Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Séra Hjálmar Jónsson kastar fram vísu:
Farsælt líf er lagt að veði,
lítið hirt um skaðann.
Þjáningar og þórðargleði,
það er niðurstaðan.
Ísleifur Gíslason, kaupmaður á Sauðárkróki, var kunnur fyrir kerskniskveðskap:
Sagður er Hengillinn óður og ær,
af afbrýði Keilir er sjúkur.
Þau opinberuðu einmitt í gær
Esjan og Mælifellshnjúkur.
Stephan G. Stephansson orti um Esjuna:
Falla Hlés í faðminn út
firðir nesjagrænir.
Náttklædd Esjan ofanlút
er að lesa bænir.
Jón Ingvar Jónsson orti líka um Esjuna:
Sumarkvöld við sundin blá
seint úr minni líða
er ég sveittur á þér lá
Esjan barmafríða.
„Íslenska sumarið“ nefndi hann þessa vísu:
Veðurfarið okkar á
engu nýju lumar.
Nú er Esjan orðin grá,
enda komið sumar.
Þegar Jón Gissurarson leit Esjuna var hún „hvít í kollinn með snærákir í giljum niður í miðjar hlíðar“:
Hefur Esjan happaveg
henni lýsi svona.
Hún er eins og höfðingleg
hæruskotin kona.
Sigríði Hjálmtýsdóttur frá Haga í Aðaldal varð hugsað til Esjunnar:
Esjan bláa undra hlý.
Ævaforn í háttum.
Hún er minning mína í
meitluð sterkum dráttum.
Hvað sagði ekki Þórbergur Þórðarson:
Esjan er engilfögur
utan úr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.
Eyjólfur Ó. Eyjólfsson bregður á leik í limru:
Friðsemd nú færist um kroppinn,
frá ferlegu harðlífi sloppinn
hann bregður sér í
buxur á ný
en blaðamenn rannsaka koppinn.