Geir Ingi Geirsson fæddist í Reykjavík 1. júlí 1966. Hann lést á heimili sínu, Sóltúni 7 í Reykjavík, 5. mars 2025.
Foreldrar hans voru Sigrún Þórarinsdóttir, f. 17. janúar 1932, d. 12. desember 2015, og Geir Þórðarson matreiðslumeistari, f. 24. september 1931, d. 30. janúar 2020. Bróðir Geirs Inga er Þórarinn Örn, f. 31. maí 1952. Sonur Þórarins er Guðmundur Geir, f. 19. júlí 1981.
Geir Ingi ólst upp í Sæviðarsundi og starfaði lengst af sem málari.
Útför Geirs Inga verður gerð frá Áskirkju í dag, 26. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Það er okkur félögunum mjög sárt að sjá á eftir Geir Inga æskuvini okkar. Við bjuggum allir saman í Sæviðarsundi á bernskuárunum og kynntumst Geira þegar við vorum allir að leika í pollabuxum. Við vorum með honum á leikskóla, í Langholtsskóla og í fótbolta og blaki í Þrótti öll okkar yngri ár. Það er af mörgu að taka þegar gömul atvik eru rifjuð upp, s.s. símaöt, fótbolti fram á morgun, vinna við að selja eldgamla hamborgara úr Askbílnum, heilagar stundir við að bóna bíla í hverri viku með grjóthörðu Mjallarbóni sem enginn venjulegur maður gat notað, endalaus leit að ánamöðkum fram eftir nóttu þar sem enginn tíndi meira en Geiri, svindl á vélritunarprófi sem skilaði 10 í einkunn, og þar fram eftir götunum. Það var aldrei auð stund með Geira.
Það var enginn betri í að rifja upp gömul atvik en Geiri, enda var hann með stálminni sem náði langt út fyrir það sem við hinir munum af fólki og atburðum. Hann gat lýst atburðum í smáatriðum sem gerðust fyrir áratugum, og ekki síst mundi hann alls kyns persónulegar upplýsingar eins og síma- og bílnúmer fólks sem hann varla þekkti. Þessir eiginleikar Geira varpa ljósi á einn af hans helstu kostum sem var áhugi á fólki og tilveru þess. Var það ávallt hin besta skemmtun að hlusta á Geira rifja upp gamla tíma og ýmis atriði sem í huga okkar flestra teljast smáatriði, en í frásögn hans urðu að sprenghlægilegum gamansögum. Fram á síðasta dag mundi hann símanúmer, bílnúmer, nöfn foreldra, systkina, skyldfólks og heimilisföng meira og minna allra úr gamla hverfinu okkar og langt umfram það. Þegar við hugsum til baka munum við helst eftir þessum eiginleikum í fari Geira, en hann var ekki gallalaus frekar en við hinir. Í gamla hverfinu okkar og í Langholtsskóla gekk ýmislegt á og t.d. viðgekkst þar mikið einelti. Margir voru gerendur og þolendur í þeim ljóta leik og oftar en ekki gekk Geiri hart fram. Það eru því ekki allir sem eiga góðar minningar af Geira frá þessum árum.
Það sem einnig einkenndi Geira var mikill dugnaður. Ungur að árum keypti hann sér bíl á undan okkur, keypti sér íbúð og rak eigið málningarfyrirtæki með félaga sínum. Hann vann um árabil fyrir stór fyrirtæki eins og Skeljung en einnig nutum við góðs af málarahæfileikum hans því hann tók að sér að mála fyrir okkur vinina þegar við loksins fluttum í eigið húsnæði. Ástríða hans í mörg ár var að mæta í sund á morgnana og var hann hluti af „Húnunum“, þeim sem hanga á húninum í Laugardalslaug áður en laugin er opnuð á morgnana. Eignaðist hann marga félaga á þeim vettvangi.
Því miður hallaði undan fæti hjá Geira hin síðari ár, bæði líkamlega og andlega. Glíma hans við Bakkus var vel þekkt á meðal okkar vinanna. Sú barátta gekk á endanum ekki upp en við munum ávallt minnast hans sem góðs vinar sem gat verið hrókur alls fagnaðar á mannamótum og sem var traustur bakhjarl sem alltaf var hægt að leita til.
Við vottum Þórarni, bróður Geirs Inga, og syni hans, Guðmundi, okkar dýpstu samúð.
Björgvin, Sigfús, Sigurður og Hallbjörn.
Við sundfélagarnir í Laugardalslaug erum harmi slegnir yfir andláti góðs vinar okkar Geirs Inga sem var reglulegur morgungestur Laugardalslaugar til áratuga og setti sterkan svip á mannflóruna. Geir var einstaklega mannblendinn og gaf sig að fólki, jákvæður og skemmtilegur. Fylgdist vel með öllu í þjóðlífinu og var vel að sér í mörgum ólíkum málefnum. Það var oft, ef menn skorti minni með einhvern atburð eða nafn vantaði, þá kom Geir með nafnið eða tímalínu atburðar.
Hestar voru hans áhugamál sem hann deildi með föður sínum. Áttu þeir feðgar margan góðan gæðinginn og stunduðu sína hestamennsku uppi í Víðidal á Fákssvæðinu. Hann var góður fagmaður og fengu margir að njóta þeirra hæfileika hans.
Geir var ævinlega smekklega klæddur, enda myndarlegur maður. Bílar skiptu hann miklu máli og var Toyota Land Cruiser hans merki. Bíllinn hans var alltaf tandurhreinn og bónaður.
Lífsbrautin var honum á stundum ekki auðveld. Alltaf hélt hann samt einlægninni og áhuganum fyrir fólkinu í kringum sig. Það er sannarlega söknuður margra að fá ekki að njóta samvista við Geir lengur því það fylgdi honum fallegt ljós góðvildar og vinsemdar.
Hvíl í friði kæri sundfélagi og vinur. Votta Þórarni og fjölskyldu samúð mína.
F.h. sundfélaga,
Þormar Ingimarsson.