Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Ég fór að verða vör við köttinn Tófú hérna síðasta sumar,“ segir Elísabet Bogadóttir Berndsen, deildarstjóri á Litlu- og Minni-Grund, en kötturinn hefur vanið komur sínar inn á dvalarheimilið.
„Oftast kemur hann inn um aðaldyrnar niðri, þar sem er skynjari á hurðinni og opnast fyrir honum, en stundum fer hann krókaleið og stekkur upp á sólskálann og fer beint upp á aðra hæð,“ segir hún og bætir við að heimilisfólk kunni mjög vel við heimsóknir Tófús.
„Hann kemur bara og stekkur oft upp í lazyboy-stól hérna, og velur iðulega besta stólinn, enda er hann eins og konungur í ríki sínu hérna hjá okkur,“ segir Elísabet.
Unnið eftir Eden-stefnunni
Á Grund er unnið eftir Eden-stefnunni svonefndu þar sem áhersla er lögð á nánd, samveru, stuðning og gleði. Elísabet segir að þar sé t.d. mikið lagt upp úr því að hafa dýr, börn og plöntur sem mest í kringum eldra fólkið því það sé svo gefandi.
„Við sjáum þetta tímabil í ævi einstaklings sem síðasta þroskaskeiðið og þótt margir búi við heilsubrest og færniskerðingu sé samt alltaf möguleiki til að þroskast og vera virkur þátttakandi í lífinu,“ segir Elísabet.
Samskiptin mikilvæg
Hún segir heimilisfólkið kunna mjög vel að meta heimsóknir Tófús, þótt enginn sé allra. „En hann Tófú er alveg ómótstæðilegur og mjög blíður og kelinn.“
Hún tekur sem dæmi að ein konan á Grund hafði verið mikið lasin. „Við fórum með Tófú til hennar og það gladdi hana mjög mikið,“ segir Elísabet og bætir við að gæludýr geti verið stórkostlegir félagar eldra fólks eins og þeirra sem yngri eru.
Eins og hundur og köttur
„Það er mjög skemmtilegt að segja frá því að hérna hjá okkur býr lítill hundur, Perla, sem er eins og Tófú mjög mannelsk og blíð. Við höfum ekki alveg treyst Tófú í kringum hana ennþá, Perlu langar mjög mikið að leika við Tófú og sambandið á milli þeirra verður kærara með hverjum deginum.“
Elísabet segir að Tófú sé ekki kominn í fullt fæði á Grund, en hann sækir í athyglina sem hann fær frá íbúunum. „Það getur alveg verið að einhver laumi að honum bita, ég þori ekki að sverja fyrir það, en það er þá eitthvað lítið bara.“
Tófú býr í hverfinu, á Brávallagötunni, og eigandi hans er Dagný Maggýjar. „Við búum hérna rétt hjá Grund og hann fer út um allt hverfið og gerir sig heimakominn víða,“ segir Dagný. „Ég fæ oft hringingar þar sem fólk heldur að hann sé týndur, þegar hann er að vísitera allt hverfið,“ segir hún og hlær og bætir við að stundum gangi hann fram hjá matnum heima með svip, enda búinn að fá einhverjar kræsingar annars staðar. „Svo skottast hann með mér í búðina á horninu og það eru margir farnir að þekkja hann í hverfinu.“