Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynntu í gær breytingar á lögum um veiðigjöld. Lagt er til að breyting verði gerð á skráðu aflaverðmæti sem er til grundvallar útreikningum á álagningu þeirra, einkum í tilfelli norsk-íslenskrar síldar, kolmunna, þorsks og ýsu. Áætlar ríkisstjórnin að þessi breytta tilhögun skili tvöfalt meiri veiðigjöldum miðað við álagningu þeirra á síðasta ári.
Í tilfelli þorsks og ýsu er gert ráð fyrir að aðeins verði miðað við meðalverð hvers mánaðar á innlendum fiskmörkuðum yfir 12 mánaða tímabil, en ekki tekið tillit til verðs sem nýtt er við uppgjör við sjómenn í innri viðskiptum útgerða sem einnig reka vinnslur.
Uppsjávartegundum er hins vegar undantekningarlaust landað beint til vinnslu og því ekki til virkur markaður innanlands fyrir þær afurðir. Leggur ríkisstjórnin því til að miðað verði við verð á norskum fiskmörkuðum.
Ekki er lagt til að breytingar verði gerðar á því hvernig veiðigjald er reiknað út.
Hanna Katrín sagði að með þessari breytingu ættu að skapast auknar tekjur sem myndu nýtast í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni og nefndi hún sérstaklega vegaframkvæmdir. Sagði hún þetta jafnframt mikið réttlætismál svo að þjóðin fengi aukinn hlut í arði af auðlindinni.
Fyrir blaðamannafundinn sendu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi yfirlýsingu þar sem áformunum var mótmælt og þau sögð ógna innlendri fiskvinnslu.
„Ég held að þau fari offari í sínum dómsdagsspám varðandi þetta mál,“ sagði Hanna Katrín í samtali við 200 mílur á mbl.is í gær. Þá kvaðst hún ekki hafa heyrt nein haldbær rök fyrir því að hækkun gjaldsins myndi leiða til samdráttar í landvinnslu á Íslandi. „Það hefur orðið misbrestur á því að miða við raunverulegt markaðsverðmæti í töluverðan tíma en nú erum við að snúa blaðinu við.“
Daði Már sagði ljóst að ekki væri hægt að skýra augljósan verðmun á uppsjávartegundum milli Noregs og Íslands með vísun í stærð, aflameðferð og gæði. Í Noregi væri verð 58% hærra í tilfelli síldar, 15% fyrir kolmunna og 124% fyrir makríl. „Rétt skal vera rétt,“ sagði Daði Már.