Þjálfari Arnar Gunnlaugsson stýrði sínum fyrstu landsleikjum í umspilinu gegn Kósovó en landsliðsþjálfarinn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni.
Þjálfari Arnar Gunnlaugsson stýrði sínum fyrstu landsleikjum í umspilinu gegn Kósovó en landsliðsþjálfarinn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Gunnlaugsson stýrði sínum fyrstu leikjum sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á dögunum þegar liðið mætti Kósovó í umspili Þjóðadeildarinnar um sæti í B-deild keppninnar. Fyrri leik liðanna í Pristína í Kósovó lauk með sigri Kósovó, 2:1, þann 20

Þjóðadeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Arnar Gunnlaugsson stýrði sínum fyrstu leikjum sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á dögunum þegar liðið mætti Kósovó í umspili Þjóðadeildarinnar um sæti í B-deild keppninnar.

Fyrri leik liðanna í Pristína í Kósovó lauk með sigri Kósovó, 2:1, þann 20. mars og síðari leik liðanna í Murcia á Spáni, sem var heimaleikur Íslands í einvíginu, lauk einnig með sigri Kósovó, 3:1, þann 23. mars.

Kósovó vann því einvígið 5:2 og leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næsta kepnnistímabili, tímabilinu 2026-27, en Ísland er fallið í C-deildina í fyrsta sinn í sögu keppninnar.

„Ég er vonsvikinn með úrslitin og umræðan hefur mikið til snúist um úrslitin eftir þetta einvígi,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar í Bestu deild kvenna.

Ólafur er einn reynslumesti þjálfari landsins en hann hefur stýrt karlaliðum Fram, Breiðabliks, Nordsjælland, Randers, FH og Esbjerg á þjálfaraferlinum og gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2010.

Fleiri góð lið í dag

„Umræðan hefur mikið verið á þá leið að við eigum að vinna Kósovó og að þeir séu ekki með gott lið. Fyrir utan þá staðreynd að Kósovó er með frambærilegt lið þá er ekki hægt að horfa framhjá því að möguleikar íslenska liðsins í einvíginu voru verulega skertir. Í tveggja leikja einvígi skiptir miklu máli að geta spilað á eigin heimavelli og Murcia er ekki okkar heimavöllur, þó að hann hafi verið titlaður það í einvíginu. Annars fannst mér Kósovóarnir spila vel og þeir voru með góð svör við því sem íslenska liðið var að reyna að gera.

Við áttum í miklum vandræðum með þeirra upplegg. Þeir sendu marga háa bolta inn á teiginn, þar sem þeir voru sterkir í loftinu, og þeir sendu boltann nánast undantekningarlaust inn á teiginn ef þeir voru í aðstöðu til þess. Pressan þeirra var mjög góð og við hörfuðum nánast alltaf undan henni. Þeir voru fastir fyrir og ákveðnir í sínum návígjum. Ég veit ekki hvort umræðan hafi farið í þessa átt af því að þeir voru að koma úr deildinni fyrir neðan okkur en ég er ekki hrifinn af þessu, að við eigum að vinna þessa og hina. Fótboltinn er orðinn miklu jafnari en hann var og það sést kannski best á því að Lúxemborg vann Svíþjóð. Það eru fleiri góð fótboltalið í dag en hér áður fyrr,“ sagði Ólafur.

Útgönguleiðin ekki skýr

Eins og áður sagði stýrði Arnar Gunnlaugsson sínum fyrstu leikjum sem þjálfari íslenska liðsins og hefur hann verið gagnrýndur fyrir sína nálgun á einvígið.

„Þegar Arnar var ráðinn þá var verið að ráða þjálfara sem hafði spilað ákveðinn fótbolta, á ákveðinn hátt, með sínu félagsliði. Hans leikkerfi hafa að stórum hluta gengið út á það í seinni tíð að vera með yfirtölu á miðjunni. Bakverðirnir hans eða miðverðir hafa því verið duglegir að stíga upp úr vörninni. Hann vill líka spila boltanum út úr vörninni og hann vill að sitt lið þori að halda í boltann. Hann hefur aldrei verið mikið í því að beita löngum boltum fram völlinn. Maður sá það glögglega að margt af því sem hann gerði með Víkingunum var hann að reyna að gera í leikjunum gegn Kósovó.

Miðjumennirnir eiga að fá boltann, eiga að þora að halda í hann og spila á milli miðju- og varnarlínu andstæðinganna. Markið sem við skorum í fyrri leiknum kemur einmitt eftir þannig uppspil. Það var frábært mark, þar sem við héldum vel í boltann. Það fylgja þessu samt líka ókostir, þegar hlutirnir ganga ekki upp. Þá endar þú oft á því að spila boltanum til baka og jafnvel alveg á markmanninn. Útgönguleiðin úr öftustu víglínu og frá markverðinum, þegar ekki var hægt að spila inn á miðjuna, var ekki nægilega skýr fannst mér þegar við fengum þessa pressu á okkur.“

Nýjar hugmyndir þjálfarans

Þá var Arnar einnig gagnrýndur fyrir að spila leikmönnum út úr stöðu en Ísak Bergmann Jóhannesson lék sem vinstri bakvörður í seinni leiknum og Stefán Teitur Þórðarson sem miðvörður en þeir eru báðir miðjumenn að upplagi.

„Hann er með sínar hugmyndir og hann stillir upp því liði sem hann telur líklegast til árangurs. Hann gerir sex breytingar á milli leikja og hann er með margar hugmyndir um það hvernig hann vill að liðið spili. Það var augljóst að hans hugmyndir eru ekki allar komnar inn í liðið, allavega ekki eins og hann vill hafa það. Við erum í þeim fasa núna að það er nýbúið að skipta um landsliðsþjálfara og mér fannst það sjást á leik liðsins. Með nýjum þjálfara fylgja nýjar hugmyndir og áherslur og það var ákveðið óöryggi sem einkenndi einvígið gegn Kósovó.

Fyrir mér er þetta hinn eðlilegasti hlutur með tilkomu nýs þjálfara og það sem kemur mér að einhverju leyti á óvart er hvernig umræðan hefur verið. Arnar Gunnlaugsson mun ekki breyta sinni nálgun á leikinn og það mun taka tíma fyrir hann að fá liðið til þess að spila eins og hann vill að það spili. Liðið náði nokkrum æfingum saman og hann kom sjálfur inn á það að hann eyddi miklum tíma í fundarhöld til þess að koma sínum áherslum á framfæri.“

Skrifast á leikmennina

Ólafur bendir á að leikmennirnir verði líka að gera sitt fyrir íslenska liðið.

„Í fyrri leiknum var færslan úr vörn í sókn ekki í takti og pressan var ekki stemmd nógu vel af. Þetta eru hlutir sem taka tíma. Við erum með tvo leikmenn út úr stöðu í jöfnunarmarkinu í fyrri leiknum og í öðru markinu í seinni leiknum er varnarlínan ekki í réttri stöðu þegar við töpum boltanum.

Ég segi það aftur að með ráðningu Arnars ertu ekki að fá inn Lars Lagerbäck, Heimi Hallgrímsson, Frey Alexandersson eða Erik Hamrén. Arnar mun ekki spila sama fótbolta og þeir gerðu. Mér fannst Arnar kasta mörgum teningum í einvíginu gegn Kósovó og sumir féllu saman og sumir ekki.

Eitt af því sem mér fannst vanta í þessu einvígi hjá leikmönnunum var harka og ákefð. Það er ekki hægt að skrifa það á Arnar, jafnvel þótt hann hafi gleymt að segja við strákana inni í klefa að fara í tæklingar og láta finna fyrir sér, sem ég efast um að hann hafi gert. Þú ert að fara að spila landsleik og þá lætur þú finna almennilega fyrir þér.

Svo getur maður spurt sig hvort hann hafi verið með týpurnar í það en þó að þessir leikmenn séu ekki stærstir eða þrekvaxnastir þá spila þeir samt sem áður í deildum þar sem þú þarft að láta finna fyrir þér og það breytist ekki á landamærum. Þú þarft alltaf að fara í grunngildin, vinna skítverkin eins og við segjum, og það er algjörlega leikmannanna að framfylgja því.“

Óvægin umræða

Er gagnrýnin sem Arnar Gunnlaugsson hefur fengið eftir leikina tvo óvægin?

„Ég væri ósamkvæmur sjálfum mér sem þjálfari ef ég myndi segja að umræðan væri ekki búin að vera óvægin. Svona er þessi þjálfarabransi samt og þetta er eitthvað sem allir þjálfarar þurfa að búa við í nútímafótbolta. Það er enginn millivegur. Hlutirnir eru annaðhvort svartir eða hvítir, þú ert annaðhvort hetja eða skúrkur, annaðhvort var þetta frábært eða ömurlegt. Það er ekkert þarna á milli en Arnar Gunnlaugsson verður ekki dæmdur af þessum tveimur leikjum, það er alveg klárt mál.

Við getum ekki dæmt hans störf fyrr en eftir nokkra leiki þegar verður komin ákveðin samfella í það sem hann er að reyna að gera. Hann reyndi ákveðna hluti og þessir hlutir ættu að batna með hverjum leiknum sem líður. Hann þarf líka tíma til þess að laga þá hluti sem fóru úrskeiðis. Fyrst þá er hægt að fara að leggja eitthvert mat á hans vinnu sem þjálfara. Ef við horfum á leikina gegn Kósovó þá var meira af hlutum sem var ábótavant en það er bara eins og gengur og gerist í fótbolta,“ bætti Ólafur Helgi Kristjánsson við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason