
Sigursveinn Kristinn Magnússon er fæddur 26. mars 1950 í Ólafsfirði og ólst þar upp. Hann gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla.
Hann lærði ungur á hljóðfæri er hann dvaldi í fóstri tvo vetur hjá Sigursveini D. Kristinssyni móðurbróður sínum og Ólöfu Grímeu Þorláksdóttur konu hans, en Sigursveinn stýrði þá Tónskóla Siglufjarðar sem hann hafði tekið þátt í að koma á fót í samvinnu við stéttarfélögin í bænum. Þessi tími á Siglufirði og áhrif námsins þar urðu til þess að tónlistin fangaði athyglina og einkum eftir að Magnús bróðir Sigursveins kom frá námi í Þýskalandi og tók að sér stjórn Tónskóla Ólafsfjarðar. Unglingsárin einkenndust af ýmsum dansmúsíktilraunum með jafnöldrum, frændum og vinum í Ólafsfirði.
Sigursveinn innritaðist í söngkennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1968 og stundaði jafnframt nám á horn til ársins 1971 að hann útskrifaðist með kennarapróf frá TR og lokapróf á horn frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.
Í TR hitti Sigursveinn lífsförunaut sinn og bekkjarsystur, Sigrúnu Valgerði Gestsdóttur söngkonu, sem lauk einnig kennaraprófi vorið 1971. Þau giftu sig á höfuðdaginn 29. ágúst sama ár og saman sigldu þau til framhaldsnáms í London um haustið og innrituðust í Royal Academy of Music þar sem þau voru við nám í þrjú ár, til vorsins 1974 að þau luku prófi. Veturinn 1974-1975 fór fjölskyldan vestur um haf þar sem Sigursveinn nam við Western Michigan University í Bandaríkjunum og lagði þar stund á kór- og hljómsveitarstjórn. Sigrún sótti þar einnig tíma hjá Fay Smith, þekktri söngkonu. Þá höfðu þau eignast dæturnar tvær, Diljá 1972 og Ólöfu 1974.
Eftir að heim kom haustið 1975 voru bæði hjónin ráðin í kennslu við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar sem þá var í örum vexti. Sigursveinn starfaði þar sem aðstoðarskólastjóri með nafna sínum og móðurbróður til ársins 1985 að Sigursveinn eldri lét af störfum. Sigursveinn yngri veitti skólanum forstöðu til ársins 2015.
Meðan þau hjónin voru í starfi fengu þau tvisvar styrk til framhaldsnáms, 1986-1987 við Tónlistarháskólann í Vínarborg og 1997-1998 dvöldu þau við nám þar sem þeim var boðið að dvelja í Kongegaarden, listamiðstöð í Korsör á Vestursjálandi. Með störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að skipulags- og félagsmálum á sviði tónlistar, þ. á m. gegnt formennsku í STÍR, Samtökum tónlistarskóla í Reykjavík, STS, Samtökum tónlistarskólastjóra, og stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum. Eftir að Sigursveinn lét af störfum sem skólastjóri innritaðist hann í Leiðsöguskólann í Kópavogi og útskrifaðist þaðan vorið 2019.
„Við hjónin eigum afdrep norður á Skagaströnd þar sem við höfum kynnst húnvetnskri fegurð og góðu fólki. Er þar aðeins að föndra á golfvellinum. Morgnar við Húnaflóann gegnt Strandafjöllum eru nærandi helgistundir. Ég fylgist í fjarlægð með starfi Tónskóla Sigursveins og þar hitti ég fyrrverandi samstarfsfólk og vini. Verkefnið núna er að stunda hreyfingu, daglegar göngur og sund. Leikfimin „Kraftur í KR“ er skemmtileg og holl, svo er vel þegið að afi skutli dóttursonum á æfingar, í tíma, í bíó. Ýmis áleitin efni eru rædd í bílnum, þetta eru gæðastundir sem ég er þakklátur fyrir. Ég er enn að syngja hjá Erni Magnússyni bróður mínum í kór Breiðholtskirkju og er þar í afskaplega góðum félagsskap.“
Fjölskylda
Eiginkona Sigursveins er Sigrún Valgerður Gestsdóttir, f. 15.4. 1950, söngkona og tónlistarkennari. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Gestur Eyjólfsson, f. 11.5. 1921, d. 20.3. 2000, garðyrkjumaður, og Halldóra Guðlaug Steindórsdóttir, f. 7.2. 1927, d. 6.1.2007, húsfreyja. Þau voru búsett í Hveragerði.
Dætur Sigursveins og Sigrúnar eru: 1) Diljá Sigursveinsdóttir, f. 14.9. 1972, fiðluleikari og tónlistarkennari í Reykjavík. Synir Diljár eru Jakob Árni Kristinsson, f. 24.11. 2005, stundar nám í matreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi, og Sigursveinn Valdimar Kristinsson, f. 5.1. 2009, er í 10. bekk Hagaskóla. Faðir þeirra er Kristinn Benedikt Valdimarsson, f. 13.2. 1974; 2) Ólöf Sigursveinsdóttir, f. 2.9. 1974, sellóleikari og tónlistarkennari í Reykjavík. Synir Ólafar eru Madhav Davíð Goyal, f. 23.5. 1998, og Ísak Aryan Goyal, f. 27.10. 2001. Báðir fæddust í Stuttgart á námsárum Ólafar. Þeir starfa á skrifstofu Wolt-flutningsfyrirtækis á Íslandi og Ísak Aryan stundar nám í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Sambýlismaður Ólafar er Mark van Rhijn, tónlistarheimspekingur og sellókennari. Fyrrverandi eiginmaður Ólafar er Amit Goyal verkfræðingur, fæddur í Nýju-Delí á Indlandi, búsettur í Þýskalandi.
Systkini Sigursveins: Magnús Magnússon, f. 2.5. 1937, tónlistarskólastjóri á Egilsstöðum; Helga Magnúsdóttir, f. 12.4. 1942, d. 14.3. 2000, húsmóðir og starfsmaður Pósts og síma í Ólafsfirði, og Örn Magnússon, f. 15.1. 1959, píanóleikari, tónlistarkennari, kvæðamaður og organisti í Reykjavík.
Foreldrar Sigursveins voru hjónin Magnús Magnússon, f. 1.10. 1906, d. 25.10. 1980, sjómaður, verkstjóri og skrifstofumaður, og Sigríður Kristinsdóttir, f. 23.12. 1914, d. 16.11. 2011. Þau voru búsett í Ólafsfirði.