Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Fjarskiptafélögin hér á landi stöðva í hverjum mánuði mikinn fjölda svikasímtala og svikasmáskilaboða í síma (SMS og MMS). Á sex mánaða tímabili á seinasta ári stöðvaði hvert fjarskiptafyrirtæki hér á landi um það bil 100.000 til 150.000 svikasmáskilaboð í síma. Því til viðbótar eru í hverjum mánuði stöðvaðar tilraunir til að senda svikaskeyti fram hjá viðurkenndum lúkningarleiðum fjarskiptafélaganna.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Fjarskiptastofu um svik í fjarskiptum. Hún er gefin út í opnu samráði sem Fjarskiptastofa hefur efnt til um tillögur um samræmdar aðgerðir gegn svikastarfsemi með óumbeðnum símtölum og smáskilaboðum sem beint er að símnotendum svo fækka megi möguleikum óprúttinna aðila til að svíkja fé af eða blekkja almenning hér á landi.
Fram kemur á vef Fjarskiptastofu að frá því á fyrri hluta síðasta árs hefur vinnuhópur á vegum Fjarskiptastofu með fulltrúum frá Nova, Símanum og Vodafone hist reglulega og rætt um mögulegar leiðir til að vernda íslenska númeraskipulagið og notendur íslenskra símanúmera. „Tilefnið var mikil fjölgun svikastarfsemi síðustu árin þar sem íslensk símanúmer koma við sögu,“ segir þar.
Birtar eru tillögur um breytingar á reglum um fyrirkomulag númerabirtinga og á verklagsreglum í opnu samráði. Meðal úrræða er að fjarskiptafélögin muni framvegis stöðva smáskilaboð frá íslensku farsímanúmeri komi það inn um erlend samtengiskil í stað innlendra. Þau geti einnig haft samráð um að stöðva smáskilaboð þegar þau fara ekki eftir þekktu tæknilegu sendiferli þess sendanda sem þau eiga að stafa frá. Hert er á reglum um númerabirtingu almennra íslenskra talsímanúmera þegar hringt er erlendis frá og félögin sjálf geta ákveðið að afnema númerabirtingu farsímanúmera í varúðarskyni eða beitt öðrum varúðarúrræðum þegar uppruni er óljós.
Fram kemur að fjarskiptasvikin verða sífellt fjölbreyttari og að gervigreind verði líklega notuð við svik í framtíðinni.
„Áætlað er að fjöldi svikaskeyta sé um 0,5% til 3% af smáskilaboðum sem berast til landsins, en fjöldinn getur sveiflast mikið,“ segir í skýrslunni.