Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Furðu sætir að íslensk stjórnvöld hafi um árabil ekki hirt um að afla nauðsynlegra upplýsinga um farþega og áhafnir einstakra evrópskra flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi frá öðru Schengen-ríki og innan þess svæðis sem Schengen-samstarfið tekur til. Lög standa til annars.“
Svo segir í umsögn lögreglustjórans á Suðurnesjum um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um landamæri, lögreglulögum og tollalögum, en frumvarpið er nú til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Markmið frumvarpsins er m.a. að sjá til þess að yfirvöld fái allar nauðsynlegar upplýsingar um farþega og áhafnir frá flugfélögum og öðrum flytjendum, en misbrestur hefur verið á því, þar sem nokkur flugfélög hafa ekki afhent yfirvöldum farþegalista sína við komu hingað til lands.
Hefur það m.a. orðið til þess að afbrotamenn, sem ella hefðu verið stöðvaðir á landamærunum á Keflavíkurflugvelli, hafa sloppið í gegnum nálaraugað þar.
Í umsögn lögreglustjórans kemur m.a. fram að þrátt fyrir að skylt sé að íslenskum lögum að fyrirtæki sem annast flutning farþega og varnings til og frá landinu afhendi tollayfirvöldum upplýsingar um farþega og áhöfn, hafi nokkur erlend flugfélög kosið að virða íslensk lög hvað þetta varðar að vettugi, og komist upp með það.
„Um langt árabil hefur aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda að þessu leyti skert nauðsynlegt eftirlit og áhættugreiningu löggæsluaðila á landamærum Íslands,“ segir lögreglustjórinn og áréttar að lagaskylda um skil á farþegaupplýsingum hafi verið í lög leidd árið 2015.
Rúm níu ár séu síðan skerpt hafi verið á tollalögum á þann veg. Í frumvarpinu sé tekið fram að farþegaupplýsingadeild taki á móti 100% farþegaupplýsinga fyrir komu og brottför til og frá landinu utan Schengen-svæðisins og um 93% sömu upplýsinga innan svæðisins frá loftlandamærum. Fram er tekið að þetta lægra hlutfall skýrist af því að tiltekin evrópsk flugfélög hafi ekki afhent íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um farþega og áhöfn, þar sem þeim sé það ekki skylt skv. persónuverndarregluverki Evrópusambandsins.
„Staðreynd er að hér á Íslandi hefur skýrum íslenskum lögum ekki verið framfylgt um árabil,“ segir í umsögn lögreglustjórans.
„Lögreglu og tollgæslu eru skorður settar við faglegt eftirlit og áhættugreiningu með farþegum og áhöfnum flugvéla ef ekki liggja fyrir farþegaupplýsingar. Samkeyrsla farþegaupplýsinga við gagnasöfn löggæsluaðila eru á sama tíma ekki framkvæmanleg en nauðsynleg,“ segir í umsögn lögreglustjórans.