Lundar Jenny Barrett er sýningarstjóri nýrrar sýningar í Nýlistasafninu. Þar má meðal annars skoða 2.470 lunda.
Lundar Jenny Barrett er sýningarstjóri nýrrar sýningar í Nýlistasafninu. Þar má meðal annars skoða 2.470 lunda. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir ári var bókverki stolið, Svisslendingur ákvað að senda safni bæklinga og ítarefni og fyrir nokkru fannst listamanni tilefni til þess að endurgera gamalt listaverk. Ekki er augljóst að slíkir atburðir skapi ramma utan um nýja sýningu en styrkur …

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Fyrir ári var bókverki stolið, Svisslendingur ákvað að senda safni bæklinga og ítarefni og fyrir nokkru fannst listamanni tilefni til þess að endurgera gamalt listaverk. Ekki er augljóst að slíkir atburðir skapi ramma utan um nýja sýningu en styrkur Nýlistasafnsins liggur einmitt í forvitnilegri safneign. Á sýningunni Ný aðföng: gjafir, endurgerðir og staðgenglar er óhefðbundin söfnunaraðferð Nýlistasafnsins tekin til skoðunar en safneignin er aðeins byggð á gjöfum sem gerir það að verkum að annars konar listaverk rata inn á safnið en annars staðar. Sýningarstjóri sýningarinnar, Jenny Barrett, er nýráðinn safneignarfulltrúi og er þetta frumraun hennar í sýningargerð fyrir Nýlistasafnið.

Lýsa eftir stolinni bók

Jenny segir sýninguna áhugaverða fyrir margra hluta sakir. „Þetta eru verk sem hafa verið tekin inn í safneignina á síðustu árum, eða frá árinu 2020, og varpa ljósi á sérstöðu okkar sem listamannsrekins safns. Um er að ræða mikla breidd í verkunum en þau tala samt saman á skemmtilegan hátt. Sem dæmi má nefna bókverkið „Chasing the Rainbow“ eftir Rúnu Þorkelsdóttur frá 1987 sem var stolið á bókverkasýningu á safninu í fyrra. Rúna var svo góð að gefa okkur bæði fyrstu og aðra útgáfu bókarinnar í safnið til þess að koma í stað bókarinnar sem var stolið. Nú sýnum við verkið fest upp á vegg, á bak við gler, en erum þó einnig með önnur bókverk til sýnis sem fólk má blaða í gegnum því að við viljum enn treysta fólki.“

Spurð hvort stuldurinn hafi haft áhrif á það hvernig bókverk eru höfð til sýnis segir Barrett að Nýlistasafnið vilji fyrst og fremst trúa á það besta í fólki. „Það er slæmt að leyfa einni manneskju að eyðileggja fyrir öðrum. Þetta atvik var okkur þó áminning um að vera alltaf á varðbergi. Við vitum ekki hver tók bókina en það væri frábært ef hún myndi skila sér aftur í safneignina.“

Þá vekur athygli að til sýnis eru tvær útgáfur af sama verki. „Það er verkið eftir Ívar Valgarðsson, „Á milli fjalls og fjöru“, bæði frá 1978 og endurgerð frá 2014. Honum fannst það vera skemmt og vildi gera það aftur. Við sýnum því verkin hlið við hlið og það er mjög áhugavert að bera þau saman.“

2.470 lundabangsar

Eins má geta þess að verk Huldu Rósar Guðnadóttur „Puffin Shop“ frá 2019 verður sýnt í fyrsta skipti á Íslandi en Nýló er eina safnið sem á verk eftir hana í sinni safneign.
„Um er að ræða innsetningu sem fyrst var sýnd í Berlín og samanstendur af 2.470 lundum sem stillt er upp í níu Ikea-hillum ásamt hljóðverki. Verkið má til dæmis túlka út frá hugleiðingum um ferðamannastrauminn til Íslands sem og sjávarútveginn. Þá er það skemmtileg tilviljun að í ár eru 20 ár liðin frá því að Hulda Rós sýndi fyrst í Nýló.“

Með þessari sýningu gefst einnig tækifæri til þess að varpa ljósi á verk sem önnur söfn eru ekki að safna, eins og til dæmis tillögu Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar frá námsárunum að útilistaverki sem nefnist „KUSA 2000“. Það verk varð aldrei að veruleika og er mikilvæg heimild um listaverk sem hefði getað orðið.

„Um daginn fengum við svo í safnið bæklinga frá Svisslendingi um listamanninn Douwe Jan Bakker og þá gafst okkur tilefni til þess að draga fram þau verk sem við eigum og minnst er á þar. Þetta eru verk sem hafa ekki verið sýnd lengi en Bakker er hollenskur listamaður sem kenndi mörgum íslenskum listamönnum og hafði áhrif á þá.“

Velja aðra liti

Jenny er bresk og hefur búið á Íslandi í 11 ár. Hún lærði sýningargerð í Central Saint Martins og tók síðar meistaragráðu í safnafræði við Háskóla Íslands. Hún segir Íslendinga líta Ísland öðrum augum en flestir. „Ég var tvítug þegar ég kom hingað fyrst og kalla þetta mitt ættleidda heimili en ég hef þetta gestsauga sem talað er um og skrifaði t.d. lokaritgerð um íslenska list og hið háleita. Eitt sinn ræddi ég við einn um Kjarval og honum þótti það hvernig Kjarval málaði landslagið vera abstrakt þegar mér finnst verk hans frekar raunsönn lýsing á íslenskri náttúru. Þá hef ég tekið eftir því að Íslendingar velja aðra liti en aðrar þjóðir. Mér finnst einnig mjög áhugavert að skoða það hvernig erlendir listamenn hafa haft áhrif á íslenska listamenn en í safneign Nýló er mikið af verkum eftir erlenda listamenn,“ segir Barrett en sýningin stendur til 27. apríl.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir