfti að vinna þar. Einnig þegar við byggðum nýtt hús í Hvammkoti.
Faðir okkar stofnaði rafverktakafyrirtækið Segul ehf. 1939. Við bræðurnir unnum allir þar til fjölda ára eða þar til fyrirtækið var selt árið 2000.
Þótt Siggi hafi verið yngstur okkar bræðra var hann oftast okkar leiðtogi bæði í starfi og leik.
Það kom fljótt í ljós hversu verklaginn hann var, hjálpsamur og úrræðagóður.
Hlýjan og húmorinn var hans aðalsmerki við alla sem hann umgekkst eða vann með. Samstarf okkar og vinátta var alla tíð mjög náin.
Ég bið góðan Guð að styrkja elsku Lilju, börnin þeirra, Benedikt, Arnar og Hildi, og fjölskyldur. Missir þeirra er mikill.
Ég mun minnast Sigga með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann var mér í lífinu.
Vilberg Vilbergsson
(Villi).
Í dag minnumst við elsku Sigga föðurbróður okkar sem var einstakur og góðhjartaður maður. Okkar fyrstu minningar af Sigga tengjast fjölskyldusamveru í Sörlaskjóli hjá ömmu Dúddu og afa Villa og á Fossi á Skaga þar sem fjölskyldan á lítið óðal. Óhætt er að segja að þar var alltaf mikið hlegið og haft gaman – oft var það niður við Fossá þar sem Siggi leiðbeindi okkur við að veiða lax eða þegar skrölt var upp á heiði á jeppum til að veiða silung í vötnum. Þar kom hlýja og hjálpsemi Sigga glöggt í ljós með hans glaðlega fasi.
Þegar við systkinin komumst á fullorðinsár hélt Siggi áfram að vera stoð í lífi okkar og alltaf var hægt að leita til hans eftir hjálp. Þegar við bræður stofnuðum okkar fyrirtæki var Siggi meira en tilbúinn að hjálpa til – hvort sem það var að híma inni í ískaldri vöruskemmu til að gera upp gamla hluti eða vinna við að tengja ljós og blásara. Siggi var alltaf kátur, sá húmorinn í öllu og fann alltaf eitthvað skemmtilegt við verkefnin.
Í samvinnu sást glöggt hversu handlaginn og úrræðagóður Siggi var. Hann fann lausnir á öllum verkefnum, bæði smáum og stórum og frágangur hans var alltaf með eindæmum fagmannlegur. Einnig koma hans áhrif augljóslega fram varðandi allar breytingar og uppbyggingu á Fossi í gegnum árin. Handbragð hans var einstakt.
Með samvinnu og öllum vináttuferðum okkar á Fossi skapaðist einnig dýrmæt vinátta sem við eigum alltaf og munum með ást og væntumþykju. Við minnumst Sigga frænda með söknuði og hlýju í hjarta. Okkar dýpstu samúðarkveðjur til elsku Lilju, Benna, Arnars, Hildar og fjölskyldna.
Sigurlaug, Kristinn
og Ari Rafn.
Látinn er kær mágur, svili og vinur, Sigurður Vilbergsson, réttra 75 ára, eftir erfið veikindi. Margs er að minnast eftir nána tilvist allt okkar fullorðna líf. Siggi var yngstur fjögurra bræðra sem voru mjög nánir, lifðu og vörðu stærri hluta starfsævinnar í raftækjafyrirtækinu Segull hf. sem faðir þeirra, Vilberg Guðmundsson rafvirkjameistari, stofnaði og rak. Þjónuðu þeir feðgar ekki síst skipaflotanum, en Vilberg var mjög áfram um velferð og öryggi hans, enda skipstjórasonur.
Óhætt er að segja að einskis manns greiðviknari en Sigga höfum við notið alla tíð. Óháð öllu var Siggi, nær ávallt óbeðinn, mættur til aðstoðar er við stóðum í framkvæmdum vegna íbúðarhúsnæðis, vinnuaðstöðu eða frístundaverustaðar. Átti þá alls ekki eingöngu við um rafmagn, heldur hvað sem nauðsyn bar í slíkum framkvæmdum og vandvirkni og kunnátta Sigga brást ekki. Aldrei var það vandamál til staðar að Siggi gæfist upp við að finna bestu lausn. Og ekki hvarf Siggi af vettvangi fyrr en leyst var ætlunarverk hans, hvað sem klukkan sló. Við erum sannarlega ekki eina fólkið sem hefur sömu sögu að segja. Ættingjar og vinir eru undantekningarlaust í sama hópi, að ekki sé talað um börn og barnabörn.
Siggi var einstakur höfðingi heim að sækja og þar hallaði ekki á þau hjón Lilju og hann, enda vinmörg. Oft var gestkvæmt á heimili þeirra en ekki síður á eftirlætisstað fjölskyldunnar Fossi á Skaga. Svo var einnig í Hvammkoti, sumarhúsi sem þeir bræður byggðu fyrir margt löngu, nefnt eftir litlum bæ sem þar stóð. Þegar sem ungur drengur átti Siggi sumardvalir á Fossi ásamt foreldrum sínum og bræðrum. Hann varð því strax öllum hnútum kunnugur og lærði af föður sínum, sem var afar framsýnn áhugamaður um laxveiði, og stundaði laxeldi og hafbeitartilraunir af miklum áhuga og eljusemi.
Foss vann sér stóran og mikilvægan sess í hug og hjarta Sigga og ekki síður Lilju. Hann var ötull og óþreytandi við að leiðbeina gestum sínum við að renna fyrir lax í Fossánni og veiddu margir þar sinn fyrsta lax. Ótalin eru þá börnin og barnabörnin sem afi Siggi hefur kennt leyndarmál laxveiðinnar og munu þau, ásamt vinum og komandi fjölskyldum, njóta um ókomna tíð.
Við viljum þakka Sigga og Lilju einstaklega skemmtilega samveru á ferðum okkar og í dvölum erlendis sem og hér heima. Gleðiefni var, í nærfellt aldarfjórðung frá og með þúsaldarmótum, að fagna saman áramótum á heimili þeirra. Samskipti okkar síðustu mánuði, þegar sýnt var hvert stefndi, voru einlæg og skemmtileg. Siggi alltaf jafn áhugasamur um alla hluti þegar við rifjuðum upp gamlar minningar, menn og málefni. Hann var æðrulaus og kjarkaður, kvartaði aldrei. Mjög þakklátur fyrir ómetanlega hlýju, umhyggju og styrk Lilju sérstaklega, en einnig börnum, ættingjum og vinum.
Að lokum þökkum við allt, Sigga Vilbergs verður sárt saknað!
Sigrún og Gísli.
Á Fossi á Skaga undi Sigurður Vilbergsson sér einna best. Þar á stórfjölskyldan einstaka náttúruperlu með silungsvötnum á heiði, undurfallegri laxveiðiá, sjóbleikju við fjöruborðið og ágætum húsakosti sem rúmar fjölda manns. Þar hefur hann dvalið sumarpart árlega frá barnæsku og síðari árin oftar og lengur. Ungur drengur skottaðist hann um landareignina með pabba sínum og bræðrum við umhirðu og viðhald, veiddi í fjallavötnunum og fjörunni svo og í ánni, þegar hann hafið aldur til. Lærði á seiðaeldi í fjölmörgum sleppitjörnum og tók þátt í seiðasleppingum í ána á hverju hausti. Einstök samvera með fjölskyldu og vinum og rausnarskapur á öllum sviðum. Hann þekkti ána eins og lófann á sér og breytti þar engu um margbreytileg hegðun hennar. Hann var lunkinn veiðimaður en best leið honum í leiðsögumannshlutverkinu þegar gestir hans náðu að landa laxi. Þá gladdist hann mest allra. Það er engin tala til um þann fjölda maríulaxa sem veiðst hafa undir hans leiðsögn, en þeir eru mjög margir.
Leiðir okkar Sigga lágu fyrst saman í Hagaskóla. Við erum því búnir að vera góðvinir í meira en 60 ár. Ávallt sannur, traustur, ráðagóður og greiðvikinn. Hann eignaðist fljótt Willys-blæjujeppa og fórum við í fjölmargar ævintýraferðir á honum, oftast í hópi annarra jeppaeigenda. Hálendisferðir, Þórsmerkurferðir, sveitaböll og útihátíðir svo eitthvað sé nefnt. Ávallt komumst við heilir heim en eitt sinn um páskaleytið fórum við norður á Skaga og dvöldum þar í nokkurn tíma. Á heimleiðinni gerði kafaldsbyl og vorum við 14 tíma að komast yfir Holtavörðuheiði. Síðasta spölinn á heiðinni þurftum við að fá rútu til þess að draga jeppann niður og alla leið til Borgarness því bensínið var löngu búið og við bæði kaldir og svangir.
Þegar við vorum 18 ára árið 1968 héldum við til Bretlands ásamt nokkrum öðrum íslenskum ungmennum til vinnu í fjölskyldubúðum í Wales og dvöldum þar í þrjá sumarmánuði. Við Siggi völdumst til að vera barþjónar og áttum við þar afar góðar og líflegar stundir við skemmtilega vinnu. Eftir kvöldvinnuna hittum við oftlega Íslendingahópinn og skemmtum okkur saman. Þetta reyndist mikil örlagaferð því þar kynntist Siggi Lilju konuefni sínu og hafa þau upp frá því gengið þétt saman lífsins göngu.
Það hafa verið okkur Elsu Björk mikil forréttindi að eiga þau hjón að okkar góðu vinum. Heimsóknir á heimili þeirra svo og á sveitasetrið hafa verið unaðsstundir í glaðværð og kærleika. Lilja einstaklega flink við matseldina og Siggi töfraði fram góðgæti á grillinu. Glæsilegar og notalegar stundir við mat og drykk. Hin síðari ár voru leikhúsheimsóknir þeirra sérstakt áhugamál og voru þau t.a.m. fastagestir frumsýninga í Borgarleikhúsinu um árabil, ásamt hópi góðra vina.
Við sendum Lilju, Benedikt, Arnari, Hildi, bræðrum og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að styrkja þau í sorg og söknuði.
Þorsteinn og Elsa Björk.
Í dag kveðjum við hjónin okkar kæra og besta vin, Sigurð Vilbergsson. Vinátta okkar spannar ríflega 40 ár og að leiðarlokum er margs að minnast. Fyrstu árin í nýbyggingarbrasi á Kaplaskjólsvegi 89, í fjölbýli sem hefur í okkar hópi verið kallað „KR-blokkin“ enda flestir af þeim sem voru í hópnum miklir KR-ingar. Þar var stofnað til vinahóps sem hefur komið saman einu sinni á ári allar götur síðan og nú síðast í febrúar þar sem Siggi naut sín vel. Siggi var bóngóður og lausnamiðaður maður sem gott var að leita til og þau voru mörg handtökin sem hann aðstoðaði okkur við í gegnum tíðina.
Siggi og Lilja, hans góða kona, voru höfðingjar heim að sækja og nutum við þess svo sannarlega við ýmis tækifæri, hvort sem var afmæli, áramótagleði eða hin ótal mörgu tilefni þar sem vinahópurinn kom saman og hafði gaman.
Upp í hugann koma allar ferðirnar í sumarparadísina norður á Skaga þar sem við áttum saman margar yndislegar og ómetanlegar samverustundir. Sama hvort það var við veiðar í Fossá, eða ævintýraferðirnar á árum áður með börnunum í Hraunsvatn. Þær ferðir gátu verið ansi torsóttar en alltaf jafn skemmtilegar og eftirminnilegar. Gönguferðirnar á Fossborgina eða niður í fjöru og í tjarnirnar. Ádráttur og sleppingar í Fossá að hausti sem voru ævintýralegar.
Þá eru ógleymanlegar sumarnæturnar í Hvammkoti þar sem pólitíkin og heimsmálin voru rædd og afgreidd en í seinni tíð var mest dvalið á Fossi og málin leyst við eldhúsborðið, í heita pottinum eða úti á palli í góðra vina hópi og þá gjarnan með „jómfrúnni góðu“.
En allt eru þetta, og miklu, miklu fleira, fyrst og fremst góðar og dýrmætar minningar um ógleymanlegan tíma með frábærum vini sem hefur nú kvatt okkur alltof fljótt.
Elsku hjartans Lilju og fjölskyldu sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíldu í friði, elsku vinur.
Þín verður sárt saknað.
Árni Steinsson og
Jónína M. Árnadóttir (Jóna Magga).
Ég vil minnast Sigga, sem var mjög góður maður. Alltaf svo góður við mig, hjálpsamur og gestrisinn. Þegar einhver kom í heimsókn til hans og Lilju á Skagann kom ekkert annað til greina en að þiggja kaffi, mat og gistingu. Svo áttum við mörg áramót sem við fögnuðum með honum og hans fólki. Það var líka alltaf gaman þegar þau komu í heimsókn til okkar í sveitina. Takk fyrir að vera svona góður við mig elsku Siggi og nú ertu laus frá sjúkdómnum og líður vel.
Elsku Lilja, Benni, Arnar og Hildur, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.
Ása Björk Gísladóttir.
Enn eitt stórt skarð er höggvið í klúbbinn okkar þegar fregnir bárust af að Sigurður Vilbergs væri fallinn frá. Það var harmafregn þrátt fyrir að við vissum að það myndi gerast fyrr en síðar. Hann fékk það verkefni að berjast við illvígan sjúkdóm sem hann gerði af miklu æðruleysi. Siggi var alla tíð virkur félagi í Lionsklúbbi Seltjarnarness og síðan í Ljónunum og sótti fundi þar nánast fram á síðasta dag. Þegar hann mætti á fundi birti yfir salnum og hann heilsaði hverjum og einum innilega og kvaddi síðan alla með faðmlagi. Siggi var einstaklega hjálplegur þegar við ferðuðumst á erlendri grundu og var alltaf fyrstur til ef einhver þurfti á aðstoð aða halda. Hans verður sárt saknað og klúbbfélögum votta ég innilega samúð. Lilju og nánustu ættingjum votta ég mína dýpstu samúð.
Hannes Úlfstað.
Kveðja frá fyrrum félögum í Lionsklúbbi Seltjarnarness.
Enn einn félagi okkar til margra ára, máttarstólpi í Lionsklúbbi Seltjarnarness, er fallinn frá. Sigurður Vilbergsson vinur okkar og félagi er látinn eftir skammvinn veikindi í blóma lífsins.
Hann hafði síðan hann gekk í klúbbinn 1988 tekið að sér ótal verkefni bæði í stjórn og nefndum klúbbsins, af einstakri fagmennsku og nærgætni enda ekki í kot vísað. Hann var sæmdur viðurkenningu Melvin Jones árið 2005 fyrir frábær störf á vegum klúbbsins í verkefnum sem hann tók að sér og stjórnaði vel og fagmannlega. Þar af má telja merkingu á örnefnum á Seltjarnarnesi festum á rekaviðarstaura sem hann útvegaði frá jörð sinni norður á Skaga, þaðan sem þau hjónin höfðu áður sællar minningar boðið öllum klúbbnum í skemmtiferð og gistingu.
Sigurðar verður sárt saknað af öllum félögunum sem trausts vinar og yndislega góðs drengs sem ávallt var tilbúinn til góðra verka sem hann tók ævinlega rösklega þátt í eins og skemmtunum klúbbsins og einnig í fjölmörgum ferðum okkar innan lands sem erlendis, ávallt fremstur í flokki, hrókur alls fagnaðar, drífandi kátur, glæsilegur og skemmtilegur.
Við sendum Lilju, börnum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að blessa þau og styrkja í sorg þeirra.
Fyrir hönd félaganna,
Guðjón Jónsson og
Sigurður Hall.