Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við birtum engar upplýsingar í þessum tilvikum nema það sé með vitund eða beinlínis komið frá viðkomandi,“ segir Friðrik Skúlason, einn aðstandenda Íslendingabókar.
Morgunblaðinu barst ábending frá lesanda um að forvitnilegt gæti verið að kanna hvernig skráningum á ættleiddum börnum væri háttað í Íslendingabók. Hvort þau væru skráð með sama hætti og önnur börn foreldra eða hvort það hefði áhrif á skráningu að kjörforeldrar þeirra væru ekki blóðforeldrar.
Friðrik segir í samtali við Morgunblaðið að í Íslendingabók séu einstaklingar tengdir foreldrum sínum eftir bestu fáanlegu heimildum. Alla jafna sé stuðst við þjóðskrá, kirkjubækur, manntöl eða útgefin ættfræðirit.
„Það gilda mjög ákveðnar reglur um þetta. Annars vegar er notast við opinberar upplýsingar en hins vegar við upplýsingar sem hlutaðeigandi sendir okkur beint,“ segir hann.
Þannig er ættleiddur einstaklingur aðeins tengdur kjörforeldrum sínum í Íslendingabók jafnvel þótt almennt sé vitað að hann sé ættleiddur. „Ef einstaklingurinn vill hins vegar sjálfur vera tengdur við sína blóðforeldra og þeir gera ekki athugasemdir við það þá getur hann fengið þá skráða. Í þessu tilviki er þó réttur blóðforeldra til að vera ekki tengdur viðkomandi sterkari,“ segir Friðrik. Vísar hann þar til þess að ef einhver gefur barn til ættleiðingar þá er það ekki lengur barn viðkomandi. Því sé það réttur hans að upplýsingar þar að lútandi séu ekki birtar opinberlega.
Friðrik getur þess jafnframt að ef ættleiddur einstaklingur er tengdur blóðforeldrum sínum geti hann jafnframt fengið aðgang að ættum kjörforeldra sinna sé þess óskað.
Mismunandi er því hvað er birt almenningi og hvað ættleiddur einstaklingur getur fengið að sjá sjálfur. Hann geti bæði séð ættir blóðforeldra og kjörforeldra. Þannig bendir Friðrik á að hægt sé að koma í veg fyrir að börn viðkomandi séu að stofna til óþarflega náinna kynna en dæmi hafi verið um slíkt.
Friðrik segir jafnframt að þetta sé ekki fullkomið kerfi en það sé þó það besta sem hægt sé að bjóða. Hann segir aðspurður að allskonar mál tengd ættleiðingum hafi komið upp á þeim tíma sem Íslendingabók hefur verið í notkun.
Rifjar hann upp þegar 17 ára strákur hafði samband og vildi vera tengdur við blóðföður sinn en ekki kjörföður. Friðrik kveðst hafa ráðlagt honum að bíða í þrjá mánuði þar til hann yrði 18 ára og gæti sjálfur farið fram á það. „En hann hafði aldrei samband aftur.“
Ættleiddur við fæðingu
Týndur bróðir í hálfa öld
Á Facebook-síðu Íslendingabókar var eitt sinn rifjuð upp saga af konu sem hafði samband og vildi tilkynna villu. Hún varð þess vör að á hana var skráður hálfbróðir, sammæðra, sem hún kannaðist ekki við. Vissulega mundi hún eftir því að móðir hennar, sem var löngu látin, hafði eignast barn sama dag en það barn hefði dáið við fæðingu. Umsjónarmenn Íslendingabókar skoðuðu málið og í ljós kom að barnið hefði ekki látist heldur verið gefið til ættleiðingar við fæðingu. Móðirin hefði hins vegar sagt börnum sínum að bróðir þeirra hefði látist. Svo liðu 50 ár.
Drengurinn vissi af blóðmóður sinni og kaus að vera tengdur henni í Íslendingabók en hafði hins vegar kosið að hafa ekki samband við hálfsystkini sín. Konan vissi ekki að hún átti hálfbróður á lífi en hann vissi af henni. Þau bjuggu í sama sveitarfélagi og aðeins nokkur hundruð metrar skildu að daglegar athafnir þeirra.