„Landrisið heldur áfram og jarðskjálftar í samræmi við það. Og það stefnir allt í að það verði kvikuhlaup áður en mjög langt um líður,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, spurður út í stöðuna á Reykjanesi.
Flest bendir til að áttunda eldgosið í goshrinunni við Sundhnúkagígaröðina, sem hófst í desember 2023, sé á næsta leiti. Síðasta gosi við gígaröðina lauk 9. desember. Kvikan sem safnast hefur undir Svartsengi er orðin meiri nú en þá þótt hægst hafi á kvikusöfnun.
„Ástandið eins og það er núna býður upp á að það geti gosið hvenær sem er, en það getur líka dregist,“ segir Páll og bætir við að ekki sé hægt að útiloka að næsta gos verði öflugra en fyrri gos.