Vegagerð Gröfurnar eru mættar upp á Vatnsendahæð í Kópavogi.
Vegagerð Gröfurnar eru mættar upp á Vatnsendahæð í Kópavogi. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðastliðinn fimmtudag samþykkti meirihluti bæjarráðs Kópavogs úthlutun nokkurra lóða í Vatnsendahvarfi en bærinn hefur unnið að gatnagerð á hæðinni. Í fyrsta lagi að úthluta lóðinni Hallahvarfi 17 til XP7 ehf

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Síðastliðinn fimmtudag samþykkti meirihluti bæjarráðs Kópavogs úthlutun nokkurra lóða í Vatnsendahvarfi en bærinn hefur unnið að gatnagerð á hæðinni.

Í fyrsta lagi að úthluta lóðinni Hallahvarfi 17 til XP7 ehf. en á henni verða hús með götunúmerin 17-19 og 21-23. Í öðru lagi að úthluta lóðinni Hallahvarfi 25 til MótX ehf. en á henni verða hús með götunúmerin 25-27, 29 og 31-33. Í þriðja lagi að úthluta lóðinni Háahvarfi 2 til MótX en þar verða hús með númerin 2 og 4.

Tengjast öðrum áfanga

Þessar þrjár lóðir tengjast öðrum áfanga í lóðaúthlutun í Vatnsendahvarfi. Samhliða samþykkti meirihluti bæjarráðs drög að úthlutunarskilmálum vegna þriðja áfanga Vatnsendahvarfs.

Með þeim fylgdu upplýsingar um umsóknir um 11 einbýlishúsalóðir. Hæsta boðið, eða 41,5 milljónir, kom frá GG húsum ehf. í lóðina Hlíðarhvarf 21. GG hús ehf. áttu einnig annað hæsta boðið, eða 38,5 milljónir, í lóðina Hlíðarhvarf 19. Þriðja hæsta boðið, eða 35 milljónir og eina krónu, átti ótilgreindur umsækjandi í lóðina Hlíðarhvarf 17.

Upp-sláttur ehf. átti hæsta boðið í parhúsalóð en félagið bauð 68,595 milljónir í lóðina Hallahvarf 13 og 15. Það átti einnig annað hæsta boðið, eða 68,594 milljónir, í parhúsalóðina Hallahvarf 9 og 11. Þriðja hæsta boðið, eða 64,5 milljónir, áttu GG hús ehf. í Hlíðarhvarf 20 og 22.

MótX átti hæsta tilboðið í fjölbýli en félagið bauð 426,425 milljónir í Háahvarf 2 og 4. Sömuleiðis átti MótX hæsta boðið í klasahús en það bauð 514,825 milljónir í Hallahvarf 25-27, 29 og 31-33

Byggja á nokkrum lóðum

Svanur Karl Grjetarsson framkvæmdastjóri MótX segir félagið undirbúa uppbyggingu á lóðunum Roðahvarfi 17-21 og 34-36, ásamt Háahvarfi 2-4 og Hallahvarfi 25-33, sem séu á einum glæsilegasta útsýnisstað höfuðborgarsvæðisins. Drög að Roðahvarfinu eru sýnd hér fyrir ofan.

Miðað við 18 mánaða framkvæmdatíma gætu fyrstu íbúðir komið á markað á fyrri hluta árs 2027.

Höf.: Baldur Arnarson