Félagsmenn Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, hafa samþykkt í atkvæðagreiðslu sameiningu félagsins við VR, stærsta stéttarfélag landsins. Sameiningin er háð samþykki beggja félaga og er tillaga um hana á dagskrá aðalfundar VR sem verður haldinn í kvöld

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Félagsmenn Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, hafa samþykkt í atkvæðagreiðslu sameiningu félagsins við VR, stærsta stéttarfélag landsins. Sameiningin er háð samþykki beggja félaga og er tillaga um hana á dagskrá aðalfundar VR sem verður haldinn í kvöld.

Atkvæðagreiðslunni innan Leiðsagnar lauk í fyrradag og var niðurstaða hennar sú að 225 félagsmenn, eða 94,5% þeirra sem voru á kjörskrá, sögðu já en 11, eða 4,6%, sögðu nei. Tveir tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 1.046 félagsmenn og greiddu 238 atkvæði, eða 22,7% þeirra.

Halldór Kolbeins formaður Leiðsagnar segir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýni mjög afgerandi afstöðu félagsmanna til sameiningar við VR. Nú sé beðið eftir niðurstöðu aðalfundar VR í kvöld áður en af formlegri sameiningu geti orðið.

Undirbúningur að sameiningunni hefur staðið yfir í rúmt ár og er litið svo á að með henni verði til sterkt hagsmunafélag leiðsögufólks innan raða VR. Leiðsögn og VR gerðu með sér samning í júní í fyrra vegna fyrirhugaðrar sameiningar með það að markmiði að styrkja stöðu leiðsögufólks á vinnumarkaði og starfsfólks í ferðaþjónustu almennt sem fjölgað hefur gríðarlega á síðustu árum, að því er fram kemur á vef VR. Fyrir eru í VR nokkur þúsund félagar sem starfa í ferðaþjónustu.

Tók VR að sér að annast rekstur Leiðsagnar fram að sameiningu félaganna samkvæmt rekstrarsamningi.

Á að baki rúmlega 50 ára sögu

Stéttarfélag leiðsögumanna er ríflega 50 ára gamalt en það var stofnað 6. júní árið 1972. Félagsmenn eru hátt í 1.100 talsins í dag.

Gangi sameiningin í gegn verður stofnuð deild leiðsögufólks hjá VR sem mun sinna hagsmunamálum þess. Verður kjarasamningur Leiðsagnar áfram kjarasamningur alls leiðsögufólks á Íslandi og verður VR samningsaðili gagnvart Samtökum atvinnulífsins vegna kjarasamnings Leiðsagnar.

Segir í kynningu vegna fyrirhugaðrar sameiningar að VR reikni með því að leiðsögufólk í VR muni skipa samninganefnd í samráði við stjórn VR. Sú nefnd muni leiða kjarasamningsviðræður með stuðningi sérfræðinga VR líkt og gert hafi verið í síðustu samningalotu.

Höf.: Ómar Friðriksson